Stutta viðtalið: Eldhugar í kirkjunni

30. október 2019

Stutta viðtalið: Eldhugar í kirkjunni

Sr. Fritz Már og sr. Díana Ósk, frumkvöðlar með netkirkjuna

Trúin er þeim hjartans mál og meira en það. Þau eru ætíð reiðubúin að ræða trúmálin frá ýmsum sjónarhornum og hlusta á viðmælendur sína. Setja sig inn í aðstæður og gefa góð ráð – þau eru ekki bara öflugt fagfólk með góða menntun og drjúga reynslu heldur fyrst og fremst manneskjur. Trúar og staðfastar.

Búa á fjórðu hæð í fjölbýlishúsi. Þar sér til margra átta. Í norðri blasti Esjan við og björt skýin yfir henni leystust óðfluga í sundur og stefndu í ýmsar áttir á þessum nýbyrjaða vetri. Augljóslega nóg að gera hjá þeim eins og þeim hjónum sem kirkjan.is tók tali á dögunum.

Sr. Fritz Már Jörgensson og Díana Ósk Óskarsdóttir. Hann er prestur við Keflavíkurkirkju og hún er sjúkrahúsprestur.

Þau brenna í andanum. Bæði þessa heims – og hins rafræna! Full af krafti og áhuga.

Þau eru eldhugar.

„Netkirkja.is var stofnuð 30. júlí 2017,“ segir sr. Fritz. Kirkjan.is kumrar djúpt ofan í sér: „Umm, á siðbótarárinu, aldeilis gott.“ Fyrirmyndin er sótt til Noregs að sögn þeirra hjóna, norsku netkirkjunnar, sjá hér, sem studd er af norsku þjóðkirkjunni og sjómannakirkjunni. Norðmenn hafa reynslu af slíkum netkirkjurekstri frá árinu 1998. Eins eru Danir með netkirkju – Svíar hafa ekki verið eins duglegir.

Þau segjast hafa kynnt hugmynd sína um að ýta netkirkju úr vör fyrir biskupnum, sr. Agnesi M. Sigurðardóttur. Hafi hún tekið því vel og fagnandi.

Enda þótt sr. Fritz og sr. Díana Ósk séu bæði starfandi þjóðkirkjuprestar þá er netkirkja.is – eins og reyndar þjóðkirkjan sjálf – öllum opin.

„Við sjáum um vefinn í lausum stundum,“ segir sr. Díana. Fritz bætir við að umsýsla sé ekki mjög íþyngjandi. „Það þarf stundum að taka til á vefnum,“ segir hann, „þurrka af ýmsu – prófarkalesa sumt.“ Tölvumaður þarf að uppfæra eitt og annað á vissum tímafresti. „Ekkert sem maður telur eftir sér,“ bætir hann við.

„Prestar og djáknar þjóðkirkjunnar hafa verið mjög fúsir til að láta okkur fá hugvekjur til að birta,“ segir sr. Fritz.
„Við miðum við hámark fimm hundruð orð,“ bætir sr. Díana við. „Og sumir prestanna eiga erfitt með að halda sig innan þeirra marka,“ segir sr. Fritz hlæjandi.

Í raun er þetta einfalt form að sögn þeirra hjóna. Hugvekja, orð dagsins, fyrirbænaþjónusta og svo er boðið upp á sálgæslu.

Netsálgæsla

„Sálgæslan getur verið það tímafreka og erfiða í þessu,“ segir sr. Díana Ósk. „Allir verða að panta tíma, spjalltíma á vef netkirkjunnar, í gegnum spjallforritið eða tölvupóst.“

Netsálgæsla er með öðrum hætti en hin hefðbundna þar sem viðmælandinn sést ekki. En hún gerir sömu grunnkröfur og önnur sálgæsla. Hlustun er lykill í allri sálgæslu og í netsálgæslu er hlustað með öðrum hætti en þegar horfst er í augu við viðmælandann enda sjást ekki viðbrögð í svip né heldur heyrast þau í raddblæ. Koma kannski fram í orðanotkun eða táknum.

Fyllsta trausts er að sjálfsögðu gætt. Þagnarskylda er í hávegum höfð – enginn hefur aðgang að samtalinu nema presturinn og viðmælandinn. Sálgæslan fer aðeins fram í gegnum spjallforrit á síðunni og er svo eytt þegar henni er lokið. „Við höfum líka samið Handbók netkirkjunnar,“ segir sr. Díana Ósk.

En hvaða fólk skyldi leita til netkirkjunnar?

„Það er auðvitað alls konar fólk,“ segir sr. Fritz, „en við vitum ekki annað um það en kall þess eftir sálgæslu og hana veitum við með þakklátum huga yfir því að geta rétt fólki hjálparhönd.“

Þau nefna einn hóp sérstaklega sem fari lítið út fyrir dyr, lifi innan dyra, fái til dæmis mat sendan frá verslunum og kaupi svo annað á netinu. Kirkjan.is hefur heyrt af fólki sem kaupir aðeins inn í verslunum sem opnar eru allan sólarhringinn og fer þá út að næturlagi þegar fáir eru á ferli. Þetta er fólk sem glímir við ýmislegt eins og til dæmis átraskanir, geðræna kvilla og sumt haldið margvíslegri samfélagsfælni. „Aðstæður fólks eru svo óskaplega misjafnar“, segja þau sr. Fritz og sr. Díana Ósk.

Þröskuldur lækkaður

Netkirkja.is lækkar í raun og veru þröskuldinn, fólk getur sótt þessa sálgæsluþjónustu sér að kostnaðarlausu eins og hjá kirkjunni - og þarf ekki að taka aðra ákvörðun en að hafa samband með rafrænum hætti. Þegar búið er að lækka þröskuldinn - svo þeirri líkingu sé haldið - þá er auðveldara í sumum tilvikum að vísa málum áfram til sóknarpresta eða annarra sem búa eftir atvikum yfir sérfræðiþekkingu sem kæmi sé vel við úrlausn máls viðkomandi einstaklings.

Netkirkjunni hefur borist góður liðstyrkur. Það eru prestarnir sr. Axel Árnason Njarðvík, sr. Brynja Vigdís Þorsteinsdóttir og sr. Sigurður Grétar Sigurðsson. Þau ganga inn í sálgæsluhlutverkið.

„Það var glæsilegt viðbót,“ segja þau einum rómi og ánægjan og þakklætið skín af þeim.

Kirkjan.is óskar þeim sr. Fritz og sr. Díönu Ósk velgengni með netkirkja.is.

Netkirkja.is – sjá hér – er svo sannarlega merkileg kirkjuleg starfsemi – og grasrótarstarf á netinu, sem er svo mjög svo eftirtektar- og þakkarvert framtak í boðun fagnaðarerindisins.



  • Fræðsla

  • Frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Trúin

  • Fræðsla

  • Menning

  • Samfélag

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls