Skammdegisbirta sem ljómar
Á haustin breytast mörg safnaðarheimili í menningarstöðvar. Boðið er upp á fjölbreytilegt úrval af viðburðum fyrir ýmsa aldurshópa. Þessir viðburðir eru auglýstir á heimasíðum kirknanna eða í landshluta- og hverfisblöðum eftir því sem við á. Það er mikilvægt að vekja athygli fólks á slíkum viðburðum svo sem flestir fái vitneskju um kröftugt safnaðarstarf á öðrum dögum en sunnudögum. Vandað efni og gott sem menningargrasrót kirknanna skipuleggur á nefnilega fullt erindi til fólks.
Neskirkja er í flokki kirkna sem býður upp á fróðlega og mjög svo áhugaverða dagskrá þegar haustið gengur í garð.
Í fyrradag var í Neskirkju stund sem þau kalla Skammdegisbirtu.
Eftir blíðviðri daganna var haustið skyndilega komið og tók hressilega í mannfólkið. Skammdegisbirtan svo sannarlega búin að láta á sér kræla þegar fólk skáskaut sér í gegnum veðrið og inn í Neskirkju. Þar var önnur skammdegisbirta í boði. Og hún var nú ögn bjartari en sú sem fylgdi suddanum utandyra. Hún ljómaði.
„Þú varst ekki grár þegar þú byrjaðir hér,“ segir kirkjan.is við Rúnar Reynisson, framkvæmdastjóra, og virðir fyrir sér gráan kollinn og glaðlegt andlitið. Hann er „alt muligmand“ í Neskirkju.
„Aldeilis ekki,“ svarar hann brosandi og segist vera búinn að vinna í kirkjunni svo lengi sem elstu menn muna. Safnaðarheimilið er vel nýtt að sögn hans og starfið blómlegt. Hann stóð við pottinn í skammdegisbirtunni í eldhúsi kirkjunnar og hrærði í ilmandi súpunni og skar gróft brauðið milli þess sem hann lagði sleifina frá sér. Maður snar í snúningum og vel skipulagður. Svona mann þyrftu allar kirkjur að hafa. Svo er hann guðfræðingur og fínn ljósmyndari.
Og hvað er menning án matar?
Skammdegisbirtustundin hófst á orgelleik Steingríms Þórhallssonar í rökkvaðri kirkjunni. Það var notaleg stemning og þrátt fyrir organtóna hvíldi andleg kyrrð og rómantísk yfir áheyrendum.
Eftir orgelleikinn var boðið í súpu og brauð. Ung tónlistarkona, Una Torfadóttir, steig fram, lék á gítar og söng eigin lög við texta sem hún hafði sjálf samið. Hún er nemi í Listaháskólanum og framlag hennar var merki um að engu þarf að kvíða um að skortur verði á glæsilegum listamönnum í framtíðinni.
Temað í stund Skammdegisbirtunnar var listin.
Það var dr. Ynda Eldborg, listfræðingur, sem flutti fyrirlestur um listaverkin þrjú sem eru eftir hinsegin fólk og eru til sýnis í safnaðarheimilinu. Þau eru helguð sýningunni Regnbogabraut: Falin saga í 1200 ár.
Listafólkið sem sýnir í Neskirkju verk sín á þremur veggjum er: Viktoría Guðnadóttir með verkið Þöggun, Hrafnkell Sigurðsson með verkið Upplausn og Logn Draumland með verkið Hinsegin feitir líkamar, staðfesting á tilvist. Kirkjan.is fjallaði um þessi verk í ágúst s.l. og tengsl þeirra við sýninguna í Þjóðminjasafninu. Sjá: hér.
Þá ræddi dr. Skúli Sigurður Ólafsson, sóknarprestur, um samkynhneigð í ljósi Biblíunnar og íslenskra fornsagna.
Dr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir stýrði samkomunni.
Skammdegisbirtan verður á dagskrá í vetur. Einnig má nefna dagskrárliðinn Krossgötur sem er einkum ætlaður eldri borgurum. Þá koma meðal annars ýmsir fyrirlesarar og segja frá uppbyggilegum og spennandi málum. Krossgötur eru vikulega í Neskirkju.
Loks skal bent á dagskrárliðinn sem heitir Rómantík í Neskirkju, á fimmtudögum í október kl. 20.00. Það er líka glæisleg og áhugaverð dagskrá.
Heimasíða kirkjunnar er hér.
Áfram Neskirkja, segir kirkjan.is!