Dr. Einar Sigurbjörnsson, professor emeritus, kvaddur
Dr. Einar Sigurbjörnsson, professor emeritus, verður jarðsunginn í dag frá Dómkirkjunni í Reykjavík.
Hann fæddist í Reykjavík 6. maí 1944 og lést á Vífilsstöðum 20. febrúar s.l. Foreldrar hans voru Sigurbjörn Einarsson, biskup, og Magnea Þorkelsdóttir, húsfreyja. Eftirlifandi eiginkona hans er Guðrún Edda Gunnarsdóttir, náttúrufræðingur og fyrrverandi sóknarprestur og eignuðust þau þrjú börn, Sigurbjörn, Guðnýju og Magneu.
Að loknu guðfræðiprófi árið 1969 vígðist hann sem sóknarprestur til Ólafsfjarðar; þjónaði síðar á Hálsi í Fnjóskadal og að Reynivöllum í Kjós. Doktorsprófi lauk hann frá Lundarháskóla árið 1974. Hann kenndi við guðfræðideild háskólans frá 1975 og allt til ársins 2014 en þá lét hann af störfum fyrir aldurs sakir.
Dr. Einar gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Háskóla Íslands og þjóðkirkjuna. Menn vissu að ráð hans voru holl og viturleg.
Segja má að dr. Einar hafi haft mótandi áhrif og farsæl á heila kynslóð guðfræðinga og presta en trúfræði og trúarheimspeki voru aðalkennslugreinar hans. Hann var forystumaður í kirkjunni í gegnum störf sín í handbókarnefnd, helgisiðanefnd og Sálmabókanefnd auk annarra mikilvægra nefnda innan lands sem utan er fjölluðu um ýmis skipulagsmál kirkjunnar og kenningamál. Þá sat hann um hríð á kirkjuþingi sem fulltrúi guðfræðideildar. Fræðastörf hans voru mikil að vöxtum og bækur hans mikil náma fyrir stúdenta og allt kirkjufólk.
Dr. Einar var ljúfur maður í allri viðkynningu, hlýr og góður kennari, og mannkostamaður sem mikil eftirsjá er að. Íslenska þjóðkirkjan hefur misst þar öflugan liðsmann og sendir eiginkonu hans og börnum sem og ættingjum hans innilegar samúðarkveðjur en þeirra er missirinn mestur. Hann er kvaddur með virðingu og þökk, Guð blessi minningu hans.