Frétt af umhverfismálum: „Öll tré skógarins fagni...“
Stundum er spurt hvar umhverfisvernd byrji og því gjarnan svarað svo að fyrstu skref hennar séu aldrei langt undan hverjum einstaklingi. Eða með öðrum orðum að upphaf hennar liggi í athöfn og hugsun hvers og eins. Manneskjan býr í umhverfinu og hefur áhrif á það hverja einustu stund.
Þær eru margar leiðirnar til að ganga fram með auðmýkt og tillitssemi gagnvart umhverfinu.
Ilmur og angan úr skógi
Skógrækt er hugleikin mörgum okkar. Skógurinn er vistkerfi sem sýnir í hnotskurn hringrás lífsins, dregur í sig koltvísýring og skilar súrefni. Í honum þrífst fjöldi lífvera, smárra sem stórra. Trén í skóginum geta verið ilmþung, björkin ilmar, grenið og öspin. Allir þekkja ilminn og einkum eftir þétta rigningu á vordegi þegar brumið lætur á sér kræla. Það er vorið í loftinu. Og skáldin hafa ort um ilminn í skóginum og skógarkliðinn sem og kyrrðina. Hvað ilmar betur en þéttur skógur og ljósþyrstur á heitum sumardegi undir söng fuglanna?
Líf í skóginum
Fyrir nokkru rakst undirritaður á bók eftir Peter Wohlleben sem heitir í enskri þýðingu: The Hidden Life of Trees, eða á íslensku Hið hulda líf trjánna. Höfundur þessi er þýskur, fæddur árið 1964, með menntun í umhverfis- og skógarvarðafræðum. Hann hefur ritað nokkrar bækur sem snerta umhverfismál og þá einkum um skóga, dýr og veðurfar. Bókin um hið hulda líf trjánna vakti strax mikla athygli og varð metsölubók í heimalandi hans.
Pétur Wohlleben var um áratugaskeið starfsmaður timburiðnaðar og hafði það verk með höndum að fara um skóga og meta þau tré sem hæfust voru til niðursögunar svo úr yrðu lagleg smíðaborð. Hann þekkti skógana vel og trén. Síðar kynntist hann skógunum smám saman með allt öðrum hætti, kyrrð þeirra, fegurð og lífi. Skógurinn greip huga hans sem lifandi samfélag ólíkra trjátegunda og hann varð skógarins maður.
Í skógariðnaði eru notuð hvers kyns tæki og tól. En Pétur Wohlleben sá til þess að þau voru útlæg ger úr skóginum í Hümmelþorpinu og gripið skyldi til gamalla aðferða í skógarvinnu eins og að nota hross til að flytja trjáboli. Hann komst nefnilega að þeirri niðurstöðu að trén fundu til sem hverjar aðrar lífverur og það bæri að virða. Þau hefðu minni og ættu í samskiptum í gegnum ræturnar; væru félagsverur og styddu hvert annað. Þess vegna hefðu þau ekkert á móti því að kúra þétt hvert upp við annað og skógfræðingar hafa komist að raun um að beykitré eru frjósamari vaxi þau þétt saman. Það væri bara timburiðnaðurinn sem vildi hafa gott rými á milli trjánna svo þau yxu hratt og vel í ákveðinn tíma, yrðu ekki gömul eins og tré gjarnan verða fái þau sinn eðlilega vaxtarhraða. Timburiðnaðurinn „aflífar“ nefnilega trén og hugsar eingöngu um skjótfenginn hagnað en ekki lífríkið.
Hér er á ferð siðferðilegt viðhorf til skógarins. Menn hafa þá tilhneigingu að líta aðeins á skógana sem súrefnisverksmiður og timburforða. Höfundur er hallur undir að skógar fái að vaxa að eigin vild og ótruflaðir af hagsmunum timburframleiðenda og annarra. Slíkt viðhorf er vissulega umdeilt.
Meira en sýnist
Tré tala saman með ilmi sínum og angan. Sum gefa frá sér lykt á hættustundu til að verjast dýrum og gera skyldum nágrannatrjám sínum viðvart um að hætta sé á næsta leiti. Þau bregðast við og efnabreyting verður í blöðum þeirra og hrekja ógnvaldinn á brott. Trén sýna líka ólík viðbrögð gagnvart skorkvikindum. Eikin hefur í berki sínum og laufblöðum beiskan keim sem hrellir óværuna sem sækir að þeim í það og það sinnið. Rótarkerfi trjáa er líka geysi öflugt og gegnir margvíslegu hlutverki, ekki bara að draga til sín næringu og vökva. Höfundur telur hugsanlegt að ræturnar samsvari heilabúi mannsins og þar sé minni þeirra. Undir skógarbotninum liggur þéttriðið net sveppaþráða út frá trjárótum. Örverur á borð við sumar tegundir sveppróta nýtast trjám vel við öflun vatns og næringarefna og fá sykrur í staðinn. Einnig notast trén við rafbylgjur þannig að boð berast frá þeim með leifturhraða ljóssins.
Trén eiga margt sameiginlegt með manninum eftir því sem Wohlleben telur. Sé jafnvægi þeirra til dæmis raskað er hætta á ferð og þau geta orðið ýmsum sýkingum að bráð. Breyttar aðstæður þeirra geta líka truflað þau eins og þegar skyndilegt rými myndast við hlið þeirra og óbeislað sólarljósið hellist að þeim. Stóraukin birta hleypir krafti í greinavöxt og nýtist þá trénu síður til varnar ef með þarf. Þá eldast trén – hrukkur einkenna boli þeirra! – og þau verða viðkvæmari með aldrinum gagnvart sjúkdómum og þeim sem búa í sambýli með þeim í skóginum – í myrkviði moldarinnar leynast bæði vinir og óvinir. Flest dýrin í skóginum eru þó ekki hættuleg trjánum. Með aldrinum verða svo krónur trjánna smám saman laufminni eins og þunnhærður mannshvirfill. En trén eru mörg hver ótrúlega lífsseig og brotnir bolir þeirra eru margir lengi með lífsmarki og hýsa reyndar alls konar líf þegar nánar er að gáð.
Umhyggja og virðing
Margt er orðað með óvenjulegum hætti í bók Wohllebens en sumt ekki. Víst er að náttúrufræðingar kannast við margt og samsinna því – en hafa líka gagnrýnt hana harðlega og kalla hana „hálfsannleika“. Finnst þeim vanta upp á vísindin hjá höfundi – en hann „manngerir“ trén og talar um skóginn á tilfinningalegum nótum. Framsetning hans er á vissan hátt í skáldlegum, ljóðrænum búningi, og með þeirri aðferð nær hann vel til lesenda. Sennilega er það að hluta til skýring á því hve miklum vinsældum bók þessi átti að fagna. Eftir honum er haft að vísindalegt málfar skafi allar tilfinningar burtu og þess vegna noti hann skáldlegt og hversdagslegt málfar þegar hann talar um lífríki skógarins.
Hugur höfundarins er auðmjúkur gagnvart umhverfi og náttúru. Hann kallar fram umhugsun um umhverfisstefnu og umræðu. Kærleiksrík umhyggja hans og virðing fyrir náttúrunni kemur víða fram og getur verið öðrum góð fyrirmynd. Honum hefur tekist að vekja athygli á málstað umhverfisins með undraverðum hætti í þessum einlæga búningi um trén sem lifandi verur. Sem er gott út af fyrir sig.
Umhverfisstefna í verki - græn kirkja
Umhverfisstefna þjóðkirkjunnar liggur fyrir en hlýtur samt eðli máls samkvæmt ætíð að vera í mótun – sjá nánar hér.
Mikilvægast er að virkja fólk í kirkjunum til starfa að vistvænu umhverfi, hver á sínum stað en þó allir saman. Jörðin er bústaður allra. Hagur jarðarbúa er í húfi og því er enginn stikkfrí. Jafnvel þótt skiptar skoðanir séu á einhverjum þáttum umhverfismála þá eru eflaust allir nokkuð einhuga um að manneskjan megi ekki grafa undan fagurri hugsjón um betra og heilsusamlegra umhverfi þar sem jafnvægi er milli þess sem nýtt er í náttúrunni og þess sem er gefið til baka.
Kjarni málsins snýst um ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum. Hvers konar jörð vilja menn skila til afkomendanna?
Mikilvægan hluta af svari við þeirri spurningu er að finna í umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar þar sem segir: „Hlutverk mannkyns er að yrkja jörðina, vernda hana og næra, og nýta gæði hennar af umhyggju og virðingu með sjálfbærni að leiðarljósi.“
Leiðarljósið er sjálfbærni og hún felst í því að njóta þess sem jörðin býður okkur en án þess að skerða hlut komandi kynslóða í því að njóta þess á sama hátt og við. Tillitsemin er því augljós farvegur sjálfbærninnar.
Og takist það munu öll tré skógarins svo sannarlega fagna og hið hulda líf þeirra verða sýnilegt!
Himinninn gleðjist og jörðin fagni,
hafið drynji og allt sem í því er,
foldin fagni og allt sem á henni er,
öll tré skógarins fagni með þeim...
(Sálmur 96.11-12)
Hreinn S. Hákonarson, fangaprestur þjóðkirkjunnar.