Þjóðbúningamessa í sveitinni

13. maí 2019

Þjóðbúningamessa í sveitinni

Það eru margar messurnar nú til dags: göngumessa, skátamessa, æðruleysismessa, plokkmessa, prjónamessa, Liverpoolmessa, lögreglumessa, þjóðbúningamessa, hestamessa, og þannig mætti eflaust lengi telja.

Markmiðið með þeim er að draga fram einhvern þátt í samfélaginu eða hóp og beina athyglinni að honum um stundarsakir vegna góðs málefnis eða hlutverks í samfélaginu. Einnig að tengja jákvæð gildi í samfélaginu við kirkjulegt starf, t.d. hreyfingu í göngumessum eða prjónaáhuga safnaðarfólks. Í guðsþjónustum af þessu tagi er þess að sjálfsögðu ætíð gætt að ekki sé skyggt á sjálfan tilgang helgihaldsins og boðunina. Það sem messan er kennd við fær með öðrum orðum sinn hæfilega sess án þess að skyggja á krossinn.

Í gær var boðað til þjóðbúningamessu í Villingaholtskirkju. Nokkur fjöldi kvenna var þar kominn í íslenskum búningum auk annarra gesta. Sóknarpresturinn, sr. Guðbjörg Arnardóttir, þjónaði fyrir altari og prédikaði. Ingi Heiðmar Jónsson, lék á orgel og kór Hraungerðis- og Villingaholtssókna söng.

Sr. Guðbjörg minnti í ræðu sinni m.a. á að nú væri mæðradagurinn og því tilvalið að vekja athygli á íslenskum búningi kvenna í þjóðbúningamessu. Margar konur hefðu fengið búning móður sinnar, ömmu eða frænku. Sumar hefðu saumað búninginn sjálfar í stopulum tómstundum og þær vissu það í hjarta sínu að þeir gengju síðar til dætra þeirra eða annarra kvenna í ættinni. Öllum þætti þeim vænt um búninginn sem ætíð væri farið vel með enda mikil alúð og natni farið í saumaskapinn. Í öllu þessu endurspeglaðist kærleikurinn frá mæðrum til dætra og sinna nánustu.

Að lokinni guðsþjónustu var hópmynd tekin af kirkjugestum á kirkjutröppum og síðan boðið í messukaffi sem var í „búningi“ Pálínuboðs í Þjórsárveri. Þar voru bornar fram ljúffengar heimagerðar veitingar og þá tók kórinn nokkur lög meðan fólk gæddi sér á góðgætinu. Síðan var samsöngur.
Þessi kirkjustund og samfélag að henni lokinni var gott dæmi um safnaðarstarf í íslenskri sveit eins og það gerist best. Stund sem var eflaust öllum dýrmæt þar sem andi vináttu og kærleika sveif yfir vötnum.

Villingaholtskirkja var byggð á árunum 1910-1911. Hún tekur 100 manns í sæti, altaristaflan er erlend, Kristsmynd, frá 1878.

  • Frétt

  • Messa

  • Samfélag

  • Trúin

  • Samfélag

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls