Gamla og nýja fréttin: „Geggjaðir kirkjustólar...“
Þennan dag, 14. september 1879, var Dómkirkjan í Reykjavík vígð í þriðja sinn. Eru því 140 ár liðin frá þeim fréttnæma atburði. Fyrst var hún vígð 1796 og síðar öðru sinni 1848.
Miklar viðgerðir hófust á kirkjunni í marslok 1879 en hún var mjög illa farin. Í skýrslu um ástand kirkjunnar sem send var Alþingi árið 1877 segir meðal annars svo um skrúðhúsið:
„Aðalgalli skrúðhússins, sem allt er úr tígulsteini, hefur ætíð verið sá, að veggirnir ganga því nær ekkert ofan í jörðina, og hefur því frostið á vetrum náð til að lypta því upp svo að það ávallt hefur verið nokkuð laust við sjálfa kirkjuna, og þetta hefur valdið sífelldum leka milli þaks þess og aðalkirkjunnar.“
Og um kirkjustólana segir þar með skemmtilegum hætti þar sem þeir voru úr lagi gengnir:
„...margir eru losnaðir og geggjaðir og liturinn á þeim farinn mjög að fölna...“
Meðan á endurbótum Dómkirkjunnar stóð var líkhúsið í bænum notað fyrir kirkjulegar athafnir. Endurbætur gengu vel fyrir sig.
Orgel kirkjunnar var tekið niður áður en viðgerðir hófust en reyndist ónothæft þegar það var sett upp aftur. Var þá gripið til lítils harmóníums og það notað um skeið.
Kirkjan hafði ekki verið upphituð. Nú var þremur kolaofnum komið fyrir í kirkjunni. Tveir reykháfar voru settir upp á mótum kórs og kirkjuskips. Þeir eru ekki á gömlu myndinni en sjást vel á nýju myndinni hér fyrir neðan.
Við úttektina komust úttektarmenn að þeirri niðurstöðu að kirkjan væri:
„eins fallegt og dýrðlegt musteri og hún var nýbyggð.“
Dr. Pétur Pétursson, biskup, vígði kirkjuna.
Þessi mynd var tekin í dag frá svipuðu sjónarhorni og forsíðumyndin.
Takið eftir reykháfunum.
Og útlit kirkjunnar allt annað enda hún í góðu standi.