Kona vígð í Jerúsalem
Í gær var dr. María Leppäkari, framkvæmdastýra Sænsku guðfræðistofnunarinnar í Jerúsalem, vígð til prestsþjónustu hjá Lúthersku kirkjunni í Jórdaníu og Landinu helga. Hún er fyrst kvenna til að vígjast hjá þessari kirkjudeild sem telur um 3000 manns og það sem er markverðast sú fyrsta sem hlýtur vígslu í borginni helgu til kristinnar prestsþjónustu.
Dr. María er mörgum Íslendingum kunn en hún hefur tekið á móti hópum frá Íslandi vegna starfa sinna hjá Sænsku guðfræðistofnuninni. Hún kom í fyrra til Íslands og flutti fyrirlestur á afmæli Prestafélags Vestfjarða.
Íslenskir vígsluvottar voru þau sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir, prestur á Þingeyri, og sr. Hulda Hrönn M. Helgadóttir, prestur Kvennakirkjunnar. Ýmsar aðrar kirkjur áttu sína fulltrúa í vígslunni.
Svo skemmtilega vildi til að vígsludagurinn var sá hinn sami og þá fyrsta íslenska konan, sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir, hlaut prestsvígslu fyrir 45 árum, til Staðarprestakalls í Súgandafirði. Þess var minnst við guðsþjónustu Kvennakirkjunnar í Neskirkju í gær. Sjá Kvennakirkjan.
Áður en dr. María Leppäkari tók við guðfræðistofnuninni – sem var 2015 - var hún dósent í trúarbragðafræðum við háskólann í Åbu í Finnlandi. Sænska guðfræðistofnunin í Jerúsalem fæst einkum við rannsóknir á samskiptum kristni, gyðingdóms og islam, sem og að rækta samkirkjuleg tengsl við ólíkar kirkjudeildir.
Í sumar var hér á ferð fyrrum biskup Lúthersku kirkjunnar í Jórdaníu og Landinu helga, dr. Munib Younan, fyrrum forseti Lútherska heimssambandsins, og prédikaði hann í Skálholti á Skálholtshátíð. Milli Lúthersku kirkjunnar í Jórdaníu og Landinu helga eru finnsk tengsl en dr. Munib lauk guðfræðiprófi frá háskólanum í Helsinki – og dr. Maria Leppäkari er af finnsku bergi brotin. Og benda má á enn fleiri tengsl til gamans og þau eru að dr. Munib er heiðursdoktor frá háskólanum í Wartburg í Iowa í Bandaríkjunum en hann þekkja margir Íslendingar sem þangað hafa farið í náms- og kynnisferðir með sr. Gunnari Sigurjónssyni.
Núverandi biskup Lúthersku kirkjunnar í Jórdaníu og Landinu helga er sr. Sani Ibrahim Azar.
Lútherska kirkjan í Jórdaníu og Landinu helga er með höfuðaðsetur í Jórdaníu og Palestínu. Söfnuðurinn fagnar 60 ára afmæli á þessu ári en Hússein Jórdaníukonungur viðurkenndi sjálfstæði hans árið 1959. Söfnuðurinn á rætur allt til miðrar nítjándu aldar á þessum slóðum.
Kirkjur safnaðarins eru í Jerúsalem, Betlehem, Ramallah og í Amman.
Frá vigslunni - dr. María Leppäkari lítur um öxl. Þarna má sjá
sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup, og sr. Hildi Ingu Rúnarsdóttur.