Skagfirsk kirkjumenning
Kirkjukórar landsins eru öflugur vitnisburður um menningarstarf sem fer fram í kirkjum landsins. Sumir þeirra halda til útlanda og þenja raddböndin. Skiptir ekki máli hvort kórinn er úr bæ eða sveit. Hver kór ber með sér menningu síns heimahéraðs og flytur hana með stolt í brjósti.
Fyrir nokkru fór kór Glaumbæjarprestakalls sem skipaður er fólki úr Víðimýrar,- Reynistaðar,- og Glaumbæjarsóknum, til Edinborgar. Stjórnandi kórsins er Stefán R. Gíslason. Kórinn hefur áður farið til útlanda, síðast árið 2012 til Kanada. Allar hafa ferðirnar tekist vel og þjappað fólki saman. Fólk er á öllum aldri í kórnum og sá elsti er Sigurður Haraldsson á Grófargili og hefur hann sungið í 67 ár í kórnum og lætur engan bilbug á sér finna. Í þetta sinn fóru hátt í fimmtíu manns, kórfélagar og makar, í ferðina.
Sóknarpresturinn, sr. Gísli Gunnarsson, var á sínum tíma við nám í Edinborg, og var því sjálfskipaður fararstjóri ásamt Evelyn Ýr Kuhne á Lýtingsstöðum.
Kórinn söng við guðsþjónustu í St. Cuthberts-kirkjunni í Edinborg. Messuskráin var óvenju vönduð í tilefni heimsóknar Skagfirðinganna. Eitt vakti þó töluverða spennu í hópnum og það var að í messuskránni stóð að sr. Gísli ætti að stjórna kórnum. Einhver hafði á orði að það væri óvænt „áhættuatriði“ á ferð. En í ljós kom að um misritun var að ræða. Engar spurnir hafa borist af því hver var fegnastur.
Á ferðum sem þessum kynnist kirkjufólk öðru fólki sem starfar fyrir kirkju sína og söfnuði. Það eru góð kynni og margt skrafað því kirkjustarf og aðstæður allar eru ekki svo ólíkar frá einu landi til annars. En sumt er öðruvísi og af því er hægt að læra – og annað er með öðrum hætti en ytra og það er hægt að kenna.
Menningarstarf kirkjukóra fyrir kirkju og heimabyggð verður seint fullþakkað. Þeim fylgir mikil gleði og bjartsýni líðandi stundar – og vinna, ánægjuleg vinna að áliti allra. Það er líka mikil vinna sem bætist iðulega við langan vinnudag hjá mörgum. En söngurinn veitir andlega næringu og kraft. Þess vegna laða kórarnir marga til sín – þeir veita líka ákveðna hvíld frá erli hversdagsins og bráðholla andlega uppbyggingu.
Kórferðalög til útlanda víkka sjóndeildarhringinn og efla samfélag söngsins. Fólk kynnist enn betur en ella og nýtur þess að syngja í fallegum kirkjum, gömlum og nýjum. Söngurinn hljómar alls staðar vel hvort heldur í gamalli torfkirkju eða innan um háar kirkjusúlur og hvelfingar. Það er nefnilega sálin í söngnum sem mestu máli skiptir. Og það fann kór Glaumbæjarprestakalls á ferðalaginu til Skotlands.
Kirkjan. is þakkar Gunnari Rögnvaldssyni, staðarhaldara á Löngumýri, kærlega fyrir upplýsingar um söngferðalagið.
hsh
Klerkar: Sr. Charles Robertson og sr. Gísli Gunnarsson
Organistar og söngstjórar: Stefán R. Gíslason og Graham Maclagan