Skálmöld í barnastarfi
Tónlist í barnastarfi kirkjunnar er lykill að góðum árangri í allri boðun kirkjunnar; hún skipar veglegan sess og er ákveðinn þráður í öllu starfinu.
Margur snjall og efnilegur gítaristinn hefur lagt barnastarfi kirkjunnar lið sitt víða um land. Það er þakkarvert.
Mikilvægt er að hlúa að öllu hinu fjölbreytta tónlistarstarfi og þess vegna kallaði söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, Margrét Bóasdóttir, í samstarfi við fræðsludeild þjóðkirkjunnar, til námskeiðs í gítarleik á dögunum. Námskeiðið fór fram á Torginu í Neskirkju.
Þráinn Árni Baldvinsson, gítarleikari og gítarkennari með meiru, Skálmaldarmaður, var kallaður til leiks.
Fimm manns sem sjá um barnastarf skráðu sig á námskeiðið hjá honum. Farið var yfir sunnudagaskólalögin og þau spiluð. Þráinn Árni leiðbeindi um hvað mætti betur fara hjá hverjum og einum og gaf holl ráð í veganesti út á akurinn.
Þátttakendur voru mjög ánægðir og sömuleiðis Þráinn.
Að sögn söngmálastjóra var þetta í fyrsta skipti sem tónlistarfólk í barna- og æskulýðsstarfi kirkjunnar er styrkt með þessum hætti.
Kirkjan.is ræddi stuttlega við Þráin Árna. Hann sagði að þetta hefði verið frábær hópur:
„Þetta eru eintómir snillingar,“ sagði hann hress í bragði. „Við hlógum mikið enda snýst þetta alltaf um að hafa gaman.“
Hópurinn hittist fjórum sinnum, eða fjóra laugardaga í röð, sagði Þráinn Árni, og bætti við:
„Ein og með allt annað sem maður tekur sér fyrir hendur þá þarf auðvitað að æfa sig heima, reyna að fá eins mikið af upplýsingum í tímunum og hægt er og vinna svo úr þeim heima. Allir nemendurnir hafa að sjálfsögðu aðgang að mér í gegnum tölvupóst og Facebook og geta alltaf sent mér spurningar ef einhverjar eru.“
Þráinn Árni hefur ekki komið að sunnudagaskólastarfi áður. Hann segir lagavalið ágætt í starfinu en nauðsynlegt sé að virkja alla.
„Þau verða bara að vera óhrædd við að spila á gítarinn, vera ekki smeyk um að gera mistök,“ segir hann, „og bara hlæja ef maður spilar rangan hljóm og halda áfram. “ Krökkunum finnist ekkert verra að geta hlegið að og með fullorðna fólkinu.
Í lokin var hann spurður hvort hann hafi kennt þeim eitthvert þungarokkstrix:
„Tja, við byrjuðum reyndar að skoða og spila melódíur þannig að næsta námskeið verður bara að snúast um gítarsóló, sviðsframkomu og henda svo í gigg!“
Ljóst er að vel hefur tekist til og vonandi verður framhald á þessu starfi fræðsludeildar og söngmálastjóra.