Fólkið í kirkjunni: Hún Sóley Adda
„Ég er að norðan“, svarar hún undanbragðalaust þegar spurt er hvaðan hún sé.
Alin upp til fimm ára aldurs á Haukagili í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu. Bernskukirkjan hennar var Undirfellskirkja í Vatnsdalnum miðjum þar sem hólarnir óteljandi eru ekki langt frá. Það er kirkjustaður frá fornu fari og núverandi kirkja var reist árið 1915. Kirkjan á Undirfelli er falleg og unga stúlkan að norðan man vel eftir henni og hefur oft komið í hana. Altaristaflan er eftir engan annan en Ásgrím Jónsson, listmálara.
Sóley Adda Egilsdóttir fluttist suður tl Reykjavíkur barn að aldri. Hún fermdist í Árbæjarkirkju og þar kynntist hún kirkjulegu starfi og heillaðist af því. Fór í Leiðtogaskólann og stóð sig þar með mikilli prýði. Hún fékk strax tilboð um starf.
Hún er á fullu í æskulýðsstarfi kirkjunnar og áhuginn leynir sér ekki hjá henni. Hún er í stjórn Æskulýðssambands kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmum (ÆSKR) og Æskulýðssambands þjóðkirkjunnar (ÆSKÞ). Hefur verið í æskulýðs- og barnastarfi í fjölmörgum kirkjum á höfuðborgarsvæðinu og er með mikla reynslu í kirkjulegu starfi þó ung sé að árum. Um tíma bjó hún í Noregi og tók þátt í starfi íslenska safnaðarins í Ósló. Nú kemur Sóley Adda að barnamessum í Bústaðakirkju og Grensáskirkju og horfir bjartsýnum augum til vetrarins í hinu nýja prestakalli, Fossvogsprestakalli.
„Það er skemmtilegast að hitta börnin og vera með þeim,“ segir hún og bros hennar er hlýtt, „og sjá hvað þeim þykir gaman.“
Hún heldur á leikbrúðunni Vöku sem er skjaldbaka. Og það er stutt í leikinn hjá Sóleyju Öddu og Vaka vaknar strax til lífsins. Hér er augljóslega góður brúðuleikari að störfum.
Sóley Adda er nítján ára gömul og stundar nám í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Hún er á nýsköpunarbraut.
„Og hvað er það nú eiginlega?“ spyr kirkjan.is. „Nýsköpunarbraut?“ Ekki stendur á svari.
„Það er alls konar,“ segir Sóley Adda. Hugsar sig aðeins um og bætir við: „Upplýsingatækni, myndlist, forritun, vefmiðlun. Já, við smíðum og tökum rafmagnsáfanga.“
Já, svo sannarlega er fengist við margt skapandi á nýsköpunarbraut eins og orðið ber með sér. „Það er líka rosalega skapandi að taka þátt í kirkjulegu starfi,“ segir Sóley Adda og kann greinilega vel við sig á þeim vettvangi þar sem sköpunarkraftar hennar nýtast.
„Ég er að hugsa um að fara í djáknanám þegar ég er búinn með skólann,“ segir hún. „Margt í því hentar mér örugglega miðað við það sem ég hef séð af því í kirkjulegu starfi.“
Sóley Adda er ung kona að störfum í kirkjunni. Öflug kona og áhugasöm. Kirkjan þarf ekki að kvíða neinu þegar hún hefur á að skipa kraftmiklu fólki. Það er mikill mannauður.
Sóley Adda Egilsdóttir, æskulýðsleiðtogi, er ein af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni.
Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.
Leikræn tilþrif hjá Sóleyju Öddu og Vöku skjaldböku