Stutta viðtalið: Orgelsmiðjan við hafið

28. ágúst 2019

Stutta viðtalið: Orgelsmiðjan við hafið

Jóhann Hallur og Júlíus Óttar - orgel í fæðingu

Meistarinn var ekki við þegar kirkjan.is leit við í Orgelsmiðjunni á Stokkseyri. Björgvin Tómasson, orgelsmiður með meiru, var í útlöndum. Orgelsmiðjan er niður við strönd og þennan dag þegar fyrsta haustlægðin var í rénum mátti heyra þungar en slitróttar drunur berast frá hafinu eins og það væri að jafna sig eftir átök næturinnar.

En sonur orgelsmeistarans var á staðnum, Júlíus Óttar Björgvinsson, ungur maður og einbeittur. Og sömuleiðis samstarfsmaður Björgvins til þriggja áratuga, Jóhann Hallur Jónsson. Þeir voru að fást við 41sta orgel meistarans sem á að fara í Keflavíkurkirkju. „Það er ösp hið ytra,“ segir Jóhann, „því að það verður málað í einhverjum mildum lit.“ Hann segir eik vera í orgeli Björgvins í Digraneskirkju og hlyn í Guðríðarkirkju. Eðalviðir.

Björgvin teiknar og hannar orgelin – og smíðar líka. Þegar Jóhann er spurður hvað hann geri stendur ekki á svari: „Ég geri svo sem allt enda sveitastrákur norðan úr Steingrímsfirði sem þurfti að bjarga sér.“ Hann er húsgagnasmiður að mennt og því á réttum stað: „Orgelið er náttúrlega stór mubla,“ segir hann. „Hér er líka hátt til lofts og það er mjög gott þegar við erum að setja orgelin upp – það var bara íbúðarhæð á Blikastöðum þar sem við vorum áður,“ segir Jóhann. „Orgelin geta sum verið há,“ bætir hann við. „Þegar við erum búnir að setja orgelið hér upp verðum við að taka það niður. Það fer nefnilega annað eins og gefur að skilja.“

Það var ekki asi á þeim heldur hvíldi kyrrð yfir verkstæðinu en hendur þeirra unnu fumlaust. „Um leið og byrjað er að flýta sér koma mistökin,“ segir Jóhann. „Og mistök geta reynst dýrkeypt.“

Orgelið er drottning hljóðfæranna. Síðasta orgel Björgvins sem sett var upp var í Bolungarvík. Júlíus Óttar og Jóhann komu báðir að smíði þess með meistaranum, Björgvini. Og kona Björgvins, Margrét, sem er rafvirki, sér um rafmagnsmálin.

Það tekur langan tíma að smíða orgel. „Eitt ár er enginn tími í orgelsmíði,“ segir Júlíus Óttar og brosir. Hvert orgel hefur sinn tíma, fer auðvitað eftir stærð þess og gerð. „Orgelsmiðurinn vinnur oft með arkitektum kirknanna ef þeir eru á lífi,“ segir Jóhann. Það samstarf gengur alltaf vel að sögn þeirra félaga – og er mikilvægt samstarf.

Hvert orgel er smíðisgripur sem er listaverk og það veltur á miklu að það falli að hinu listaverkinu sem er kirkjuhúsið. Inni á verkstæðinu eru stórar myndir af orgelum Björgvins í kirkjum hér á landi og á þeim sést vel hve ólík þau eru að ytra byrði til að falla sem best að hverju kirkjurými fyrir sig.

Júlíus Óttar hefur lengi starfað með föður sínum við orgelsmíðina og kann því vel. Er öllum hnútum kunnugur. Og þegar hann er spurður hvort það það verði ekki haldið upp á það þegar fimmtugasta orgel föður hans kemur í ljós segist hann búast því. „En ætli ég fái ekki bara það hlutverk að halda þeim síðar við,“ svarar Júlíus Óttar hlæjandi þegar hann er spurður hvort hann taki við af föður sínum.

Hann sýnir sveinstykki föður síns frá skólanum hans í Þýskalandi. „Þetta er fullkomið orgel,“ segir hann „með belg og öllu.“ Það er lítill hagleiksgripur, fallegur og traustur. Meistarastykki.

Orgelið í Bolungarvík

Orgel Björgvins Tómassonar í Hólskirkju Bolungarvík var það fertugasta sem kom frá orgelsmiðju hans. Það er með 580 pípur, samtals níu raddir. Nokkrar pípur úr eldra orgeli voru nýttar í nýja orgelið. Björgvin setti orgelið upp ásamt Jóhanni Halli og konu sinni, Margréti Erlingsdóttur, rafvirkja.

Orgel eru dýr hljóðfæri enda handsmíðuð og mikil vandasmíð. Þegar Hólskirkja í Bolungarvík var 100 ára árið 2008 var stofnaður orgelsjóður til að safna fyrir nýju hljóðfæri. Kristný Pálmadóttir stofnaði orgelsjóðinn en hún söng lengi með kirkjukórnum – hún lést árið 2012. Söfnuninni lauk árið 2017 og samið var við orgelsmiðju Björgvins um smíði orgelsins.

Gjafir bárust í sjóðinn úr ýmsum áttum, einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum. Það tókst með glæsibrag að kosta orgelsmíðina.

Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir vígði hið nýja orgel Hólskirkju á uppstigningardag, 30. maí 2019. Í guðsþjónustunni söng Sigrún Pálmadóttir einsöng með Kirkjukór Bolungarvíkur og Kvennakór Ísafjarðar söng undir stjórn Beötu Joó við undirleik Péturs Ernis Svavarssonar.

Júlíus Óttar með sveinsstykki föður síns

Orgelpípur yfir dyrum smiðjunnar sem kóróna

Eftir vígslu orgelsins í Hólskirkju í Bolungarvík.
Frá vinstri: Einar Jónatansson, sóknarnefndarformaður,
Pétur Ernir Svavarsson, kórundirleikur, Sigrún Pálmadóttir, sópran,
Guðrún B. Magnúsdóttir, organisti, sr. Ásta Ingibjörg Pétursdóttir, sóknarprestur,
frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, Margrét Erlingsdóttir, rafvirki,
Steinunn Guðmundsdóttir, meðhjálpari, Björgvin Tómasson, orgelsmiður

 

 


    hateigskirkja.jpg - mynd

    Samverustund syrgjenda á aðventunni

    13. nóv. 2024
    Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
    kirkjanisaugl.jpg - mynd

    Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

    12. nóv. 2024
    Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
    Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

    Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

    08. nóv. 2024
    ...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls