Fólkið í kirkjunni: Kirkjan við veginn
Margir hafa ekið oftar framhjá henni en tölu verður komið á. Horft til hennar og sagt í huganum að hún væri falleg og ekki síður hlaðni veggurinn í kringum hana og garðinn. Og kannski ætti að líta á hana við tækifæri.
Það er kirkjan við Kotströnd í Ölfusi.
Þegar komið er í hlað tekur fagurt útsýni í vesturátt á móti gesti. Kyrrðin í kringum kirkjuna er íborin vægum umferðardyn frá þjóðvegi nr. 1.
„En þessi dynur mun minnka,“ segir Steindór Gestsson, kirkjuvörður og umsjónarmaður kirkjugarðsins á Kotströnd, „nýi vegurinn mun liggja fjær.“ Hann er glaðlyndur maður og snaggaralegur.
Kirkjan á Kotströnd var vígð fyrir 110 árum. Fögur timburkirkja sem tekur um 150 manns í sæti.
Steindór Gestsson hefur starfað lengi sem kirkjuvörður og hefur næmt auga fyrir því sem þarf að gera hverju sinni við kirkjuna. Það þarf að fylgjast vel með gömlum timburhúsum og sinna viðhaldi þeirra vel. Og það gerir Steindór. Hann segir frá lagfæringum á þaki og turni og öðru í nánasta umhverfi kirkjunnar eins og hinu steypta hliðporti fyrir framan hana. Hér er augljóslega maður sem hefur metnað fyrir hönd þessarar litlu sveitakirkju. Og þykir vænt um hana.
„Margir kalla hana kirkjuna við veginn,“ segir Steindór.
Kirkjan er afar falleg að innan. Björt enda gluggar stórir og engin myndverk í þeim. Miklar endurbætur fóru fram á kirkjunni árið 2002. Þá var gert að öllu tréverki kirkjunnar að innan sem var illa farið. Hún var máluð að innan og grafist fyrir um það hvaða litir voru upphaflegir. Þeir komu í ljós undan gamalli málningu, eikarlitir, dökkgrænir litir og ljósgrænir, bleikir og hvítir, sem og skraut á súlum. Eins var til lýsing á litum kirkjunnar í úttekt frá 1910. Og snarpir jarðskjálftar fóru árið 2000 ekki fram hjá Kotströnd frekar en öðrum stöðum fyrir austan fjall. Kirkjan skemmdist sem betur fer ekki mikið og jafnvel þótt einn eftirskjálftinn hefði átt upptök svo að segja í kirkjuhlaðinu.
Þegar tíðindamaður hefur orð á því hve altarisdúkurinn er óvenju fallegur svarar Steindór að málið sé sér skylt: „Kona mín, Ólöf Jónsdóttir frá Lambhaga, heklaði hann í tilefni af 100 ára afmæli kirkjunnar 2009 – hann var minningargjöf. Hún heklaði líka þrjá aðra, einn fyrir Hveragerðiskirkju og annan fyrir Saurbæjarkirkju á Rauðasandi en þangað á hún ættir sínar að rekja. Sá þriðji fór í Melgraseyrarkirkju í Hólmavíkurprestakalli.“
Í Kotstrandarsókn búa á fjórða hundrað manns og í kirkjunni er messað reglulega. Auk þess er hún vinsæl fyrir ýmsar athafnir eins og brúðkaup.
Steindór segir að jafnan sé helgistund í hádeginu á aðfangadegi og þá sé kirkjan þétt setin. Kirkjugarðurinn er uppljómaður og látinna er minnst. Falleg stund og áhrifarík. Kirkjugarðurinn á Kotströnd er einnig kirkjugarður þeirra Hvergerðinga.
Steindór er sjálfur Hvergerðingur og hefur sungið um árabil í kirkjukórnum. Hann syngur líka í karlakór Selfoss. Og hátt í hálfa öld hefur hann tekið þátt í leiklistarlífinu í Hveragerði og á Selfossi. Öflugt leikfélag er í Hveragerði, stofnað 1947. Í fyrra var Steindór kjörinn heiðursfélagi í leikfélaginu.
Tíðindamaður kirkjan.is og Steindór hittust reyndar fyrir margt löngu á sviði þegar Atómstöðin eftir Halldór Laxness var sett upp á Selfossi árið 1976 í leikstjórn Steinunnar Jóhannesdóttur, rithöfundar og sérfræðings í sr. Hallgrími Péturssyni. Þá lék Steindór guðinn Brilljantín með mikilli snilld. En umsjón Steindórs með kirkju og kirkjugarði er ekki unnin með minni snilld en Brilljantínshlutverkið forðum daga á sviðinu í Selfossbíó.
Steindór Gestsson, kirkjuvörður á Kotströnd, í Hveragerðisprestakalli, er einn af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni.
Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.
Altarisdúkurinn i Kotstrandarkirjku sem kona Steindórs heklaði og gaf
Hugsað fyrir öllu. Komið í veg fyrir að prédikunarstóllinn upplitist
Kirkjan er máluð í upprunalegum litum
Atómstöðin 1976: Steindór lengst til vinstri sem guðinn Brilljantín,
leikur á saltfisk og syngur, þá Sigríður Karlsdóttir sem Ugla,
Þórður Kristjánsson sem guðinn Benjamín, og Sigurgeir Friðþjófsson sem organistinn