Þegar kirkja gliðnar
Margir söfnuðir eru fámennir og á herðum þeirra hvílir sú skylda að halda kirkjum í sómasamlegu horfi. Það gera flestir þeirra og leggja mikið á sig. Þegar sóknargjöld hafa verið skorin niður bitnar það óneitanlega á öllum rekstri og þar með talið viðhaldi.
Á Hellnum á Snæfellsnesi er steinsteypt kirkja sem reist var árið 1945 í stað torfkirkju frá 1883 en hún var að niðurlotum komin. Nú standa yfir miklar endurbætur á henni. Þær ganga nokkuð vel fyrir sig að sögn sóknarprestsins, sr. Arnalds Mána Finnssonar. Hellnasókn er fámenn og fjárhagurinn ekki sterkur en metnaður sóknarbarna og velunnara kirkjunnar til að gera henni gott bilar ekki.
Enda þótt viðgerð standi yfir á kirkjunni og hún ekki messufær sem sakir standa þá er hún notuð um stundarsakir sem sýningastaður í tengslum við listsýninguna Umhverfing.
Þegar fólk kemur inn í kirkjuna er gengið inn í rökkur því búið er að byrgja fyrir glugga. Dauf rafmangsljós lýsa hana upp. Það fyrsta sem fólk rekur augun í eru nokkur dragbönd milli veggja í kirkjuskipi. Margur hefur haldið að sögn sr. Arnalds Mána að þessi bönd séu einhvers konar listaverk eða gjörningur og hluti af listsýningunni Umhverfing með vísan til smiðsins mikla sem öllu heldur saman. Svo er ekki. Böndin eru til að halda kirkjunni saman því hún var farin að gliðna ískyggilega. Og enginn sannkristinn maður vill að guðshúsið hlaupi út undan grunni sínum og í sjó fram.
Smiðirnir sem vinna að endurbótum á Hellnakirkju eru þeir Kristinn Einarsson og Guðni Svavarsson. Það er ekki ónýtt fyrir þá að vera komnir skyndilega og óafvitandi á listamannabekk! En dragböndin auðvelda þeim að koma kirkjunni saman í orðsins fyllstu merkingu: draga hana sama.
Frægastur klerka Hellnakirkju er eflaust sr. Ásgrímur Vigfússon (1753-1829). Dyrhamar á ytri hurð kirkjunnar er smíðaður af honum en hann var mikill hagleiksmaður. Um prest þennan fóru miklar sögur enda sagður „ertingasamur og deilugjarn“ en þó „atorku- og dugnaðarmaður í búsýslu“ - svo má lesa Íslenzkum æviskrám Páls Eggerts Ólasonar. Tvisvar sinnum missti sr. Ágrímur hempuna en náði henni aftur. Hann lét svo fyrir um mælt að hann skyldi grafinn feti dýpra en aðrir og í hempu sinni. Og ástæðan? „Að þar sem þeir hefðu ekki getað haft hana af sér lifandi, skyldu þeir ekki heldur hafa hana af sér dauðum.“
Dyrhamar sr. Ásgríms á hurð Hellnakirkju - frá 1788 - til minningar um prestshjónin
Svona lítur altari Hellnakirkju út eins og er
Viðgerðir standa yfir