Séra Sigurður Pálsson, pastor emeritus, kvaddur

12. mars 2019

Séra Sigurður Pálsson, pastor emeritus, kvaddur

Séra Sigurður Pálsson verður jarðsunginn frá Hallgrímskirkju í dag.

Hann fæddist í Reykjavík 19. september 1936 og lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 2. mars s.l. Foreldrar hans voru Páll Sigurðsson prentari og Margrét Þorkelsdóttir, húsfreyja. Eftirlifandi eiginkona hans er Jóhanna G. Möller, söngkona, og eignuðust þau tvær dætur, Ágústu Helgu (d. 1990) og Margréti Kristínu.

Séra Sigurður var fjölmenntaður maður. Lauk almennu kennaraprófi og söngkennaraprófi 1957, kandídatsprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1986 og doktorsprófi í menntunarfræði frá Kennaraháskóla Íslands 2008.

Um áratugaskeið var kennsla hans aðalstarf og síðar margvísleg stjórnunarstörf á sviði fræðslumála.

Á langri ævi lét séra Sigurður fræðslumál mjög til sín taka og ritaði fjölmargar greinar um þau mál sem og kennslubækur. Í miðlun sinni á boðskap kristinnar trúar leitaðist hann við að sameina helstu kennslufræðilegu nýjungar hverju sinni hvort tveggja kennurum og nemendum til gagns. Hann var öflugur kennari og reynsla hans á þeim vettvangi nýttist síðar vel í prestsskap. Bækur hans um börn og bænir, og um trú barna, voru kærkomin nýlunda. Bók hans um sorg barna var tímamótverk sem hefur reynst mörgum huggunarrík og traust stoð. Lesendur fundu að þar ritaði maður sem sjálfur hafði misst mikils.

Hann var vígður til prestsþjónustu í Hallgrímsprestakalli í Reykjavík 1988 og varð þar síðar sóknarprestur 1997 og lét af embætti 2006. Samhliða því var hann iðulega kallaður til kennslu við guðfræðideild háskólans og á menntavísindasviði. Í allri framsetningu sinni í ræðu og riti var hann skýr og rökfastur, nútímalegur en þó með traustar rætur úr kristilegu starfi leikmannahreyfingarinnar í KFUM.

Séra Sigurður sat í fjölmörgum nefndum er tengdust fræðslu- og kirkjumálum eins og í þýðingarnefnd Gamla testamentisins en hann var framkvæmdastjóri Hins íslenska Biblíufélags hátt í áratug.

Þjóðkirkjan treysti mjög á leiðsögn hans þegar kom að öllu því er snerti samband kirkju og skóla á umbreytingatímum. Þar hafði hann skýra sýn og virti bæði forsendur skólastarfsins og kirkjunnar. Leiðsögn hans var holl, fyllt hlýju og mannviti.

Séra Sigurður Pálsson er kvaddur með virðingu og þökk. Guð blessi minningu hans.


  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls