Sr. Ólöf Ólafsdóttir, pastor emerita, kvödd
Sr. Ólöf Ólafsdóttir, fyrrum sérþjónustuprestur, lést miðvikudaginn 10. júlí, á Hrafnistu í Reykjavík. Hún fæddist í Reykjavík 23. október 1927. Foreldrar hennar voru þau Ólafur Bergmann Erlingsson, prentari og bókaútgefandi, og Jófríður Kristín Þórðardóttir, húsfreyja. Eiginmaður sr. Ólafar var Svavar Pálsson, línumaður, sem lést 1968. Eignuðust þau þrjá syni: Ólaf Bergmann, Stefán Sturlu, og Pétur Gaut. Sr. Ólöf verður jarðsungin frá Fossvogskirkju miðvikudaginn 17. júlí kl. 15.00.
Sr. Ólöf lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1947, nam um tíma sálar- og barnauppeldisfræði, lauk prófi frá Kennaraskóla Íslands 1969. Hún fékkst við kennslu í Reykjavík um hríð en var um árabil verslunarstjóri Bókaverslunar Snæbjarnar Jónssonar. Guðfræðiprófi lauk hún 1987; nam einnig félagsráðgjöf um tíma og öldrunarfræði. Hún var vígð 3. júlí 1988 sem prestur á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Skjóli, og lét af störfum árið 1999.
Sr. Ólöf var kona á réttum stað sem prestur aldraðra og sjúkra sakir mannkosta sinna og kærleiksríks viðmóts. Hún var einbeitt og hreinskilin í allri framkomu og ávann sér virðingu hvar sem hún fór. Mörg þeirra sem eru komin á miðjan aldur og þaðan af eldri muna eftir henni við afgreiðslustörf í Bókabúð Snæbjarnar Jónssonar (The English Bookshop) í Hafnarstræti. Hún var einkar lipur í afgreiðslu og vildi hvers manns götu greiða og var fjölfróð um bækur.
Sr. Ólöf Ólafsdóttir er kvödd með virðingu og þökk. Guð blessi minningu hennar.