Alþjóðlegur bænadagur kvenna í 60 ár
Alþjóðlegur bænadagur kvenna hefur verið haldinn hátíðlegur á Íslandi í samfellt 60 ár, frá árinu 1959. Dagurinn er ávallt fyrsta föstudag í mars sem nú ber upp á 1. mars.
Á hverju ári er sent út efni sem kristnar konur í ákveðnu landi hafa skrifað. Að þessu sinni eru það konur í Slóveníu sem senda sögur sínar og bænir. Bæna- og samverustundir eru haldnar víða um land. Á höfuðborgarsvæðinu er samvera í kirkju Óháða safnaðarins, Háteigsvegi 56, kl. 18:00.
Kristján Hrannar og Óháði kórinn annast tónlistina og konur úr undirbúningsnefnd bænadagsins á Íslandi flytja lestra og bænir og segja frá aðstæðum kvenna í Slóveníu. Léttar veitingar á eftir. Alþjóðlegur bænadagur kvenna á sér rætur í bænahópum kvenna í N-Ameríku á 19. öld en fór að breiðast út um heiminn á fyrri hluta 20. aldar.
Þann 8. mars 1935 var dagurinn fyrst haldinn hérlendis og þá á vegum Kristniboðsfélags kvenna en frá árinu 1959 hefur hann verið árviss viðburður, í samfellt 60 ár. Fyrstu þrjá áratugina var bænadagurinn í umsjá Hjálpræðisherskvenna. Árið 1964 hafði Auður Eir Vilhjálmsdóttir forystu að því að kalla saman samkirkjulegan hóp kvenna til að undirbúa bænadaginn og hefur verið svo æ síðan, í 55 ár.
Allir velkomnir.