Prestur segir sögu sína
Sjálfsævisöguritun eða endurminningaritun er bókmenntagrein út af fyrir sig og hefur notið mikilla vinsælda sem og ævisögur sem ritaðar eru af öðrum en þeim er frá segir. Sjálfsævisöguritarinn er heimild og sjónarhóll sögunnar sem hann skrifar og því er hún nokkuð vandmeðfarin. Sjálfsævisögur eru misjafnar eins og ritararnir eru margir. Sumar eru stórmerkilegar heimildir um sögu lands og lýðs en aðrar þunnar í roðinu.
Annað bindi endurminninga sr. Sváfnis Sveinbjarnarsonar, Undir suðurhlíðum kom út fyrir skömmu en hið fyrra, Á meðan straumarnir sungu, kom út fyrir þremur árum. Bæði bindin fylla flokka stórmerkilegra heimilda um sögu lands og lýðs. Endurminningar sínar ritar hann þegar hann á ævikveldi, á níræðis og tíræðisaldri, lítur yfir farinn veg. Það er farsæll vegur. Ekki er hægt að fetta fingur út í að sjálfsævisöguritarinn sé of ungur eins og stundum vill brenna við þegar fólk á besta aldri kemur blaðskellandi fram á ritvöllinn til að segja ævisögu sína eða rekja minningar sínar sem oft er eins og viðtal í lengri kantinum í glanstímariti. Slíkar sögur bera oft með sér merki grænjaxlsins. En hér er presturinn og bóndinn sem segir frá í tveimur bindum, skýr og minnugur þótt aldinn sé. Auk þess sem hann hefur kyrrð og jafnvægi öldungsins sem lítur yfir farinn veg án þess að æðrast. Trú hans er sterk og segir hann til dæmis frá því sem allir prestar þurfa að gera sem er að tilkynna andlát:
„Margoft á minni starfsævi kom það í minn hlut að fara í sorgarhús, að flytja þungbær tíðindi eða vera kallaður til þar sem slysfarir höfðu orðið. Þá kom það einatt fyrir, þegar ég nálgaðist staðinn kvíðnum huga í hljóðri bæn, að ég fann myndast einhverskonar máttarsvið sem hverfðist réttsælis nokkur hundruð metra út frá mér og bílnum og færðist áfram með mér uns kom að áfangastað. Við þetta veittist mér styrkur til að takast á við það verkefni sem þar beið mín og erfitt er í orð að koma, nema hafa sjálfur reynt.“ (Bls. 31).
Þarna hefur máttur trúarinnar fylgt prestinum og borið hann áfram í hinum erfiðu aðstæðum. Þetta er ólíkt því atviki í frásögn hans þegar nafns var vitjað (bls. 160-162) – margir kannast við slíka reynslu.
Sr. Sváfnir var ungur maður þegar hann gerðist prestur á Kálfafellsstað í Suðursveit eftir að hafa verið um tveggja mánaða skeið aðstoðarprestur föður síns á Breiðabólstað. Hann var 24 ára.
Sagan hefst þar sem sr. Sváfnir og fjölskylda kemur að Breiðabólstað eftir að hafa verið ellefu ár á Kálfafellsstað. Nýi staðurinn var honum svo sem ekki ókunnugur, þarna hafði faðir hans, sr. Sveinbjörn Högnason, verið prestur nær því í fjörutíu ár. Og þarna fæddist hann sjálfur árið 1928. Sr. Sváfni þótti gott að koma á æskustöðvarnar og þar var hann sjálfur prestur þrjátíu og fimm ár – og prófastur í rúma þrjá áratugi.
Sr. Sváfnir segir skemmtilega frá því hvernig samstarf presta úti á landsbyggðinni, í sveitinni hans, tók breytingum frá því sem áður var og lýsir því nokkuð. Hann þekkti vel til hvernig það var hjá föður hans. Samstarf jókst og menn hittust og ræddu málin – en ekki eins oft eins og fyrr á árum. Héraðssjóðir voru svo stofnaðir og ýtti það undir samvinnu presta og aukna möguleika í starfi safnaðanna. Og sjálfur gaf hann út í rúman áratug Lítið kirkjublað sem fór inn á hvert heimili í sýslunni (bls. 20).
Eins og vera ber í æviminningum prests segir hann af öðrum prestum, þá nágrannaprestum sínum. Þeir voru kunnir á sinni tíð: séra Sigurður Einarsson í Holti, sr. Hannes Guðmundsson í Fellsmúla, sr. Sveinn Ögmundsson, Kálfholtsprestakalli, sr. Sigurður S. Haukdal á Bergþórshvoli o.fl. Margir þeirra voru litríkir menn og svipmiklir í sínu héraði. Er líklegt að nöfn þeirra eigi ekki eftir að sjást í fleiri endurminningabókum – þó er aldrei að vita. Prestar gleymast eins og aðrir og hverfa í tímans dökka djúp.
En það eru ekki aðeins prestar heldur og bændur og búalið sem hann segir frá. Íslenskt bændafólk í blíðu og stríðu. Svo varðveitir hann nokkrar sögur sagnameistarans frá Barkarstöðum, Árna Tómassonar (bls. 317-322). Á mörgum sveitabæjum hafa verið menn sem gegnt hafa lykilhlutverki í búskapnum, menn sem aðeins eru nefndir á nafn en komu einhvers staðar frá. Tíðindamaður kirkjunnar. is kannast við það af Snæfellsnesi. Þar hétu þeir Doddi og Stjáni svo dæmi séu nefnd og höfðu komið endur fyrir löngu að sunnan sem drengir og uxu upp með bændum og búaliði. Urðu nánast meginöxull í sumum bústörfum. Eins er með Björgvin Jónsson eða Bögga sem sr. Sváfnir nefnir oft – vinnumaður á Breiðabólsstað frá 1937 og mikil hjálparhella og kjölfesta í búskapnum (bls. 188, 374).
Hann segir vel frá hinum merka stað, Breiðabólstað í Fljótshlíð, er stoltur af honum. Rekur sögu staðarins og segir frá því hverjir hafi setið Staðinn.
Sr. Sváfnir gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir samfélag sitt og sveit. Hann var líka Rótarý-maður og um tíma umdæmisstjóri þeirra hér á landi. Þegar slíkir klúbbar skutu rótum hér á landi þá urðu þeir góður farvegur fyrir margvísleg kynni manna í milli og félagsþörf. Enda þótt þeir bæru ensk nöfn og væru í fyrstu framandi þá virðist þeim hafa verið tekið fagnandi sem er vel. Segir hann frá ferðum þessa klúbbs bæði innanlands og utan. Slíkar ferðir voru mikil tilbreyting fyrir fólk víðs vegar um landið, fræðandi og uppbyggilegar.
Sr. Sváfnir var prestur og samhliða því embætti vann hann bústörfin. En þó var fyrsta sérstaka hlutverk hans auk prestsstarfsins sem ungur maður, að vera kollubandsmaður á bát. Sá sem gegndi því starfi stökk af stefni bátsins með kollubandið um leið og hann tók að strjúka grunninn og átti kollubandsmaður að halda bátnum í réttu horfi og koma í veg fyrir að honum slægi flötum fyrir brimöldunni. (Bls. 372). Þessi litla aukafrásögn segir margt sem varð á lífsvegi sr. Sváfnis og tilheyrir liðnum tíma.
Eins og hið fyrra bindi endurminninga sr. Sváfnis þá geymir hið seinna, Undir suðurhlíðum, sem hér er fjallað um, mikla héraðssögu, jafnvel það sem mætti kalla bændasögu, búskaparháttasögu, sögu manns og búskapar, samskipti við skepnurnar, kýr, hross og fé. Það er veröld út af fyrir sig og gangur hennar gefur ekkert eftir. Sr. Sváfnir er góður bóndi eins og hann er góður prestur. Stundum finnst lesanda kannski sem hann sé meiri bóndi en prestur. Kannski er það vegna þess að skepnur búandi sveitaprests kalla hærra til hans í hversdeginum en sóknarbörnin eðli máls samkvæmt. Sjálfur segir hann reyndar að búskapurinn hafi verið góð leið til að ná kynnum við sóknarbörnin – vera í takti við samfélagið ef svo má segja. En hvorutveggja, búi og sóknarbörnum, sinnir hann af mikilli elskusemi og yfirvegun. Virðing hans fyrir skepnunum er djúp og himnesk liggur við að segja. Sambandi bóndans við þær er lýst af mikilli einlægni eins og þegar prestur fer í fjós eða fjárhús um jól – þá er gefin betri heytugga en vanalega. Segist sr. Sváfnir hafa skipt flestum jólum sem hann hefur lifað milli kirkju, heimilis og útihúsa. (Bls.124). Hann segir fjármanninn fyllast stolti í göngum og réttum þegar hann sér fallegan fjárhópinn og hittir hann aftur eftir sumarið. Svo er hinn erfiði tími þegar þarf að raga hjörðina, velja líflömb og slátra öðrum – þá er æðruleysi traust stoð og virðing fyrir gangi náttúrunnar (bls. 215-216). Drjúgur hluti bókarinnar eru sögur af mönnum og skepnum. Það eru lærdómsríkar sögur og fallegar. Já, það eru ekki allar endurminningabækur sem geyma til dæmis 685 ærnöfn á fimm blaðsíðum, fjórir dálkar á síðu!
Þetta er frásaga um farsæla og langa ævi. Og auðvitað gerist margt sem menn hefðu ekki viljað að gerðist:
„Að ævikvöldi, þegar horft er yfir farinn veg, er mér efst í huga þakklæti fyrir hamingjuríkt lif, en um leið söknuður og tregi vegna missis ástvina og samferðafólks sem horfið er úr hópnum. Að sjálfsögðu finnur maður til angurs vegna misstiginna spora og þess sem betur hefði mátt gera. En fjölbreytt reynsla í sæld og þraut hefur hjálpað til skilnings og samlíðunar með öðrum í svipuðum sporum.“ (Bls. 380).
Í lokin er lítið ættartré þar sem segir frá börnum hans með fyrri eiginkonunni sem hann missti, Önnu Elínu Gísladóttur (1930-1974), og stjúpbörnum hans, en seinni eiginkonuna, Ingibjörgu Þórunni Halldórsdóttur (1936-2012), missti hann einnig. Þeirra beggja minnist hann með djúpri virðingu, trega og þökk.
Allt málfar bókarinnar er fallegt og hlýtt, tær og falleg íslenska streymir áreynslulaust fram. Höfundi eru færðar heilar þakkir fyrir að halda þessari merku sögu til haga.