Kraftmikil ljóðabók

1. júlí 2019

Kraftmikil ljóðabók

Líkn ljóðabók

Stundum er sagt að ljóð séu góður farvegur fyrir hugsanir manneskjunnar; leikandi létt ljóð þar sem gleðin ræður ríkjum, eða þá torráðin og myrk þar sem skáldið leitast við að leyna hugsunum sínum; ljóð þar sem skáldið setur fram skoðanir sínar af miklu kappi, eða þá hversdagsleg ljóð þar sem lífinu vindur fram sem þungum straumi. Auk þess getur þetta allt rúmast í einu ljóði ef nánar er að gáð. Ljóðið er sem sé galdraform og allir geta glímt við það.

Í ljóðabókinni Líkn, sem kom nýlega út hjá Forlaginu, og er eftir sr. Hildi Eir Bolladóttur, prest við Akureyrarkirkju, er það hversdagurinn sem á sviðið. Inn í ljóðrænar myndir hans er ofið stundum torráðnum hugsunum, gleðilegum augnablikum og einlægum. Sumir þræðir í ljóðavefnum geyma áhyggjur og kvíða.

Ljóðabók sr. Hildar Eir hefst á trúarjátningu. Það er trúarjátning sem vaxin er upp úr hversdegi prestsins allt frá því að hún var barn. Guð verður á vegi hennar í andrá hverrar stundar: í lófa föður, í kvöldrauli þreyttrar móður við rúmið hennar, í lýsinu og hafragrautnum, úr ómi þular sem les dánarfregnir í útvarpinu. Hann umvefur æskudaga stúlkunnar og síðar prestsskap hennar sjálfrar. Þessi trúarjátning hennar er mælt fram af einlægni hjartans, er einföld og skýr enda þarf hún ekki að vera öðruvísi. Þarna mætir Guð henni frá blautu barnsbeini í hversdagsleikanum og á vettvangi dagsins þar sem manneskjan dvelur lengst af í lífi sínu.

Yfir sumum ljóðum sr. Hildar svífur bernskan sem færir ekki börnum bara áhyggjuleysi og yndi heldur líka áhyggjur og óyndi. Það var erfitt að rata um þögn æskunnar og hún var hrædd við hana. Hún er persónuleg og víkur að kvíða sem ekkert svar gefst við enda þótt hún stingi sér á sund í óminnishafið kemur hún bara upp með marglyttu.

Ljóðið sem bókin dregur nafn sitt af, Líkn, birtir ljóðrænar svipmyndir og sumar angurværar úr starfsumhverfi fólks sem hefur þann starfa að vera með fólki á þeim undarlegu og angistarþungu tímamótum þegar látnir ástvinir eru kvaddir hinsta sinni. Margir líkingar eru sterkar og myndrænar, sumar kankvísar og aðrar þrungnar merkingu eins og:

Líkhringingin er hæg
eilífðin hvílir milli slaga


Og dauðinn sem er alla jafna kaldur í huga fólks:

Ilmur dauðans er
heitur réttur
með skinku og aspas

Líkn er kraftmikil ljóðabók og persónuleg, á henni er snaggaralegur bragur og hún er full af mörgum myndríkum líkingum og snjöllum.

Kirkjan.is óskar sr. Hildi Eir til hamingju með þessa bók og hvetur hana til að halda áfram á sömu braut.

Forlagið gaf út eins og áður sagði og er bókin 36 bls.

  • Frétt

  • Menning

  • Útgáfa

  • Menning

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls