„Ég er sko vinur þinn“

15. júní 2019

„Ég er sko vinur þinn“

Ég er sko vinur þinn

Æskulýðsfélag Árbæjarkirkju fór dagana 6.-12. júní til Tübingen, sem er háskólabær í Baden-Württemberg í Þýskalandi. Ferðin var fyrri hluti að ungmennaskiptum æskulýðsfélagsins saKÚL. Síðari hlutinn fer fram á Íslandi í ágúst. Verkefnið nefnist „You've Got a Friend in Me“ (Ég er sko vinur þinn) og er styrkt af Evrópu unga fólksins og er hluti af Erasmus+ áætluninni.

Sóknarpresturinn, sr. Þór Hauksson, og Ingunn Björk Jónsdóttir, djákni, sáu um undirbúning vegna umsóknar til Evrópu unga fólksins.

„Hugmyndin var að vinna með vináttu og ólíka menningarheima ungmennahópa,“ segir Ingunn Björk. „Hópurinn frá Þýskalandi tilheyrir kaþólsku kirkjunni og er talsvert ólíkur ungmennum úr Árbænum. Báðir hóparnir eiga það sameiginlegt að vera virkir þátttakendur í kristilegu æskulýðsstarfi í sinni heimakirkju. Þátttakendur eru á aldrinum 14 ára til tvítugs.“

Í för með unglingunum voru þau sr. Petrína Mjöll Jóhannesdóttir og Ingunn Björk Jónsdóttir djákni.

Að sögn Ingunnar Bjarkar gisti hópurinn í bæ sem nefnist Weil der Stadt og er fyrir utan Tübingen. Gististaðurinn þeirra var uppi á fjalli og það var oft mikil áskorun fyrir þreytta fætur að ganga síðustu metrana upp fjallið í lok dags. Þau unnu mikið í hópum til að kynnast hvort öðru sem best. Farið var í ratleiki, lært á lestakerfið, sjálfboðastörf unnin, lært að búa til þýskar brezel í bakarí. Þá var Evrópuráðið Evrópuþingið í Strassborg sótt heim.

„Við héldum líka samkirkjulega guðsþjónustu úti i skógi,“ segir Ingunn Björk, „heimsóttum klaustur og hittum þingmann á Evrópuþinginu. Þrátt fyrir að allt þetta væri mjög skemmtilegt þá er það vináttan við þýsku krakkana sem íslensku ungmennunum finnst standa upp úr ferðinni til Þýskalands.“

Segir Ingunn Björk mikla tilhlökkun að taka á móti þýska hópnum á Íslandi í ágúst og sýna þeim kirkjuna þeirra í Árbænum og hvernig íslensk unglingamenning er í raun og veru.

„Prestar og sóknarnefnd Árbæjarkirkju eiga mikinn þátt í að hægt er að framkvæma ungmennaskipti sem þessi og langar okkur að þakka þeim fyrir tækifærið sem þau gefa unglingunum í æskulýðsfélaginu saKÚL“, segir Ingunn Björk að lokum.

  • Æskulýðsmál

  • Frétt

  • Heimsókn

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Samfélag

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls