Skipsblessun á Höfn

5. desember 2019

Skipsblessun á Höfn

Sr. Gunnar Stígur blessar skipið (Mynd: Þorsteinn Roy Jóhannsson)

Það hefur löngum verið góður siður að fara með gott orð þegar ný skip koma til heimahafnar. Menn hafa beðið fyrir vernd gegn sjávarháska og blessun til handa skipi og veiðarfærum. Einnig fyrir góðum aflabrögðum.

Fyrir nokkru fór fram skipsblessun á Höfn í Hornafirði í blíðviðri að viðstöddum nokkrum fjölda fólks. Það var sóknarpresturinn sr. Gunnar Stígur Reynisson sem blessaði skipið og við sama tækifæri var því gefið nafnið Steinunn SF 10. Þetta er togbátur og smíðaður í skipasmíðastöðinni Vard í Aukra í Noregi. Það er útgerðarfélagið Skinney-Þinganes hf., sem á skipið og rekur. Steinunn SF 10 er eitt sjö systurskipa, sex þeirra eru komin til landsins, en von er á því sjöunda.

Ekkert sérstakt form er til um það hvernig skipsblessun eigi að fara fram og því er það í hendi hvers prests fyrir sig sem um slíkt er beðinn. Lesið er úr Biblíunni, ávarp flutt, bæn og blessun. Gjarnan er farið með sjóferðarbæn sr. Odds V. Gíslasonar (1836-1911), að Stað í Grindavík sem sr. Gunnar Stígur gerði. Heimasíða prestakalls sr. Gunnars Stígs er vönduð og öflug: Bjarnanesprestakall


Sr. Oddi Grindavíkurklerki var mjög umhugað um öryggismál sjómanna á sinni tíð enda þá tímar þilskipa og opinna árabáta. Fyrr á tímum var farið með sjóferðarbænir fyrir hverja sjóferð á þilskipum og opnum árabátum. Sagt er að tilkoma mótórbáta hafi þokað þeirri góðu hefð smám saman til hliðar. Á sumum stöðum söng fólk sálm í fjörunni þegar báti var ýtt úr vör og var það kallað að syngja bát úr vör.

Sjóferðabæn sr. Odds er nokkuð kunn og er hún svo:

Í nafni Guðs, föður, sonar
og heilags anda.
Almáttugi Guð, ég þakka þér
að þú hefur gefið mér líf
og heilsu svo ég geti unnið störf mín
í sveita míns andlits.

Drottinn minn og Guð minn.
Þegar ég nú ræ til fiskveiða
og finn vanmátt minn og
veikleika bátsins gegn huldum
kröftum lofts og lagar, þá lyfti
ég upp til þín augum trúar og
vonar og bið þig í Jesú nafni að
leiða oss á djúpið, blessa oss
að vorum veiðum og vernda oss,
að vér aftur farsællega heim
til vor náum með þá björg sem
þér þóknast að gefa oss.

Blessa þú ástvini vora,
og leyf oss að fagna aftur
samfundum svo vér fyrir
heilags anda náð
samhuga flytjum þér lof
og þakkargjörð.

Ó, Drottinn.
Gef oss öllum góðar stundir,
skipi og mönnum í Jesú nafni.
Amen.

Hér má sjá fróðleik um sr. Odd V. Gíslason.


  • Frétt

  • Menning

  • Sálgæsla

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Menning

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls