Hrafnseyri – Hrafnseyrargöng
Sr. Jakob Ágúst Hjálmarson skrifar.
Þegar landnámsmenn settust hér að áttu þeir það áhugaverða verkefni framundan sér að búa til örnefni fyrir allt það sem fyrir augu bar.
Það má að vísu segja að þeir hafi ekki í öllu verið svo hugkvæmir því þeir tóku með sér mörg örnefnin frá Noregi og settu þau á viðeigandi staði. Þannig varðveittu þeir minningarnar og bundu þær nýja landinu. Með tímanum sameinuðust þeir sjálfir landinu með því að eftirláta því eiginnöfn sín. Þannig eru margar Eyrarnar í Noregi og á Íslandi, og Hrafnseyri heitir svo vegna þess merka höfðingja og læknis Hrafns Sveinbjarnarsonar sem þar bjó á Sturlungaöld, að aðgreina mætti hana frá öðrum Eyrum á Vestfjörðum.
Svo kom til sögunnar Jón Sigurðsson, sómi Íslands, sverð þess og skjöldur og svo stórt er hans nafn að það yfirtók sögustaðinn. Hans nafn ber okkur að varðveita flestum nöfnum fremur vegna komandi kynslóða, að þeim skiljist hversu frelsið og sjálfstæðið er mikilvægt.
Nú vill svo til að almannavegur sem áður lá um hlað fæðingarstaðar hans mun senn liggja um göng í gegnum fjallið þar stutt frá og lítið bera þá á leiðarmerkingum til Hrafnseyrar – nema göngin beri nafn þess staðar og verði látin heita Hrafnseyrargöng. Þau leysa af Hrafnseyrarheiði eins og Vaðlaheiðagöng leysa af Vaðlaheiði, Almannaskarðsgöng Almannaskarð, Múlagöng Múlaveg o.s.frv.
Vart verður fundinn betri leið en sú að láta göngin nýju heita Hrafnseyrargöng til þess að varðveita sögu Jóns forseta og Hrafns læknis með þjóðinni. Þannig verður vegfarendum og landsmönnum best vísað á þann merka stað.
Nú skora ég á þá sem málum ráða í þessu efni að veita hver og einn þessari áskorun stuðning svo vel sem hún er til þess fallin að halda á lofti sögustaðnum.
Með þjóðhátíðarkveðjum.