Söngferð á Íslendingaslóðir
Barna- og unglingakór í Langholtskirkju, Graduale Futuri, undir stjórn Rósu Jóhannesdóttur, fór í söngferð á Íslendingaslóðir í Ameríku og Kanada 13. - 22. júní.
Allan síðasta vetur hefur undirbúningur kórsins staðið yfir fyrir ferðina. En mikill æfingatími og undirbúningur liggur að baki slíkum tónleikum og svo ferðinni allri hvað varðar tónlistina og prógrammið.
Kórinn var formlegur gestur á þjóðhátíðardaginn í Winnipeg, Manitoba, Kanada. En hann ferðaðist einnig víða um svæðið og flutti prógramm sitt með fögrum hljómi hvar sem hann kom, en auk þess voru nokkrir kórmeðlimir sem tóku með sér hljóðfærin sín og spiluðu ýmist með kórnum eða einir.
Sungið var við upptök Missisippi fljótsins, en þar fékk að hljóma hið fallega lag Þorkels Sigurbjörnssonar, Heyr himnasmiður. Upptök fljótsins liggja í Itascaa þjóðgarðinum en garðurinn liggur á svæði Indíána sem voru fyrstu frumbyggjar Kanada og N- Ameríku.
Eftir þetta heimsótti kórinn íslensku nýlenduna í Norður-Dakóta þar sem Páll Þorláksson var prestur íslensku landnemanna. Hann stofnaði fyrsta íslenska söfnuðinn í Vesturheimi haustið 1875 og hann lét reisa kirkju í Mountain, kirkjan nefnist Víkurkirkja. Hún er elsta kirkja Íslendinga í Vesturheimi og þar hélt kórinn tónleika. Fleiri fluttust á þessar slóðir með Páli, þar á meðal Stephan G. Stephansson skáld. Hann nefndi sveit sína eftir Garðari Svavarssyni og ber héraðið enn nafnið Gardar.
Heimabyggð Káins skálds var heimsótt, eða Kristjáns Níels Jónssonar og var einnig stoppað við leiðið hans, og sungið lag Braga Valdimars Skúlasonar, Sólskin í Dakóta. Eftir þetta var farið á íslenskan veitingastað, Byron. Kórinn tók nokkur lög fyrir gestina og var beðið um óskalög; Sofðu unga ástin mín og Ég er kominn heim. Það mátti sjá tár á hvarmi hjá mörgum gestunum sem hrifust af flutningi og söng stúlknanna.
Hjúkrunarheimilið Borg var heimsótt og var keyrt yfir á Nýja Ísland og Víðines skoðað (Willow Point) - landtökustað Íslendinga við Winnipegvatn. Þangað komu fyrstu landnemarnir og þarna fæddist fyrsti Íslendingurinn á svæðinu, haustið 1875. Um kórinn var fjallað á forsíðu dagblaðsins í Gimli, Lögberg-Heimskringlu, sem er “The Icelandic Community newspaper” og sagt frá för kórsins og tónleikum.
Kórinn söng í Hnausa sem er í Riverton, við Íslendingafljót. Vel var tekið á móti kórnum, en í Hnausa er verslun og þar var ýmislegt selt, m.a. var hægt að fá slátur, skyr, lifrapylsu, rúllupylsu, íslenskt brauð og alls konar minjagripi, bæði íslenska og kanadíska. Eftir að kórinn hafði tekið nokkur lög kom fram Vestur- Íslenskur tónlistarmaður, Roy Gudmundsson að nafni. Hann lék á gítar og söng kántrý frá sinni heimabyggð. Rósa kórstjóri tók upp fiðluna og lék með honum eitt lag.
Eftir frábærar mótttökur á öllum söngstöðunum var haldið af stað til Ameríku í flug.
Söngnum var hvergi nærri lokið, því þegar kórinn kom á flugstöðina í Minneapolis báðu innritunarstarfsmenn flugvallarins kórinn að syngja fyrir þau. Það gerði kórinn með glöðu geði og voru margir þakklátir ferðamenn sem og starfsmenn sem þökkuðu kórnum fyrir sérlega upplífgandi stund á flugvellinum.
Ferð þessi, staðirnir og fólkið, Vestur-Íslendingarnir og ást þeirra á Íslandi og tungumálinu, mun lifa lengi í minningum þessara hæfileikaríku kórbarna sem voru alsæl með ferðina.