Sr. Ólafur Jens Sigurðsson, pastor emeritus, kvaddur

14. júní 2019

Sr. Ólafur Jens Sigurðsson, pastor emeritus, kvaddur

Séra Ólafur Jens Sigurðsson

Sr. Ólafur Jens Sigurðsson, fyrrum sóknarprestur, lést 11. júní s.l., á Landspítalanum í Reykjavík. Hann verður jarðsunginn frá Langholtskirkju miðvikudaginn 19. júní, kl. 15.00.

Sr. Ólafur Jens var fæddur í Reykjavík 26. ágúst 1943. Foreldrar hans voru þau Sigurður Ólafsson, múrarameistari, og Guðbjörg Guðbrandsdóttir, húsfreyja. Eftirlifandi eiginkona hans er Margrét Valdimarsdóttir og voru þau barnlaus. Fyrri eiginkona hans var Ólöf Helga Halldórsdóttir, en þau skildu. Áttu þau fjögur börn: Lilju, Sigurð, Guðbjörgu Ástu og Halldór. Með Lilju Báru Bjartsdóttur eignaðist sr. Ólafur Jens börnin Guðbjörgu Lilju og Kristin Fannar. 

Sr. Ólafur Jens lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1963. Hann hóf nám í lögfræði og stundaði það um skeið en hvarf frá því og innritaði sig í guðfræðideild H.Í. Embættispróf í guðfræði þreytti hann 1972 og vígðist sama ár til Kirkjuhvolsprestakalls, þá í Rangárvallaprófastsdæmi, nú Suðurprófastsdæmi. Síðar var hann prestur í Hvanneyrarprestakalli í Borgarfirði frá 1973-1986. Hann var fangaprestur þjóðkirkjunnar frá 1986-1993. Eftir það prestur í Þingeyrarprestakalli, og síðar Ingjaldshólsprestakalli á Snæfellsnesi til ársins 2000.

Sr. Ólafur Jens var fjölmenntaður á sviði sálgæslu og kennslumála. Jafnan fékkst hann við kennslu samhliða prestsstörfum. Kenndi við grunnskóla, fjölbrautaskóla, menntaskóla og iðnskóla. Hann var mikill félagsmálamaður, sinnti formennsku í Sögufélagi Borgfirðinga, var félagsmálastjóri í Snæfellsbæ, fréttaritari, sat í skólanefndum og barnaverndarnefnd. Eftir hann liggja fjölmargar greinar í tímaritum og bókakaflar um héraðssögu Borgfirðinga og Snæfellinga. Hann var vel ritfær maður, texti hans skýr og málfar vandað.

Sr. Ólafur Jens var fjölfróður maður og hafði frá mörgu að segja enda frásöguglaður og sá gjarnan hið spaugilega í málum. Hann hafði djúpa réttlætiskennd, talaði tæpitungulaust og var ófeiminn við að láta skoðanir sínar í ljós og fylgja þeim eftir ef með þurfti. Var góður liðsmaður þeirra er höllum fæti standa í samfélaginu.

Sr. Ólafur Jens Sigurðsson er kvaddur með virðingu og þökk. Guð blessi minningu hans.

  • Frétt

  • Samfélag

  • Trúin

  • Samfélag

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls