Umhverfissiðbót í þágu jarðar
Dagana 8.- 10. október næstkomandi verður haldin ráðstefna í Skálholti um samstarf samtaka, sem hafa trúarlegan og eða samfélagslegan bakgrunn, að markmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Ráðstefnan í Skálholti er samstarfsverkefni Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Landgræðslunnar og íslensku þjóðkirkjunnar.
Ráðstefnan er aðdragandi að þátttöku íslensku þjóðkirkjunnar, Grænu kirkjunnar við Hringborð norðurslóða, Arctic Circle Assembly í Hörpu, dagana 10.-13. október.
Sú umbreyting á lífsháttum, sem viðnám gegn loftslagsvánni kallar á, þarfnast viðhorfsbreytinga um allan heim. Svar íslensku þjóðkirkjunnar er Græna kirkjan - stefnuyfirlýsing íslensku þjóðkirkjunnar í umhverfisverndarmálum.
Íslenska þjóðkirkjan telur rúmlega 236 þúsund safnaðarmeðlimi. Græna kirkjan er því fjölmennasta félag landsins sem hefur slegist í lið með umhverfisvernd.
Um Grænu kirkjuna má lesa hérna: Græna kirkjan.
Á vegum UNEP, umhverfisáætlunar Sameinuðu þjóðanna, hefur verið unnið að því að tengja saman samtök með trúarlegan bakgrunn til forystu fyrir siðbót í þágu jarðar. Á sama hátt hefur áhugafólk um landgræðslu og endurheimt jarðargæða átt með sér áhrifamikið alþjóðlegt samstarf. Sú hugmynd sem rædd verður í Skálholti er að tengja saman þessa áhrifaaðila í heimsnet sem léti til sín taka í loftslagsmálum.
Iyad Abumoghli, fulltrúi frá UNEP, tekur þátt í ráðstefnunni og opnum fundi í Skálholtskirkju miðvikudaginn 9. okt. kl. 14:00 ásamt Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfisráðherra, Peter-Fischer Möller, Hróarskeldubiskupi, Beatrice Dossah, aðgerðarsinna frá Ghana, Kristínu Völu Ragnarsdóttur, prófessors í sjálfbærnifræðum við HÍ og frú Agnesi M. Sigurðardóttur, biskupi Íslands.
Nokkrir þeirra sem boðið hefur verið til ráðstefnunnar í Skálholti munu verða meðal ræðumanna í tveimur málstofum á Hringborði norðurslóða (Arctic Circle Assembly) í Hörpu 10. – 13. október.
Þjóðkirkjan, Stofnun Sigurbjörns Einarssonar, Guðfræðistofnun HÍ og Trú og samfélag standa fyrir málstofu um „Siðbót í þágu sjálfbærnimarkmiða Sameinuðu þjóðanna“.
Landgræðsluskóli Sameinuðu þjóðanna; Landgræðslan; Landvernd og Trú og samfélag skipuleggja málstofu sem ber heitið: „Brúargerð til velsældar með þekkingu og aðgerðum“.
Dagskrá málstofanna og opna fundarins í Skálholti má sjá á vef Hringborðs norðurslóða Dagskrá norðurslóða. Einnig á: kirkjan.is og skalholt.is
Mark MacDonald, biskup frumbyggja innan Anglíkönsku kirkjunnar í Kanada, verður meðal aðalræðumanna á Hringborði norðurslóða. Hann kemur til Íslands í boði þjóðkirkjunnar og Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrum forseta Íslands. Mark MacDonald er forseti Alkirkjuráðsins í Norður-Ameríku.
Sunnudaginn 13. október verða Mark MacDonald, Peter-Fischer Möller, Jim Antal, rithöfundur og kirkjuleiðtogi í Bandaríkjunum, Beatrice Dossah og Jógvan Friðriksson Færeyjabiskup, prédikar víðsvegar í kirkjum Reykjavíkur.
Peter-Fisher Möller Hróarskeldubiskup flytur auk þess fyrirlesturinn „Græna kirkjan í Danmörku,“ í Hallgrímskirkju kl. 09.30 þann sama sunnudag. Dagskrá ráðstefnunnar fylgir sem viðhengi fréttatilkynningarinnar.
Allar upplýsingar veitir sr. Halldór Reynisson, prestur Grænu kirkjunnar og verkefnastjóri á Biskupsstofu - halldor.reynisson@kirkjan.is - 856 1571