Biskup viðstödd stofnun safnaðar grísku rétttrúnaðarkirkjunnar
Þann 7. apríl nk. stofnar gríska rétttrúnaðarkirkjan íslenskan söfnuð með athöfn sem fer fram í Friðrikskapellu. Athöfnin er öllum opin.
Agnes biskup verður viðstödd atburðinn og þjóðkirkjan fagnar þessum nýja vettvangi fyrir fólk til að iðka sína trú.
Fimmtudaginn 4. apríl bauð Agnes biskup fulltrúum rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, séra Timur Zolotuskiy og grísku rétttrúnaðarkirkjunnar, metropolitan Cleophas Strongylis í biskupsgarð. Einnig voru viðstaddir aðalræðismaður Grikkja á Íslandi, Rafn Alexander Sigurðsson og eiginkona hans Anna Júlíana Sveinsdóttir, auk Þorvaldar Víðissonar biskupsritara.
Réttrúnaðarkirkjan í heiminum stendur á miklum tímamótum þessa stundina þar sem klofningur hefur myndast innan hennar. Rússneski Patríarkinn í Moskvu hefur tekið ekumeniska Patríarkann í Konstantínópel og alla sem honum fylgja út af bænaskrá sinni. Á síðasta ári klauf svo úkraínska rétttrúnaðarkirkjan sig frá henni rússnesku eftir þó nokkur ár af deilum milli landanna tveggja.
Agnes vildi með heimboðinu stuðla að samtali og vináttu á milli hópa sem ekki eru um allt sammála.
Þjóðkirkjan óskar söfnuði grísku rétttrúnaðarkirkjunnar til hamingju með þennan stóra áfanga.