Kirkjan og flóttafólk

9. október 2019

Kirkjan og flóttafólk

Vaskur hópur fór utan til að kynna sér málinSendinefnd á vegum þjóðkirkjunnar heimsótti aðalstöðvar Lútherska heimssambandsins (LWF) og Alkirkjuráðsins (WCC) í Genf 25. til 30. september síðastliðinn

Séra Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum, fór fyrir nefndinni, en í henni voru sex prestar, þau sr. Magnús Björn Magnússon, sóknarprestur Breiðholtskirkju, dr. Kjartan Jónsson, sóknarprestur Ástjarnarkirkju, sr. Eva Björk Valdimarsdóttir og Ása Laufey Sæmundsdóttir, héraðsprestar Reykjavíkurprófastsdæmis vestra, sr. Hjalti Jón Sverrisson, prestur Laugarneskirkju, og sr. Toshiki Toma, prestur innflytjenda.

Tilgangur heimsóknarinnar var að skoða og fræðast um kirkjulega starfsemi fyrir flóttafólk og hælisleitendur í Evrópu og heiminum. Nefndin hlýddi á sextán erindi á fyrstu tveimur dögum heimsóknarinnar þ.á.m. erindi dr. Martin Junge, framkvæmdastjóra LWF og dr. Olav Fyske Tveit, framkvæmdastjóra WCC.

„Lútherska heimssambandið og Alkirkjuráðið eru að vinna mjög mikilvægt starf sem fróðlegt var að kynnast. Tengslin sem mynduðust í ferðinni munu gera okkur kleift að viðhalda samtali við presta og kristna söfnuði um allan heim um hvernig við getum sinnt þessu hlutverki og mætt vanda þessa hóps og þeirri viðkvæmu stöðu sem hann er í“, segir sr. Ása Laufey um ferðina til Genfar og starf LWF og WCC.

Sendinefndin kynnti sér einnig starfsemi nokkurra safnaða og frjálsra félagasamtaka sem starfa fyrir fólk á flótta. Nefndin tók þátt í sunnudagsmessu hjá lúterska söfnuðinum í Genf, en þar hittust um hundrað manns í kraftmiklu og kærleiksríku andrúmslofti og gaf hún góða mynd af fjölmenningarlegri lofgjörðarstund.

,,Það voru mörg börn í messunni og ég tók sérstaklega eftir því að þau tóku þátt í altarisgöngunni með foreldum sínum. Eftir það fóru þau í sunnudagsskólann á neðri hæð kirkjunnar. Þetta var ný tímasetning á því hvenær börnin fara og taka þátt í sínu starfi, en afar fjölskylduvænt og ánægjulegt. Messan var á ensku, en sálmar og söngvar á mörgum tungumálum. Virkilega alþjóðlegt“, segir sr. Magnús Björn.

Eftir messuna kynnti AGORA, frjáls samtök fyrir hælisleitendur, starfsemi sína.Einig sagði kenísk kona frá reynslu sinni sem hælisleitandi í Genf. Sr. Toshiki greindi stuttlega frá stöðu hælisleitenda á Íslandi og þjónustu þjóðkirkjunnar við þá.

Sama dag tók sendinefndin þátt í guðþjónustu í söfnuði bresku biskupskirkjunnar í Gingin-héraði. Söfnuðurinn hefur langa reynslu í að veita hælisleitendum aðstoð og samræður við fólkið í söfnuðinum var einstaklega fróðleg og mikil hvatning fyrir sendinefndina.

,,Það var afskaplega dýrmætt fyrir okkur að fá að hitta þau. Bæði að skiptast á hugmyndum en ekki síst reynslu, sem oft er okkur erfið þar sem við tengjumst fólki djúpum böndum en svo fær það ef til vill ekki hæli og það hverfur burt úr lífi okkar. Við enduðum á því að biðja saman fyrir starfinu okkar, fólkinu sem við sinnum og flóttafólki um allan heim. Ég held að það hafi enginn farið ósnortin heim eftir þá stund,“ segir sr. Eva Björk.

Enn fremur fékk nefndin tækifæri til að heimsækja Harald Aspelund, sendiherra Íslands í Genf, og fræddist um starf hans í mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna, en Ísland á nú sæti þar í fyrsta sinn.

,,Þetta reyndist mjög góð ferð og þessi reynsla mun nýtast mjög mikið fyrir þjóðkirkjuna og Íslendinga,“ segir sr. Solveig Lára, vígslubiskup á Hólum, um ferðina og heldur áfram: ,,Mér finnst það blasa við að þjóðkirkjan þurfi að setja starf við flóttafólk í langatímaáætlun sína. Við í sendinefndinni hyggjumst gera tillögu um næstu skref kirkjunnar við málefnið á komandi kirkjuþingi.“

Sr. Árni Svanur Daníelsson og sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir sem búa í Genf og sr. Yrsa Þórðardóttir í Morges-bæ aðstoðuðu sendinefndina mikið.



  • Alþjóðastarf

  • Fræðsla

  • Frétt

  • Heimsókn

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Fræðsla

  • Menning

  • Samfélag

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls