Listsýningar í kirkjum
Í fordyri Hallgrímskirkju er listsýningin Birtingarmyndir og eru verkin eftir Guðrúnu Sigríði Haraldsdóttur (1956-2018). Síðustu ár sín bjó hún í London og vann þar að list sinni og ýmsu sem henni tengdist eins og hönnun og uppsetningu sýninga víða um heim. Hún var mjög hæfileikarík listakona sem vann einnig sem leikmynda- og búningahönnuður fyrir kvikmyndir og sjónvarp bæði hér heima og í útlöndum.
Sýningin í Hallgrímskirkju er minningarsýning um listakonuna og valdi sonur hennar flest verkanna. Til stóð að hún héldi einkasýningu í kirkjunni með sérstökum verkum en henni entist ekki aldur til þess. Sjálf sagðist hún glíma við mannlega tilvist í verkum sínum; hvernig einstaklingurinn og umhverfið tækjust á við lífið. Verkin í forkirkjunni endurspegla það og reyna að tjá hið illsegjanlega í lífi mannsins. Nú eru síðustu forvöð að sjá þessa sýningu því henni lýkur næstkomandi 26. maí.
Verk Daða Guðbjörnssonar (f. 1954), listmálara, eru til sýnis í sýningarrými Háteigskirkju, Galleríi Göngum. Yfirskrift sýningarinnar eru: „Málað í nú-húi“. Það eru litafjörug listaverk sem þar má sjá. Daði hefur tamið sér mjög svo persónulegan stíl sem einkennist af flúri og sveigjum og mýkt. Sýningu Daða lýkur innan skamms.
Margar kirkjur hafa gott sýningarrými og bjóða ýmsum listamönnum að sýna verk sín í þeim. Nefna má auk fyrrnefndra kirkna, Grensáskirkju og Neskirkju.
Myndin með fréttinni er eftir Daða Guðbjörnsson og er eitt verkanna í Háteigskirkju.