Styrkjum úthlutað úr Tónmenntasjóði kirkjunnar
Þann 3. janúar síðastliðinn var úthlutað styrkjum úr Tónmenntasjóði kirkjunnar. Sjóðurinn er myndaður af hlutfalli greiðslna fyrir notkun á höfundarvarinni tónlist við helgihald kirkjunnar og greiðir Stef, samtök um réttindi tónhöfunda og réttvarins efnis, árlega til sjóðsins.
Sjóðnum bárust 23 umsóknir og úthlutað var til 11 verkefna, samtals 2.2 milljónum króna.
Afhending styrkjanna fór fram í Safnaðarheimili Háteigskirkju, að viðstöddum Biskupi Íslands, frú Agnesi M. Sigurðardóttur og framkvæmdastjóra Stefs, Guðrúnu Björk Bjarnadóttur.
Styrki hlutu: Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson til að þýða norskan söngleik um jólaguðspjallið, Ásbjörg Jónsdóttir til að semja orgelverk fyrir nýtt orgel Guðríðarkirkju, Útgáfufélagið Alvör til að gefa út kirkjuleg kórverk ungra tónskálda, Björn Steinar Sólbergsson til að gefa út geisladisk með íslenskum orgelverkum, Dómkórinn í Reykjavík til að fá tvö ung tónskáld til að semja verk sem kallast á við kórverk Jóns Nordal, Óttusöngvar á vori, en tónskáldin eru bæði barnabörn Jóns, Halldór Hauksson til búa til útgáfu sálmalagaútsetningar J. S. Bach með íslenskum textum, Kammerkórinn Hymnodía til að láta semja nýtt kórverk, Tríó Jóns Rafnssonar til að gefa út geisladisk með sálmum, Kristján Hrannar Pálsson til að semja orgelverk um hlýnun jarðar, Kór Akureyrarkirkju til að láta semja sálm fyrir kórasamveru kirkjukóra við Eyjafjörð og Þorvaldur Örn Davíðsson til að gefa út eigin kirkjuleg kórverk sem dreift yrði til allra organista.
Stjórn Tónmenntasjóðs kirkjunnar skipa: Hildigunnur Rúnarsdóttir, tónskáld, Hrafn Andrés Harðarson rithöfundur og Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar.