Hanagal í Hallgrímskirkju

12. júní 2019

Hanagal í Hallgrímskirkju

Hallgrímskirkja

„Hann Tumi fer á fætur
við fyrsta hanagal,
að sitja yfir ánum
lengst inni í Fagradal.“

Svo kvað guðfræðingurinn og skólastjórinn Freysteinn Gunnarsson. Og iðulega var þetta erindi og þau hin tvö í minni lesandans sungin í skólum við hið fagra lag Mozarts. Draumar sveitadrengins þar sem smalahóllinn var höllin en það vantaði drottninguna. Þá vantaði auðvitað allt. Og Tumi smaladrengur stendur kannski bara fyrir alla adamsogevuniðja (já, það er rétt þú last þetta orð fyrst hér) sem þráir hamingju og maka.

Skólavörðuholtið er ekki hóll en þar stendur kirkjuhús sem er eins og höll, Hallgrímskirkja.

En hanagalið kallar reyndar ekki fram góð hugrenningartengsl í kristinni trú. Rifjar upp afneitun lærisveinsins Péturs á ögurstundu meistarans. „Hátt galar haninn hér/í hvers manns geði,“ kvað sr. Hallgrímur Pétursson í Passíusálmunum, og minnir á hinn mannlega breyskleika. En þess vegna er kirkjan einmitt til.

Þrátt fyrir þetta vafasama orð sem gal hanans hefur á sér í sögu kristninnar þá er hanagalið líka merki um að nýr dagur sé hafinn og nú skuli hafist handa til góðra verka. Gal hans er náttúrulegt merki um að fólk skuli rísa á fætur. Sumir eru morgunhanar og aðrir nátthrafnar. Ekki í fyrsta sinn sem menn sjá líkindi með sjálfum sér og fuglum.

Í morgun kl. 8.00 þegar sól braut sér leið í gegnum skýin hófst morgunmessa í Hallgrímskirkju á Skólavörðuholti, nokkurs konar hanagal. Og jákvætt hanagal. Árdegisguðsþjónusta sem stendur fólki til boða allan ársins hring.

Trúfastur og öflugur söfnuður kom saman í Hallgrímskirkju í morgun. Hann hafði svarað kalli kirkjunnar og morgunsólarinnar og naut þar fagurrar helgiþjónustu. Setið var inni í kór og horft fram kirkju, sjónarhorn sem hinni almenni kirkjugestur hefur jafnan ekki. Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir, þjónaði ásamt messuþjónum.

Að lokinni guðsþjónustu var snæddur morgunverður og fólk ræddi saman. Sum voru býsna vel kunnug hvert öðru enda sækja þau árdegismessuna reglulega.

Að sögn sr. Irmu Sjafnar er það alltaf ákveðinn kjarni sem kemur til þessarar árdegismessu, svo nýir og nýir inn á milli. Þó nokkuð er um að útlendingar taki þátt í helgihaldinu. Upphaf þessa messuhalds má rekja allt til ársins 2003.

Kirkjur reyna með ýmsu móti að koma til móts við þarfir fólks og óskir. Guðsþjónustur eru á ýmsum tímum, fyrir morgunhana, dagsspörva, nátthrafna og þannig má eflaust lengi telja. Þá má ekki heldur gleyma því að hver flýgur svo sem hann er fiðraður.

  • Frétt

  • Messa

  • Samfélag

  • Samfélag

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls