Kammerkór Hallgrímskirkju Schola cantorum ásamt kammersveit
Schola cantorum, kammerkór Hallgrímskirkju, ásamt 11 manna mjög óvenjulegasamsettri kammersveit flytur Requiem eftir Alfred Schnittke og frumflytur einnig Ave verum corpus og Diliges Dominum eftir Sigurð Sævarsson, í Hallgrímskirkju sunnudaginn 27. janúar nk. kl. 16:00.
Tónleikarnir eru hluti af Myrkum músíkdögum og eru haldnir í samvinnu við Listvinafélag Hallgrímskirkju.
Requiem (1975) eftir rússneska tónskáldið Alfred Schnittke (1934-1998) er seiðþrungin tónsmíð. Alvöruþrunginn hljómur sálumessunnar dvelur gjarnan í innhverfri íhugun sem sækir í hið forna tónmál kirkjunnar.
Einnig sveiflast verkið skyndilega í dramatíska kafla eftir messuþáttum þar sem jafnvel gætir rokk áhrifa með stuðningi rafgítars og rafbassa með óvæntum tilþrifum frá slagverki.
Verkið var skrifað sem leikhústónlist fyrir leikskáldið Schiller og verk hans Don Carlo - en á þessum tíma mátti ekki flytja trúarlega tónlist í Sovétríkjunum svo í raun lék Schnittke vel á aðstæður.
Spennandi er að leiða saman íslenskan atvinnusönghóp og hljómsveit í þessari 44 ára gömlu tónsmíð þar sem hinn gamli Requiem texti er fluttur á áhrifaríkan hátt þar sem tónmálið er í senn klassískt og nútímalegt með áhrifum frá rokk- og leikhústónlist. Þetta er fyrsti heildarflutningur á Íslandi á þessu heimsþekkta verki.
Sigurður Sævarsson hefur verið mikilvirkur í að semja tónlist fyrir kóra undanfarin ár sem hefur verið flutt bæði hérlendis og víðar í Evrópu. Þar hefur a capella tónlist verið áberandi þar sem tær og hæg framvinda er einkennandi. Tónskáldið leggur áherslu á að „hver rödd heyrist og hvert hún er að fara.“ Ave verum corpus og Diliges Dominum eru bæði samin árið 2018. Þau eru hluti af röð a capella kórverka sem Sigurður samdi við latneska texta á því áriSigurður er skólastjóri Nýja tónlistarskólans og söngvari í Schola cantorum, auk þess að vera formaður Listvinafélags Hallgrímskirkju.
Hinn margverðlaunaði kammerkór Hallgrímskirkju, Schola cantorum, var stofnaður árið 1997 af stjórnanda sínum Herði Áskelssyni, kantor við Hallgrímskirkju.
Strax árið eftir stofnun bar kórinn sigur úr býtum í alþjóðlegri kórakeppni í Noyon í Frakklandi. Allar götur síðan hefur starfsemi Schola cantorum verið viðamikil og fjölbreytt sem endurspeglast í efnisskrá sem spannar fjölröddun endurreisnar til samtímatónlistar. Þá hefur frumflutningur íslenskra kórverka jafnan vegið þungt.
Kórinn hefur sungið tónleika víðsvegar um Evrópu en einnig í Japan og Bandaríkjunum þar sem Schola cantorum kom fram á fernum tónleikum í boði Los Angeles Philharmonic á Reykjavík Festival í Los Angeles 2017.
Schola cantorum er jafnan skipaður vel menntuðum atvinnusöngvurum sem takast á við þau krefjandi verkefni sem liggja fyrir hverju sinni. Árið 2007 var Schola cantorum tilnefndur til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs og var valinn Tónlistarflytjandi ársins
2016 á Íslensku tónlistarverðlaununum. Einnig vann kórinn það þrekvirki að frumflytja Eddu II eftir Jón Leifs með Sinfóníuhljómsveit Íslands á síðasta ári og var verkið einnig tekið upp til geisladiskaútgáfu hjá sænska útgáfufélaginu BIS. Auk hefðbundinna klassískra stórverka eftir Bach og Händel o fl. sem kórinn hefur flutt m.a. með Alþjóðlegu barokksveitinni í Hallgrímskirkju hefur kórinn einnig verið í samstarfi við ýmsa listamenn eins og Björk, Jóhann Jóhannsson og sænska tilraunahópinn Wildbirds& Peacedrums. Kórinn hefur einnig verið í samstarfi við Sony og söng inn á tölvuleikinn God of War sem kom út hjá Sony vorið 2018.
Kammersveitina skipa:
Gítar: Daníel Friðrik Böðvarsson Orgel: Björn Steinar Sólbergsson Píanó: Anna Guðný Guðmundsdóttir
Selesta: Helga Bryndís Magnúsdóttir
Rafbassi: Richard Korn
Slagverk: Steef van Oosterhout, Eggert Pálson, Pétur Grétarsson og Frank Aarnink
Básúna: Carlos Caro Aguilera
Trompet: Eiríkur Örn Pálsson
Einsöngvarar: Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir sópran, Lilja Dögg Gunnarsdóttir alt, Guðmundur Vignir Karlsson tenór, Rakel Edda Guðmundsdóttir sópran og Vigdís Sigurðardóttir sópran.
Stjórnandi: Hörður Áskelsson
Miðaverð: 4.500 kr.
Miðasala á Tix.is og í Hallgrímskirkju klukkustund fyrir viðburðinn.