Spennandi Hólahátíð á sínum stað

15. ágúst 2019

Spennandi Hólahátíð á sínum stað

Hólastaður - myndina tók Árni Svanur Daníelsson

Samkvæmt venju er Hólahátíð haldin sunnudaginn í 17. viku sumars.

Dagskrá hátíðarinnar hefst laugardaginn 17. ágúst með helgistund í Grafarkirkju á Höfðaströnd. Að henni lokinni verður haldið í pílagrímagöngu og gengið heim að Hólum. Þegar þangað verður komið er gengið til kirkju, skírnin endurnýjuð og altarissakramentisins neytt. Fyrr um morguninn gefst fólki kostur á að ganga upp í Gvendarskál í Hólabyrðu en þar er fornt altari. Sagnir herma að Guðmundur Arason biskup hinn góði hafi farið þangað reglulega til bænahalds.

„Kraftmikið málþing hefst svo kl. 17.00 í Háskólanum á Hólum og stendur til kl. 19.00. Efni þess snýst um áhrif mennta- og menningarsetra í dreifbýli“, segir sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum. Dagskráin er þessi:

Sigrún Magnúsdóttir, þjóðfræðingur og fyrrv. ráðherra, flytur erindi sem hún nefnir: Hólar-Hogworth.
Árni Daníel Júlíusson, sagnfræðingur, ræðir um Hóla sem höfuðborg Norðurlands – örlítið um biskupssetrið 1270-1800, hlutverk þess og stöðu.
Anna Guðrún Edvardsdóttir, menntunarfræðingur mun fjalla um hlutverk háskóla í mótun samfélaga í dreifbýli.
Vífill Karlsson, hagfræðingur, kallar erindi sitt: Grasrótin og gervigreind. Hann spyr hvort mennta- og menningastofnanir geti fleytt landsbyggðinni inn í framtíðina.

Aðgangur að málþinginu er ókeypis.

Að loknu málþingi er gestum málþingsins boðið í grillmat að hætti Hólastaðar.

Sunnudagurinn 18. ágúst hefst svo með orgeltónleikum í Hóladómkirkju en þar mun Rögnvaldur Valbergsson leika orgeltónlist allt frá Bach til Bítlanna og Freddy Mercury.
Hátíðarmessa í Hóladómkirkju verður kl. 14.00. Séra Gísli Gunnarsson, sóknarprestur í Glaumbæjarprestakalli, prédikar. Helga Rós Indriðadóttir, syngur einsöng, og auk þess syngja þær Áróra Ingibjörg Birgisdóttir, og Emilia Kvalvik Hannesdóttir. Jóhann Bjarnason sér um orgelleik. Veislukaffi verður í Undir Byrðunni að messu lokinni í boði Hólanefndar.

Sigrún Magnúsdóttir, þjóðfræðingur og fyrrv. ráðherra, flytur Hólaræðuna, í athöfn sem hefst kl. 16.00. Þar munu þær Helga Rós, Áróra Ingibjörg og Emila Kvalvik syngja. Rögnvaldur Valbergsson annast undirleik.
Í lokin flytur svo vígslubiskupinn á Hólum, sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, ávarp.

Hólahátíð er kirkju- og menningarhátíð á síðsumri sem hefur mikið aðdráttarafl. Enginn sem er á þessum slóðum um þessa helgi ætti að láta hana framhjá sér fara.



Sigrún Magnússon, þjóðfræðingur og fyrrv. ráðherra 
flytur erindi á málþinginu og heldur Hólaræðuna 2019









  • Frétt

  • Menning

  • Messa

  • Ráðstefna

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Viðburður

  • Menning

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls