Stutta viðtalið: Orgel fyrir alla
„Orgelið á að vera þarna uppi á vestursvölunum,“ segir organistinn og bendir þangað með nettum orgelfingri sínum, „arkitektinn gekk út frá því í teikningum sínum og þar er gott rými.“ Kirkjan.is tekur undir það enda svalirnar myndarlegar og víðar – enginn kotungsbragur þar á.
Það er organistinn í Háteigskirkju sem hefur orðið, einbeitt kona og vinaleg, Guðný Einarsdóttir, formaður Orgelsjóðs kirkjunnar.
Nú stendur yfir sérstakt söfnunarátak fyrir nýju orgeli í Háteigskirkju. Boðið er upp á vandaða tónleikadagskrá í kirkjunni þar sem hópur tónlistarmanna kemur fram. Næstu tónleikar verða 5. október, svo 2. nóvember og þá 7. desember. Dagskrána má sjá hér neðar.
„Hljómburður kirkjunnar er mjög góður og hún hefur alltaf verið eftirsótt til tónleikahalds og og hvers kyns tónlistariðkunar“, segir Guðný.
Nýtt orgel gæti orðið lyftistöng fyrir kirkjuna að sögn Guðnýjar því að hún er fallegt guðshús, altaristaflan glæsilegt listaverk og allur umbúnaður til fyrirmyndar. Það muni nýtast mjög mörgum.
„Gott orgel myndi gera kirkjuna enn eftirsóknarverðari en nú er fyrir margvíslegar kirkjulegar athafnir og tónleika,“ segir Guðný.
Háteigskirkja er rúmlega hálfrar aldar gömul, vígð í desember 1965, og mikil borgarprýði í sínum hvítu klæðum með tignarlegum fjórum turnum.
„Núverandi orgel í kirkjunni kom í hana í tíð Martins Hungers, organista,“ segir Guðný og bætir við að það hafi verið hugsað sem bráðabirgðaorgel.
„Nýtt orgel kostar tugi milljóna,“ segir Guðný. „Kannski verðum við komin langt á veg með þetta þegar kirkjan verður sextug, árið 2025, hver veit?“ bætir hún við vongóð á svip.
Söfnun fyrir orgeli í stóra kirkju eins og Háteigskirkja er, segir Guðný vera langtímaverkefni og þolinmæðisverk. Fyrir hvert framlag hvort heldur það er smátt eða stórt er þakkað af heilum huga. Margt smátt gerir eitt stórt.
Kirkjan.is spyr hvort það verði tvö hljómborð, annað niðri og hitt uppi eins og í Hallgrímskirkju.
„Það er ekki búið að ákveða neitt,“ segir Guðný, „ekki búið að teikna orgelið og hanna – en allt er mögulegt.“
Guðný segir fyrstu tónleikana sem voru í byrjun september hafa tekist vel en þar léku hún og Gunnar Kvaran, sellóleikari, verk eftir Bach, Vivaldi, Schubert og Mendelssohn.
Kirkjan.is hvetur lesendur sína til að sækja tónleika í Háteigskirkju til styrktar orgelsöfnuninni. Listamennirnir gefa vinnu sína og aðgangseyrir er enginn. En fólk er hvatt til að leggja sitt framlag í orgelsjóðinn eftir efnum og ástæðum.
Reikningur Orgelsjóðsins er:
0301-26-206001
Kt. 600169-3439