„Alfa-námskeið, það er málið.“

23. september 2019

„Alfa-námskeið, það er málið.“

Öflugur hópur í Lindakirkju

Sumar kirkjur bjóða upp á Alfa-námskeið. Á þeim er fræðst um Biblíuna og helstu atriði trúarinnar. Fólk kynnist vel á námskeiðunum, ræðir málin saman og borðar saman. Þessi námskeið hafa náð fótfestu víða og haft áhrif á þau sem taka þátt í þeim. Áhrif sem vara út allt lífið í sumum tilvikum – og breyta mörgu.

Trúin kemur inn í líf fólks með öðrum hætti og áhugaverðum.

Í Lindakirkju fer fram öflugt starf. Þar á meðal er boðið upp á Alfa-námskeið og svo hefur verið frá því að söfnuðurinn var stofnaður.

Það var vaskur og áhugasamur undirbúningshópur fyrir komandi Alfa-námskeið sem kirkjan.is hitti í Lindakirkju í dag. Tveir prestar, sr. Guðni Már Harðarson og fyrrverandi prófasturinn sr. Jón Dalbú Hróbjartsson eru í hópnum ásamt þeim, Lárusi Guðmundssyni, Heiðdís Karlsdóttur, Gunnari Böðvarssyni, og Nínu Dóru Pétursdóttur. Hér standa allir jafnfætis í fræðslustarfinu. Sum í hópnum hafa áður verið á námskeiði og heillast af viðfangsefni þess og eflst í trúnni. Þau hafa nýliðunum margt að segja – og ekki er komið að tómum kofanum hjá þeim.

Í raun er þetta öflugur grasrótarhópur sem kirkjan er lánsöm að hafa fóstrað.

Það þarf að ræða margt og skipuleggja námskeiðið. Fyrsta kvöldið er kynningarfundur – núna á miðvikudaginn þann 25. september kl. 18.00. Hann er öllum opinn og þar verður sagt frá námskeiðinu og að því loknu snæddur saman kvöldmatur. Síðan meltir fólk ekki aðeins matinn heldur og það sem sagt var frá á kynningarfundinum og hefur tækifæri til að skrá sig í námskeiðið ef það kýs svo.

Undirbúningshópurinn segir að spennandi sé að sjá hve margir skrái sig. Fjöldinn hefur verið allt frá um 15 manns og upp í 60 þegar mest hefur verið. En alltaf er vinnan skemmtileg og gefandi hvað sem margir eru. Leiðbeinendur skipta með sér verkum, og hópnum er skipt niður í smærri hópa.

Námskeiðið stendur yfir í átta vikur og byggist á fyrirlestrum og samtali. Einnig er horft á Alfa-myndbönd sem eru með íslenskum texta.

Fólkið sem hefur sótt námskeiðin kemur úr öllum áttum, eiginlega þversnið af samfélaginu – þó eru flestir þátttakendur á miðjum aldri. Yngsti þátttakandinn hefur verið um tvítugt og sá elsti hefur verið kominn yfir nírætt.

Það kom fram hjá leiðbeinendunum að samtalið væri mikilvægt. Sumir sem koma á námskeiðið eru á báðum áttum um trúna og aðrir hafa kannski lengi velt trúmálum fyrir sér og hinum stóru spurningum lífsins, sem svo eru kallaðar. Samtalið dýpkar skilning og víkkar sjónarhornið.

Námskeiðin hafa einkennst af gleði og jafnvægi. Fólki finnst gott að eiga stund í kirkjunni og ræða um trúna, og svo sem hvaðeina er hana snertir, og annað sem er á döfinni. Það eru umfram allt jákvæðir straumar sem leika um fólk á námskeiðinu, sögðu þau í undirbúningshópnum. Og þannig uppbyggist hið andlega í hverdagslífinu. Til góðs.

Á hverju námskeiði er farið svo í ferðalag frá föstudegi til sunnudags, í Ölver. Hópurinn þjappast saman í ferðalaginu, þar er sungið og farið í leiki. 

Eins og margur segir eftir að hafa tekið þátt í Alfa-námskeiði: „Alfa-námskeið, það er málið.“

Nánar má sjá um allt námskeiðið hér.



  • Fræðsla

  • Frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Námskeið

  • Trúin

  • Viðburður

  • Fræðsla

  • Menning

  • Námskeið

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls