„Má prestur vera með tattú?“
Unglingsárin eru eitt mikilvægasta tímaskeið manneskjunnar. Ár deiglu og umróts, sá tími sem margir unglingar horfa til framtíðar vonbjörtum augum en aðrir eru öryggislausir og á báðum áttum um hvað taka eigi sér fyrir hendur í þessari framtíð sem bíður allra. Unglingarnir vita að margir sitja um þau og framtíð þeirra – þess vegna þarf að vanda sig og nýta tímann vel. Fræðast sem best um möguleikana í framtíðinni. Og þá er gott að spyrja. Spyrja fólk sem er komið á stað sem var einu sinni framtíð þess.
Nemendur Kársnesskóla og Kópavogsskóla mættu í salinn í fyrrnefnda skólanum í morgun. Þarna voru þrjúhundruð unglingar komnir til þess sem kallast starfamessa en hún felst í því að fólk úr ýmsum atvinnugreinum segir frá starfi sínu og svarar spurningum. Og svo skemmtilega vildi til í morgun að til þessarar starfamessu voru mættir tveir prestar sem vita vel hvað messa er – það er jú hluti af þeirra starfi.
En prestarnir tveir, sr. Arnór Bjarki Blomsterberg og sr. Hildur Björk Hörpudóttir, voru ekki komin til að „messa yfir lýðnum“ heldur til að segja frá störfum prestsins og svara spurningum sem unglingarnir hefðu fram að færa.
Hópurinn var það stór að það þurfti að skipta honum í tvennt. Fyrri hópurinn kom kl. 8.30 en sá seinni kl. 9.15.
Nemendur skólanna fást núna við verkefni um framtíðarstörf og menntun. Öll voru þau búin að koma ýmsum spurningum niður á blað og höfðu greinilega margs að spyrja.
Enda flugu spurningar leifturhratt um salinn og hefði mátt ætla að prestarnir ættu í vök að verjast. En svo var víðsfjarri. Öllum spurningum svöruðu þau sr. Arnór og sr. Hildur skjótt og greiðlega eftir því sem kostur var.
Og hverjar voru nú spurningarnar? Dæmi má sjá hér:
Hvað felst í starfinu – hvað gerir sá eða sú sem vinnur þetta starf?
Hvaða menntun þarf til að sinna því?
Inni/útistarf – erfitt/auðvelt?
Er þetta starf sem annað kynið vinnur frekar? Af hverju heldur þú að það sé?
Kostir/gallar við starfið?
Af hverju valdir þú þetta starf?
Er þetta draumastarfið þitt og ef svo er, af hverju?
Er þetta mikið álagsstarf?
Er starfið vel borgað?
Síðan var það rúsínan í pylsuendanum! Nemendunum máttu varpa fram aukaspurningu sem var algjörlega að þeirra eigin vali.
Nefna má tvær:
„Má prestur vera með tattú?“
„Gráta prestar líka í jarðarförum?“
Þau sr. Arnór Bjarki og Hildur Björk sögðu að þessi stund hefði í einu orði sagt verið frábær. Þarna hefði gefist fínt tækifæri til að kynna prestsstarfið og auk þess hafi verið mjög ánægjulegt að taka þátt í starfamessu skólans í annað sinn.
Og hver veit nema að einhvern tímann skjóti upp kolli prestur sem segir: „Já, ég var hérna einn af þessum óráðnu unglingum í salnum þarna um árið sem fékk kynningu á starfi prestsins og ákvað bara síðan þegar að því kom að skella mér í prestinn...“