Stutta viðtalið: Hin iðna hönd
Kirkjur geyma margt fagurt sem gleður augað og menntar – og segir sögu. Og sumt dregur augað meira til sín en annað.
Er það altaristaflan? Skírnarsárinn eða númerataflan? Eða hvað?
Altarisdúkar láta ekki mikið yfir sér. Látlausir hvíla þeir á altarinu og blasa við öllum, mjallhvítir og hreinir. Þeir eru sjálfsagðir í flestum kirkjum og einkum hinum eldri þar sem þeir ýmist falla að brún eða yfir.
Þessir dúkar eru margir listaverk og gamlir. Þeir geyma mörg spor og sum þeirra eiga ættir að rekja til gamalla handverksaðferða.
Jenný Karlsdóttir heitir kona nokkur, innfæddur Akureyringur, sem lagði sig fram um að kanna handgerða íslenska altarisdúka, munstur þeirra og gerð. Hún er kennari og hannyrðakona; er með heimasíðuna munstur.is
Kirkjan.is ræddi við hana um þetta hugðarefni hennar sem er mikill menningararfur og kirkjur geyma.
„Ég er alin upp af handverksfólki og við mikinn áhuga á öllu er sneri að handverki,“ segir Jenný, „og fékk snemma mikinn áhuga á munstrum og þegar ég var við nám í Noregi sá ég marga altarisdúka í kirkjum þar og mér fannst ég kannast við mynstur þeirra.“ Hún segir að þá hafi vaknað áhugi hjá henni á íslenskum altarisdúkum og fékk hún til liðs við sig Oddnýju E. Magnúsdóttur, handmenntakennara og þjóðfræðing, á Húsavík. Samstarf þeirra hafi verið frábært. Oddný hafi séð að mestu um skráningu á dúkunum. Jenný segist hafa ljósmyndað dúkana – en saman hafi þær unnið sem ein manneskja. Þær stöllur fóru í kirkjur víða og ljósmynduðu dúkana, skoðuðu þá nákvæmlega og skráðu sögu þeirra eftir því sem þær gátu. Heimafólk var mjög fúst að aðstoða þær eftir því sem tök voru á.
„Við höfum farið um allt land svo að segja,“ segir Jenný, „eigum eftir suðvesturhornið, Snæfellsnes, Breiðafjörð og Vestfirðina.“ Það bíður síns tíma.
Hún segir að þær Oddný hafi tekið fyrir afmörkuð svæði, eftir gömlu prófastsdæmunum, og luku yfirferð sinni um hvert þeirra með sýningu sem var til fróðleiks og einnig þakklætisvottur fyrir stuðning sem heimamenn höfðu hverju sinni sýnt þeim.
„Við sýndum myndir, stundum dúka og líka gamla dúka – svo fór að sumir höfnuðu á söfnum,“ segir Jenný. Þær höfðu til dæmis sýningu á Akureyri og Húsavík – og víðar. „Já, og í Húsinu á Eyrarbakka eftir að hafa skoðað dúka og myndað í hinu gamla Árnesprófastsdæmi – þar voru gamlir dúkar sýndir og þeir fóru til varðveislu í Byggðasafn þeirra Árnesinga“.
„Okkur finnst við vera að bjarga sögu menningarverðmæta því að þetta eru kirkjumunir sem ganga úr sér,“ segir Jenný. Óvinur þeirra er náttúrlega tímans tönn, já og mýs hafi nartað í suma og aðrir farið illa í þvottum.
„Elsti dúkurinn sem hefur orðið á vegi ykkar?“ spyr kirkjan.is.
„Við sáum skemmtilegan dúk austur á Berunesi í fyrra,“ segir Jenný, „hann er með þessum gamla feneyjarsaumi og er hundrað ára gamall, enn í notkun.“ Og Jenný bætir við ákveðin og full af umhyggju fyrir menningarverðmætunum sem í honum felast: „Ég mundi ekki treysta honum í þvott.“
Jenný segir að það séu tvær aðferðir algengastir núna við gerð altarisdúka. Það sé hekl og harðangurs- og klaustursaumur.
Sumar kirkjur eiga líka handofna altarisdúka, kniplaða og með öðrum útsaumsgerðum. Saga munstranna var líka könnuð og sum þeirra mátti rekja til munsturblaða og bóka, íslenskra sem útlendra. Það kom og líka fyrir að nýr altarisdúkur var gerður nákvæmlega eftir hinum gamla og lúna dúk.
„Á flestum dúkanna eru trúarleg tákn, til dæmis kross, kaleikur, vínber, guðslambið,“ segir Jenný. „Sumir eru þó sléttir og óskreyttir.“ Hún segir gerð dúkanna oft mismunandi eftir prófastsdæmum og landshlutum. Í Þingeyjarsýslu er til dæmis mjög algengt heklað munstur, en það finnst hvergi í Eyjafirði eða í Skagafirði. „Fundum þá gerð reyndar í einum aflögðum dúk í Húnavatnssýslu,“ segir Jenný. „Hins vegar er það mjög algengt munstur á Suðurlandi.“ Hún segir að skýringin geti auðvitað verið sú að munstur berist frá manni til manns í næsta nágrenni. „Svo rákumst við á skemmtilegt munstur á dúk úr Svarfaðardal sem hafði sennilega bara borist yfir Heljardalsheiði í Skagafjörð,“ segir Jenný.
Næmt auga þeirra sem sinna kirkjum segir til um hvort komið sé að endurnýjun altarisdúks og þá er ráðist í verkið. Þá eru altarisdúkar stundum gefnir kirkjum til minningar um fólk. Nýlega fékk Grundarkirkja í Eyjafirði altarisdúk sem minningargjöf og það var Jenný sem hannaði þann dúk.
Jenný segir að það séu fyrst og fremst konur sem saumi dúkana. Það heyri til undantekninga ef karlmaður sinni þessu verki.
En það er ekki alltaf bara ein kona sem situr við saumana – eins og segir í ljóðinu: „Ein ég sit og sauma inni í litlu húsi...“ heldur eru dæmi um að margar konur hafi komið að saumaskap á einum dúki. Kannski nokkrir ættliðir kvenna. Jafnvel að heilt kvenfélag hafi komið að því að sauma einn altarisdúk og þá gengur dúkurinn á milli bæja. Altarisdúkurinn í Snartarstaðakirkju varð einmitt til með þeim hætti að kvenfélag nokkurt í Norður-Þingeyjarsýslu saumaði hann.
„Við höfum haft virkilega gaman af að vinna að þessu verkefni,“ segir Jenný létt í skapi.
Hún segir að þær hafi í upphafi verið styrktar til þessa verkefnis af Kristnihátíðarsjóði, síðar ýmsum fleiri styrktarsjóðum og af kirkjunni á síðasta ári – og eru þakklátar fyrir það.
Þetta verkefni þeirra Jennýjar og Oddnýjar er gott dæmi um menningarstarf sem konur láta sig varða, kemur sögu lands og kirkju að góðum notum. Það hefur ekki farið hátt frekar en öll þau saumspor sem liggja í altarisdúkum í kirkjum á Íslandi. Svo sannarlega á hin iðna hönd þakkir skyldar fyrir framlag sitt til að prýða kirkjurnar.
hsh
Altarisdúkur í Kotstrandarkirkju í Ölfusi