Kvikmyndir og kirkjufólk
Kirkjan.is blaðaði í gegnum dagskrá kvikmyndahátíðarinnar RIFF (Reykjavík International Film Festival) sem byrjaði í gær – dagskrána má sjá: hér.
Þetta er í 16da sinn sem hátíðin er haldin. Þar kennir að sjálfsögðu margra grasa fyrir kvikmyndaáhugafólk og má segja að boðið sé að vanda til mikillar veislu.
Nokkrar myndir á hátíðinni gætu vakið áhuga kirkjufólks en þær glíma við tilvist mannsins og Guðs. Aðrar fjalla um samfélagsmál sem kirkjan hefur látið til sín taka með margvíslegum hætti á umliðnum árum og áratugum.
Kirkjan.is vekur athygli á eftirfarandi myndum:
Corpus Christi
Hér er sögð saga hins tvítuga Daníels, sem verður fyrir trúarlegri vakningu þegar hann dvelur í unglingafangelsi. Hann vill verða prestur en sakaferill hans kemur í veg fyrir það. Þegar hann er sendur til að starfa á trésmíðaverkstæði í litlum bæ mætir hann á svæðið í prestshempu og tekur af slysni við söfnuðinum.
Sýnd: 2. október kl. 19.00, 6. október kl. 2.45. Bíó Paradís.
God exists, her name is Petrunya
Það er árviss viðburður í bænum Stip í Makedóníu að presturinn hendi krossi í ána og hundruð karla dýfi sér eftir honum. Gæfa og gjörvileiki fylgir hverjum þeim sem nær honum. Þetta árið tekur Petrunya upp á því að dýfa sér líka og nær krossinum. Karlarnir verða ævareiðir - hvernig vogar kona sér að taka þátt í þeirra helgiathöfn? Allt fer til fjandans en Petrunya stendur föst á sínu. Hún náði krossinum og skilar honum ekki.
Sýnd: 29. september, kl. 16.50 og 4. október kl. 15.00. Bíó Paradís.
Gods of Molenbeek
Molenbeek er eitt fátækasta hverfið í Brussel og hefur orð á sér fyrir að vera afdrep hryðjuverkamanna. Hverfið er jafnframt heimkynni tveggja sex ára drengja. Aatos, sem er af chilensku og finnsku bergi brotinn, og Amine, sem er múslimi, tilheyra ólíkum heimum en það kemur ekki í veg fyrir að þeir leiki sér saman af gleði. Í myndinni er reynt að skilja aðstæður í hverfinu og svara spurningunni um tilvist Guðs.
Sýnd: 28. september kl. 13.15, 30. september kl. 15.15, 6. október kl. 17.30. Bíó Paradís.
Notre Dam
Maud Crayon, arkítekt og tveggja barna móðir, á erfitt með að samræma starfsframann og tilfinningalífið. Þetta skrifast að hluta til á veiklundaðan fyrrverandi eiginmann hennar, sem er enn þá inni í myndinni. Þegar hún er líkt og fyrir kraftaverk valin til að stjórna endurbótum á Notre Dame kirkjunni í París, sem ætti að skjóta henni uppá stjörnuhimininn í arkitektúrsenunni, gengur ekkert samkvæmt áætlun. Myndin var tilnefnd til Piazza Grande verðlaunanna á Locarno hátíðinni.
Sýnd: 29. september kl 20.45, 4. október kl. 17.15, 6. október kl. 19.00. Bíó Paradís.
Jóhanna af Örk/ Joan of Arc
Á 15. öld gera bæði Frakkar og Englendingar tilkall til frönsku krúnunnar. Hin unga Jóhanna trúir því að hún sé útvalin af Guði og leiðir her franska kóngsins. Þegar hún er tekin til fanga leiðir kirkjan hana fyrir rétt og sakar hana um trúvillu. Jóhanna neitar þessum ásökunum og stendur af reisn með köllun sinni. Sú ákvörðun Bruno Dumonts að láta tíu ára stelpu leika hlutverkið gefur sígildum málstað og hugmyndafræði söguhetjunnar nýja innspýtingu. Þannig varpar myndin ljósi á hörmulega stöðu konunnar og þann tilfinningahita, styrk og frelsi sem konur sýna þegar þær eru fjötraðar af samfélaginu og úreltri karlamenningu sem lítillækka þær og útskúfa.
Sýnd: 3. október kl. 17.00, 5. október kl. 19.00 og 6. október kl. 14.45. Bíó Paradís.
Cold Case Dag Hammarskjöld
Árið 1961 hrapaði flugvél Dags Hammarskjöld, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, á dularfullan hátt og Hammarskjöld fórst ásamt allri áhöfninni. Danski leikstjórinn Mads Brügger (The Red Chapel, The Ambassador) og sænski einkaspæjarinn Göran Björkdahl reyna að leysa gátuna um dularfullan dauðdaga Dags Hammarskjöld. Þegar hringurinn fer að þrengjast uppgötva þeir enn verri glæp en morðið á aðalritara Sameinuðu þjóðanna.
Sýnd: 29. september, kl. 2.45, 30. september kl. 8.45 og 6. október kl. 13.00. Bió Paradís.
Una Primavera
Eftir enn eitt skiptið sem Fiorella, þriggja barna móðir, er beitt ofbeldi á heimili sínu ákveður hún að yfirgefa eiginmann sinn eftir 40 ára hjónaband. Hún er 58 ára og sækir loksins um lögskilnað í leit að frelsi og nýrri fótfestu. Dóttir hennar, Valentina, fylgir henni eftir með handheldri myndavél og fangar fyrstu skref hennar í átt að nýrri framtíð. Flókin leiðangur hefst þar sem þær þurfa að horfast í augu við sig sjálfar og það feðraveldi sem þær búa við.
Sýnd: 29. september kl. 13.00, 1. október kl. 19.15, 6. október kl. 19.00 . Bíó Paradís
Midnight Traveler
Þegar talíbanar setja fé til höfuðs afganska leikstjóranum Hassan Fazili neyðist hann til að flýja ásamt eiginkonu og tveimur dætrum. Fazili fangar frá fyrstu hendi þá hættu sem mætir hælisleitendum og ástina sem ríkir í fjölskyldu á flótta.
Sýnd: 30. september kl. 17.00, 3. október kl. 20.45. Bíó Paradís.