Fólkið í kirkjunni: Hugleiðing um jól - Gróttuvitinn og Biblían
Almennur prestdómur er einkennandi fyrir evangelíska lútherska kirkju. Margar frábærar hugvekjur og velpældar predikanir eru fluttar og birtar í aðdraganda og yfir jólahátíðina af fólkinu í kirkjunni.
Eftirfarandi hugleiðing er ein af mörgum slíkum. Höfundur hennar er Ólafur Egilsson. Ólafur er gott dæmi um þann mannauð sem myndar kirkjuna og birtir upp hinn almenna prestdóm.
Hugleiðing um jól
Gróttuvitinn og Biblían
Eins og Gróttuvitinn vísar skipunum leið, er kristinn boðskapur ágætastur vegvísa fyrir okkur mannfólkið í daglega lífinu. Sá boðskapur hljómar á þessum árstíma hátt í kirkjum landsins og víða á heimilum. Hann er eins og allir vita að finna í Biblíunni. Margar kynslóðir, sem líklega voru öllu Biblíufróðari en mörg okkar nú á tímum, hafa nefnt Biblíuna, þegar spurt var hvaða bók þær myndu velja, ef þær mættu aðeins taka með sér eina til dvalar á eyðieyju.
Biblían hefur verið kölluð „bók bókanna“ og er líklegast til á flestum heimilum. En þar kemur hún að litlu gagni rykfallin í hillu - og þeim mun meira gagni sem hún verður snjáðari í höndum okkar. Fermingarbörn í Seltjarnarneskirkju hafa fengið Biblíu að gjöf frá söfnuðinum allmörg undanfarin ár. Hún kom fyrst út á íslensku árið 1584, fyrir framtak Guðbrands biskups Þorlákssonar á Hólum. Var tungumál okkar meðal þeirra 20 fyrstu í veröldinni sem Biblían var þýdd á. Það að hún skyldi koma út á íslensku þetta snemma er talin ein höfuðástæða þess hve íslensk tunga hefur varðveist vel. Nýjasta útgáfa Biblíunnar á íslensku, sú 11. Í röðinni, er frá árinu 2007. Hún er einkar vönduð og aðgengileg, með tilvísunum í lykiltexta, landakortum til útskýringar, o.m.fl.
Ekkert er betur viðeigandi á jólum en að verja stund til að lesa í Biblíunni og átta sig betur en áður á þeim vísdómi sem hún hefur að geyma. Kennsla í kristnum fræðum þótti lengi mikilvægur þáttur í hollu uppeldi barna og ungmenna, enda góð leiðsögn á fullorðinsárum, en hefur nú að mestu fallið niður í grunnskólanum. Þar hefur einnig a.m.k. í Reykjavík verið amast við því að skólabörn fái Nýja testamentið að gjöf eins og lengi tíðkaðist. Þannig eru m.a. dæmisögur Krists, sem hvetja til ærlegrar og kærleiksríkrar framkomu, mörgu ungu fólki lítt eða ekki kunnar. Ein hin þekktasta þeirra er um miskunnsama Samverjann sem kom til hjálpar ókunnum manni, illa leiknum af ræningjum, eftir að þeir sem telja mátti að fremur hefðu átt að liðsinna honum höfðu gengið framhjá hver af öðrum. Þegar vísað var til miskunnsama Samverjans á vinnustað hérlendis fyrir ekki ýkja löngu, hélt þar ungur maður að átt væri við starfsmann hjá fyrirtæki sem héti Samver!
Vanlíðan og vandamál ungs fólks hafa fremur vaxið en minnkað meðan þessi þróun hefur átt sér stað og ekkert bendir til að niðurfelling fræðslu um kristileg efni hafi verið í nokkru til heilla. Full ástæða er því til að íhuga vel hvort ekki sé rétt að snúa hér við blaði.
Íslensk og vestræn menning hefur í margar aldir verið mótuð af boðskap kristninnar. Því hefur verið bent á að án þekkingar á helsta efni Biblíunnar sé ekki hægt að bera fullt skyn á margt í lífi og sögu þjóðarinnar. Þó að Biblían sé fyrst og síðast helgirit kristins fólks er þannig algengt að þeir sem hafa talið sig trúlausa hafi engu að síður lagt kapp á að vera vel að sér um efni hennar. Þeir hafa m.a. gert sér grein fyrir hve ótalmargt hollt og nýtilegt má af henni læra – og með því leggja grunn að farsælu lífi.
Nýjasta Biblíuútgáfan er sem fyrr segir afar aðgengileg, m.a. er þar að finna ábendingar um mikilvæga ritningarstaði. Biblían er ekki ein þeirra bóka sem lesa þarf frá upphafi til enda til að njóta hennar. Oft nægir að fletta upp í henni af handahófi til að rekast fljótt á texta sem verðugur er umhugsunar og snerta kann þær aðstæður sem lesandinn finnur sig í. En meðal texta sem sérstaklega er bent á má nefna Jólaguðspjallið, Fjallræðuna, frásögurnar af miskunnsama Samverjanum og Glataða syninum, Óðinn til kærleikans o.m.fl. Orðskviðirnir eru safn hollráða sem ómetanlegt er að kynna sér. Eða hver kann ekki að meta speki eins og þessa: „Málæðinu fylgja yfirsjónir en sá breytir hyggilega sem hefur taumhald á tungu sinni.“ Eða: „Sá sem elskar aga elskar þekkingu en sá sem hatar umvöndun er heimskur.“
Allt eru þetta textar sem vert er að taka sér stundarkorn til að lesa og hugleiða í kyrrð jólanna.
Loks skal rifjað upp fyrir þá sem nú ætla að taka sér Biblíuna í hönd, að mætur Seltirningur, Björn heitinn Jónsson, sem árum saman var virtur skólastjóri Hagaskóla, vék að því eitt sinn í ræðu í Seltjarnarneskirkju í hvílíku uppáhaldi 23. Davíðssálmur hefði verið hjá sér. Þar er texti sem hann og margir aðrir hafa talið þess virði að læra utanað -- og er kjörinn til hughreystingar þegar á móti blæs.
Gleðileg jól – og farsæla framtíð! Njótið lestursins!
Ólafur Egilsson
sóknarnefndarmaður í Seltjarnarnessöfnuði og
fv. stjórnarmaður í Hinu íslenska biblíufélagi