Jólin koma líka í fangelsin

17. desember 2018

Jólin koma líka í fangelsin

Það verður mikið um að vera hjá strákunum á Litla-Hrauni á aðfangadag um þessi jól eins og þau fyrri. Dagskráin er nokkuð þétt. Tónlistaröðlingurinn Bubbi Morthens kemur um hádegisbil og spilar og syngur fyrir þá. Ræðir um lífið og tilveruna. Þeir hlusta með athygli á hann og eru þakklátir fyrir komu hans. Bubbi hefur frá mörgu að segja og nær vel til þeirra. Talar tæpitungulaust eins og honum er einum lagið. Hann hefur heimsótt þá nær óslitið um aldarfjórðungsskeið. Stundum hafa kunnir rithöfundar komið með honum og lesið úr bókum sínum eða ávarpað þá. Síðar um daginn er guðsþjónusta í íþróttahúsinu. Fangaprestur sér um hana og mæting er alla jafna góð. Söngfélagar frá Selfossi leiða sönginn með miklum krafti – karlar sem tekið hafa þátt í guðsþjónustunni um áratugaskeið. Strákarnir eru bara býsna duglegir við að taka undir marga sálmana eins og Bjart er yfir Betlehem. Þá sér maður stundum drengjasvip færast yfir andlit þeirra. Það er drengurinn sem ekki er núna heima hjá sér á jólunum. En kannski er hann þar í anda sínum að einhverju marki. Hann veit það einn og ef til vill ómar í huga hans: „Stjarnan mín og stjarnan þín, stjarnan allra barna.“

Þegar þessum dagskrárliðum er lokið snúa menn sér að jólamatreiðslunni sem sumir hverjir eru búnir að undirbúa nokkuð áður eins og hverjir aðrir góðir búmenn. Margir fara eftir uppskriftum að hátíðarmat – aðrir blanda saman ólíkum siðum sem hver kemur með úr sínum ranni. Hangikjötið er vinsælt sem og hamborgarhryggurinn – og stundum eitthvað framandi þegar vel liggur á mönnum. Oft er það sósan sem vefst fyrir þeim en iðulega er einhver góður sósumeistari á staðnum og fer hann þegar vel lætur milli fangadeilda og aðstoðar með sósuna. Því hvað er jólamatur án góðrar sósu?

Menn setjast saman að snæðingi á flestum fangadeildum og njóta matarins. Þó nokkur samheldni kemur í ljós í hópnum og vinabragur svífur yfir vötnum. Það er nokkuð létt yfir mannskapnum þó svo hugur margra sé staddur annars staðar. Fangelsi er nefnilega staður sem enginn vilja vera á og síst á jólum.

Og menn eru ósparir á það að óska hver öðrum gleðilegra jóla!

Jólagjafir berast úr ýmsum áttum. Margir ættingjar senda gjafir og ýmis félagasamtök eins og Hvítasunnumenn og Hjálpræðisherinn gefa öllum föngum nytsamar gjafir. Gjafirnar eru ekki teknar upp í einrúmi heldur í viðurvist fangavarða. Nýjum föngum finnst það dálítið skrítið en þeir sem eru hagvanir láta það ekki trufla sig mikið. Fangaverðir inna þetta starf af hendi með varfærni og skilningi eins og allt annað ef út í það er farið.

Fangar skreyta klefa sína mismikið eins og gengur en þó eru takmörk á því. Fangelsi er í eðli sínu staður þar sem takmarkanir eru í fyrirrúmi. Ramminn utan um einstaklinginn er allur þrengri en fyrir utan. Ein jólasería er úti í glugga eða á vegg. Kannski lítið jólatré með blikkandi ljósum. Þeim er ekki heimilt að hafa logandi kerti. En jólamyndir og glitrandi skraut prýða korktöflu og veggi hjá sumum. Og jólalögin óma að sjálfsögðu á ýmsum tungumálum úr sjónvarpi og spilurum.

Margir fangar fá heimsóknir um jólin og þá eru fagnaðarfundir. Börn og makar, foreldrar og vinir koma. Þá fá mörg börn þeirra sem koma afhenta svokallaða englapakka en það eru gjafir til barna sem fangar eiga. Því verkefni hefur fangaprestur stýrt í tólf ár í samvinnu við Grensássöfnuð.

Jólatré er sett upp á sameiginlegu rými utan dyra á Litla-Hrauni þar sem það blasir við flestum. Og girðingar  eru skreyttar með jólasveinum og snjókörlum sem hafa verið búnir til á trésmíðaverkstæði fangelsisins.

Sumir fangar telja jólin sem þeir eru í fangelsi. Einn sagði til að mynda eitt sinn að þetta væru sjöundu jólin hans í fangelsi. En á næstu jólum yrði hann frjáls maður og héldi þau annars staðar. En hann sagði þó að jólin hefðu alltaf komið til sín í fangelsinu og enda þótt þau hefðu stundum tekið á hann sálarlega þá gáfu þau alltaf eitthvað nýtt og meira af sér sem hann var þakklátur fyrir. En hann hlakkaði að sjálfsögðu miklu meira til jólanna úti í frelsinu. Sjö jól í fangelsi væru yfrið nóg. Öll næstu jól yrði hann frjáls maður – það var gjöf sem hann ætlaði að gefa sínu fólki. Og sjálfum sér líka.

Hreinn S. Hákonarson,
fangaprestur þjóðkirkjunnar

Hér má nálgast heimasíðu Hreins

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls