Laugarneskirkja sjötug

13. desember 2019

Laugarneskirkja sjötug

Laugarneskirkja í vetrarbúningi

Það var 18. desember 1949 sem Laugarneskirkja var vígð. Að vonum vakti sá atburður athygli í þjóðlífinu enda hafði ekki verið vígð kirkja í Reykjavík í heila öld. Sem sérstök sókn var Laugarnessókn lögð niður árið 1794 og sameinuð Reykjavíkursókn. Laugarnesprestakall hið nýja var stofnað árið 1941.

Af þessu tilefni mun söfnuðurinn bjóða til afmælisfagnaðar miðvikudaginn 18. desember, á vígsludeginum, milli kl. 17.00 og 19.00. Öllum er boðið til þátttöku en sóknarpresturinn, sr. Davíð Þór Jónsson, verður veislustjóri.

Kirkjan. is innti sr. Hjalta Jón Sverrisson um afmælishaldið.

„Þetta verður í anda hinnar afslöppuðu og heimilislegu stemmningar sem við höfum tamið okkur hér í Laugarneskirkju,“ sagði hann og bætti við að boðið yrði upp á léttar veitingar, gleðilegt og gott samfélag.

„Það er aldrei að vita nema brugðið verði á leik og einhver skemmtiatriði skjóti upp kollinum,“ sagði sr. Hjalti Jón og bætti við með bros á vör: „En það er best að gefa ekki of mikið upp til þess að viðhalda spennunni.“

Kirkjufólkið í Laugarneskirkju vonast til að sem flestir láti sjá sig og samfagni því með þennan merka áfanga í sögu kirkju og safnaðar.

Söfnuðurinn hefur staðið í miklum og kostnaðarsömum framkvæmdum við lagfæringar á kirkjunni og er þeim ekki enn lokið.

Sr. Davíð Þór Jónsson sagði að vinnu við ytra byrði kirkjunnar væri lokið og vinnupallar yrðu teknir niður öðru hvoru megin við helgina. „Það næst fyrir afmælið og er mjög ánægjulegt,“ sagði hann öruggur. „Við stefndum strax á að ljúka þessum áfanga fyrir sjötíu ára afmælið,“ bætti hann við og sagði að nú væri horft til 75 ára afmælisins og þess sem ljúka þyrfti fyrir það. Spurður um fjárhagsstöðuna sagði hann hana standa í járnum en þau kvörtuðu ekki - staða sumra safnaða væri verri en þeirra.

Kirkjuna teiknaði Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins 1941. Hún er ein af meistarastykkjum hans og hefur vakið mikla athygli frá fyrstu tíð. Er hún listaverk út af fyrir sig. Í bókinni Íslensk bygging – brautryðjendastarf Guðjóns Samúelssonar, gefin út 1957, segir svo um á bls. 61:

„Laugarneskirkja í Reykjavík er reist í mjög einföldum og hreinum hamrastíl með fögrum turni, sem gnæfir yfir Laugarneshverfið. Efst er ,turninn þakinn hvítri hettu, svipað jökulbungu, berandi við bláan himininn,´ eins og Guðjón komst sjálfur að orði.“

Á níunda áratug síðustu aldar var byggt safnaðarheimili við kirkjuna og var það að mestu leyti niðurgrafið framan við kirkjuna og tengt við kjallara hennar.

Heimasíða Laugarneskirkju er hér.

Þau sem eru áhugasöm um sögu kirkjunnar geta lesið sér til ögn um það hér og hér og hér.


Úr bókinni Íslensk bygging – brautryðjendastarf Guðjóns Samúelssonar, gefin út 1957,
texti eftir Jónas Jónsson og Benedikt Gröndal, bls. 60. Teikning Guðjóns er undirrituð í júlí 1941.

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Viðburður

  • Menning

  • Samfélag

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls