Biskup tekur á móti fótboltaliði

9. júlí 2019

Biskup tekur á móti fótboltaliði

Fótboltaliðið í Biskupsgarði

Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, tók í dag á móti hressum hópi drengja í Biskupsgarði. Þetta voru fjórtán fótboltadrengir frá Kenía og var þeim boðin íslensk kjötsúpa heima hjá biskupi og létu þeir vel af henni. Drengirnir ásamt fylgdarliði komu til landsins s.l. laugardag og munu þeir dveljast hér í þrjár vikur. Tilefnið er alþjóðlega fótboltamótið Rey Cup sem haldið er árlega í Laugardalnum.

En hvernig stendur á því að þeir eru hingað komnir?

Það er lítil og merkileg saga á bak við það.

Paul Ramsey og kona hans Rosemary Atieno Obhiam¬bo fengu landsvistarleyfi fyrir sig og barn sitt á Íslandi árið 2010 eftir tveggja ára baráttu. Honum hafði verið vísað tímabundið úr landi til Ítalíu. Um mál þeirra spunnust miklar umræður á sínum tíma á opinberum vettvangi og margir lögðu þeim lið. Loks fengu þau pólitískt hæli hér á landi þar sem talið var að öryggi þeirra væri ekki tryggt í heimalandinu.

Þau hjón, Paul og Rosemary, störfuðu í fyrstu í þjónustustörfum en síðar stofnuðu þau góðgerðarsamtökin Tears Children and Youth Aid. Þau söfnuðu dósum og flöskum í hálft ár og notuðu ágóðann til að koma upp leikskóla í fátækrahverfinu í borginni Got Agulu þar sem Paul Ramses ólst upp. Aðrir komu líka að söfnuninni eins og nemendur í Verzlunarskóla Íslands sem söfnuðu fyrir einni kennslustofu og nemendur Brekkubæjarskóla á Akranesi sem söfnuðu fyrir vatnsbrunni við skólann. Leikskólinn var svo nefndur Litli Versló. Síðar var grunnskóli settur á laggirnar og rekinn að íslenskir fyrirmynd.

Heimsókn strákanna frá Kenía er að frumkvæði góðgerðarsamtaka þeirra Pauls Ramses og konu hans, Rosemary. En margir aðrir hafa komið að því að gera hana mögulega og má þar helst nefna Gunnar Axel Axelsson, sr. Báru Friðriksdóttur, Jón Hjaltalín Magnússon, Margréti Gauju Magnúsdóttur og Guðmund R. Árnason. Fé var safnað og söfnuðust alls 3.2 milljónir. Margt smátt gerir eitt stórt. Fé safnaðist til dæmis í eldriborgara guðsþjónustu í Digraneskirkju, ýmis fyrirtæki gáfu til söfnunarinnar og biskup Íslands gaf andvirði eins flugfargjalds frá Kenía og hingað til lands.

Strákarnir eru komnir til að taka þátt í Rey Cup knattspyrnumótinu sem áður sagði. Þeir hafa aldrei áður tekið þátt í slíku móti. Það verður mikið ævintýri og hver dagur hefur alltaf eitthvað nýtt að bjóða sem þeir hafa ekki séð áður. Nú fá þeir að spreyta sig í fótbolta við jafnaldra sína í nýju umhverfi.

Stutt hefur verið við bakið á þeim með ýmsum hætti. Fótboltaliðin FH og Haukar hafa liðsinnt þeim með ýmsum hætti og Breiðablik gaf þeim til dæmis æfingagalla. Fyrirtækið Jakosport gaf þeim íþróttaföt sem þeir keppa í og Icewear flíspeysur. Bónus og Krónan hafa gefið ýmis matvæli handa þeim en þeir halda til í Lækjarskóla í Hafnarfirði meðan á dvöl þeirra stendur. Þetta eru fátækir drengir og sem dæmi um það þá kom hópurinn allur aðeins með þrjár ferðatöskur til landsins. Augljóst er að fleiri töskur þarf til að þeir geti komið íþróttafatnaði sínum heim og þau sem lesa þessar línur eru vinsamlegast beðin um að athuga hvort þau eigi ekki í fórum sínum eina ferðatösku eða fleiri sem sjá mætti af.

Í Biskupsgarði sungu þeir á Lou-tungumálinu og dönsuðu þjóðdans úti í garði í kveðjuskyni. Biskup hafði um hönd stutta bænastund og veitti hverjum og einum þeirra fararblessun í lokin.

Það var þakklátur og ánægður hópur sem kvaddi biskup með bros á vör á þessum milda og fallega sumardegi – þó svo að sumum kenísku drengjanna hafi þótt dálítið kalt enda vanir hærra hitastigi.

  • Æskulýðsmál

  • Alþjóðastarf

  • Biskup

  • Frétt

  • Heimsókn

  • Viðburður

  • Biskup

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls