Jólapredikun biskups Íslands á jóladag í Dómkirkjunni

25. desember 2019

Jólapredikun biskups Íslands á jóladag í Dómkirkjunni

Gleðilega hátíð kæri söfnuður.

Kirkjuklukkurnar hafa hringt inn jólin. Þessa miklu hátíð sem við öll getum sameinast um, hvort sem við erum kristin eða ekki. Jólaljósin lýsa og þráin eftir birtunni er öllum í blóð borin. Ljós og birta fylgir góðri líðan og kærleiksríkum tilfinningum, andstætt myrkrinu sem vekur slæmar kenndir og vanlíðan. 


Ljós og myrkur takast á í lífi fólks. Sem betur fer fá flestir að reyna ljósið oftar en myrkrið, enda skín ljósið líka í myrkrinu eins og segir í síðasta versinu í hinum þekkta sálmi „Í Betlehem er barn oss fætt“, „Í myrkrum ljómar :,: lífsins sól. :,: Þér, Guð, sé lof fyrir gleðileg jól. :,: Hallelúja. :,:

Í gær heyrðum við lesið jólaguðspjall Jóhannesar um Orðið sem varð hold og einnig Lúkasar um fæðingu barnsins hennar Maríu. Í dag heldur sú frásaga áfram þar sem frá var horfið í gærkvöldi. Í dag fylgjum við hirðunum eftir til Betlehem, en þannig brugðust þeir við fréttinni um fæðingu barnsins sem í jötu var lagt. Í jólaguðspjallinu er tvíþættum veruleika teflt fram. Annars vegar er hin heilaga og hreina návist Jesúbarnsins en hins vegar heimurinn sem á eftir að festa Jesú á krossinn. Í guðspjallinu skyggnumst við inn í það fegursta sem til er í veröldinni, fæðingu nýrrar mannveru inn í heiminn og birtuna af veröld Guðs, en einnig erum við minnt á myrkrið sem fylgir hinum grimma leiðtoga, sem svífst einskis í valdafíkn sinni. Frá einum þeirra er sagt í guðspjalli Matteusar, Heródusi sem kallaði „vitringana til sín á laun og grófst eftir því hjá þeim hvenær stjarnan hefði birst.“ Heródes áttaði sig á því að „vitringarnir höfðu gabbað hann og varð afar reiður, sendi menn og lét myrða öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni hennar.“

Þannig takast á í fæðingarfrásögum guðspjallanna þriggja allt það besta sem lífið og heimurinn hafa upp á að bjóða og allt það versta í hugsun og fari mannsins.
Mannhelgin og manngildið eru ekki alltaf efst á blaði þegar ófríður ríkir. Það þekkjum við ekki bara af sögu mannkyns heldur einnig daglegum veruleika margra. Staðfestingu þess heyrum við og sjáum í fjölmiðlum heimsins þar sem lífi fólks er fórnað á altari valds og græðgi.
Það vita allir að auðveldara er að ganga í ljósi en myrkri. Við sjáum betur til að fóta okkur og aðrir sjá okkur betur. Flest verk sem fela á eru unnin í skjóli nætur, í myrkri þegar meiri líkur eru á því að þau komist ekki upp. Við tölum um myrkraverk þegar heill og hamingja náungans er ekki höfð í fyrirrúmi og ljóssins verk þegar vel er gert í þágu manns og heims.

Guð er magnaður að velja hirðana sem ekki höfðu háa stöðu í þjóðfélaginu að heyra fyrstir boðskapinn frá himnum um fæðingu frelsarans. Hirðarnir eru táknmynd hins venjulega manns. Þeir voru ekki leiðtogar eða hátt skrifaðir í samfélagi sínu. Þeir eru fulltrúar mannkyns og var treyst til að heyra fyrstir boðskapinn um fæðingu frelsarans og að fara og segja frá því sem þeir höfðu reynt á Betlehemsvöllum.

Guð ætlar öllum mönnum að heyra og reyna þennan boðskap, ekki einhverjum útvöldum. Sá sami Guð fól konum, sem ekki voru trúverðugar í samfélaginu til að reyna fyrstar boðskapinn um upprisuna og þannig koma þeim boðskap áfram til veraldarinnar. Og sá sami Guð valdi unglingsstúlku til að verða móðir Guðs á jörð en ekki tiginborna konu sem hefði haft alla burði til að tilkynna veröldinni fæðinguna samstundis eins og nútíminn bíður. Þannig hefur Guð trú á okkur og treystir okkur til góðra verka, hverju eftir meðfæddum hæfileikum og þroska. Guð sér í hverju okkar möguleika sem við áttum okkur ekki á sjálf og myndi ef til vill aldrei detta í hug að feta þá braut í lífinu.

Lífið er samstarfsverkefni Guðs og manns. Guð kom inn í veröld mannsins og við komum inn í veröld Guðs á þann hátt sem við höfum vit og getu til. Þannig er lífið ekki bara á veraldlegum nótum heldur einnig andlegum. Það hefur nútímamaðurinn áttað sig á, því nú um stundir hefur aldrei verið meiri umræða um hinn andlega þátt lífsins eða meiri ásókn í það sem seður hina andlegu leit mannsins. Veröldin fullnægir ekki öllum þörfum mannsins, veraldlegir hlutir gera það ekki. Þá fyrst þegar hið veraldlega og andlega koma saman náum við að vera sæl og hamingjusöm. Andleg velferð hvers manns er köllun kirkjunnar í samfélaginu. Þessi köllun birtist m.a. í baráttu fyrir mannréttindunm, umhverfi og að leggja rækt við samband manns og Guðs. Lífið er nefnilega samstarfsverkefni Guðs og mannsins.
Ljós og myrkur. Yfir landið okkar hefur gengið á með hríðarbyljum nú á aðventunni. Við ráðum ekki veðri og vindum nema þá til langtíma sé litið. Nú er ekki lengur hægt að tala um mannaminni þegar um veðurfar og snjóalög er að ræða því hlýnun jarðar af mannavöldum hefur breytt veðurkerfum heimsins.
Þegar óveðrið gekk fyrir landið um daginn með tilheyrandi roki og snjókomu gerðist það sem oft gerist í slíkum veðrum að rafmagnið sló út. Hafandi búið vestur á fjörðum megnið af mínu lífi þá veit ég hvernig það er þegar rafmagnið slær út. Þess vegna eru þau sem búa við slíkar aðstæður með vasaljós eða kerti og eldfæri á vissum stöðum í húsum sínum til hægt sé að kveikja ljós í myrkrinu. Verra er þegar rafmagnið gefur líka hita í húsin. Þá verður kuldi, jafnvel nístandi kuldi ef rafmagnsleysið varir lengi. En það eru líka fleiri en mannfólkið sem fá að vita af vondum veðrum, snjókomu og hríð og það eru blessaðar skepnurnar sem enga björg sér geta veitt. Bændur norðan heiða hafa ekki verið öfundsverðir af því að bjarga þeim frá kulda og jafnvel dauða.

Sem betur fer búum við í landi þar sem samhjálp og samheldni ríkir. Það er í samræmi við þann boðskap sem hinn nýfæddi Jesús birti og boðaði í lífi sínu og starfi. Kærleiksboðskapur hans er ofar hefðum og reglum þegar fólk er hjálpar þurfi. Hann læknaði á hvíldardegi sem var bannað. Hann stóð með þeim sem samfélagið hafnaði. Hann vann gegn fordómum.

Hér á landi eru samtök eins og björgunarsveitir og hjálparsveitir sem skipaðar eru sjálfboðaliðum sem alltaf eru tilbúnir til aðstoðar. Þökk sé þeim sem taka þátt í því starfi og þökk sé vinnuveitendum þeirra fyrir að leyfa þeim að sinna sínum störfum á vinnutíma. En svo eru það líka þau sem vinna við að laga það sem aflaga fer og koma í veg fyrir að illa fari. Undanfarið höfum við fengið fregnir af þeim fjölmörgu starfsmönnum Rarik og Landsvirkjunar sem hafa unnið afrek við að hreinsa línur og koma rafmagni á. Það er ekki hættulaust starf eða einfalt þegar veður eru válynd og myrkur er og vindur blæs. Þökk sé þeim öllum fyrir vel unnin störf og vonandi hafa þeir fengið að vera heima í hlýjum og upplýstum húsum um jólin með fjölskyldum sínum.

Já, samfélag okkar er ríkt af góðu fólki og hjartahlýju. Það megum við þakka fyrir. Þó má alltaf betur gera. Hið veraldlega og hið andlega þarf að ganga í takt og hönd í hönd. Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman, sagði Jesús í eyðimörkinni og bætti við „heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“ Lífið er nefnilega samstarfsverkefni Guðs og mannsins.

Það er ekkert nýtt undir sólinni er stundum sagt. Þau vandamál sem heimsbyggðin glímir við núna eru flest þekkt, sennilega öll fyrir utan hlýnun jarðar sem fyrri kynslóðir þurftu ekki að glíma við. Sundurlyndi manna á milli og sundurþykkja ríkja í milli eru ekki ný af nálinni, en aðferðirnar og tækin sem við höfum til að bæta það sem bæta þarf eru samt fjölbreyttari en áður var.
Jólin boða von sem veitir okkur hugrekki til að bæta það sem bæta þarf. Gera heilt það sem brotið er. Færir okkur nýja fullvissu og sannfæringu. Þau flytja okkur nýjan fögnuð eins og hirðunum forðum og þrótt í daglegu lífi. Hann talar ekki eingöngu inn í líf okkar hvers og eins heldur hefur umbreytandi og bætandi áhrif á lífið allt, samfélag okkar, heiminn allan.

Boðskapurinn jólanna um frið á jörð, fögnuð í heiminum og hugrekki trúarinnar í daglegu lífi á að koma fram heima fyrir og í fjölskyldunni. Byrjar í hinu smáa, í umgengni við hvert annað, í lífi og leik, í samtali og umræðu dagsins.
Boðskapur jólanna birtist í hinu góða og fagra sem lífið hefur upp á að bjóða. Hann lætur okkur hugsa um náungann og samfélagið allt. Hvernig við, hvert og eitt okkar getum gert gott betra og vont gott. Sérhver maður sem trúir og treystir þeim Guði sem varð hold og bjó með okkur á að vera fremstur í flokki til að bæta heiminn. Heiminn sem er ekki aðeins hið veraldlega og áþreifanlega heldur einnig hið andlega og tilfinningalega.

Til þess kom Guð í heiminn til að minna okkur á mannúðina og mildina, mennskuna og kærleikann, réttlætið og samvinnuna. Þegar kirkjan ver mannréttindi og leggur fram mannúð, kærleika og mildi sem lausn er hún samverkamaður Guðs. Í gær, á aðfangadagskvöld, heyrðum við hælisleitendur flytja bænir í helgistund á jólanótt Ríkisútvarpsins. Sjálfsagt hefur það komið einhverjum á óvart. Vafalaust finnst öðrum það vera sérstakt að heyra bænir lesnar á erlendu tungumáli á helgasta tíma þjóðarinnar. En hlutverk kirkjunnar er að opna faðminn og þjóna öllum af kærleika, mannúð og mildi. Í kirkjunni erum við þau og þau eru við. Í kirkjunni höfum við ólík hlutverk og erum á mismunandi stöðum á lífsins leið. Í kirkjunni erum við eitt í kristi og í kirkjunni er lífið samstarfsverkefni Guðs og manns.
Jesús sagði sjálfur: „Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hústuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.“
Hirðarnir fóru frá völlunum við Betlehem til fundar við nýfædda barnið í jötunni og fundu það ásamt Maríu móður þess og Jósef. Þeir fóru og sáu og snéru síðan aftur og vegsömuðu Guð og „lofuðu hann fyrir það sem þeir höfðu heyrt og séð.“ Næsta víst er að atburðir næturinnar hafi haft áhrif á þá. Hann sem var ekki af þessum heimi er nú í þessum heimi. Guð er með okkur hér og nú og að eilífu. Hann sjálfur fæddist eins og við öll sem lítið barn. Við horfum í jötuna og augun mætast, hans og mín og hans og þín. Og við sjáum hann ekki aðeins með opnum augunum einum heldur opnu hjartanu. Þá kemur fram hjá okkur þakklætið, löngunin til að gleðja aðra og lofgjörðin eins og hjá hirðunum.

Eins og fæðing hans markaði upphaf nýrra tíma í sögu mannkyns mun fæðing hans í hjarta okkar hvers og eins marka upphaf nýrrar framtíðar fyrir okkur persónulega. Þannig mun samstarf Guðs og manns þroskast og vaxa við hvert skref, hverja raun og hvern lítinn sigur unninn.

Með þá bæn og von í hjarta óskum við hvert öðrum gleðilegra jóla, í Jesú nafni.

  • Biskup

  • Biskup

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls