Biskup í Borgarnesi og á Mýrum

1. febrúar 2020

Biskup í Borgarnesi og á Mýrum

Kirkjur varðveita marga menningarsögulega gripi. Sr. Þorbjörn Hlynur Árnason, prófastur á Borg, heldur hér á kaleik og patínu Álftártungukirkju, smíðuð í Lundúnum 1527-1528 (eða 1528-1529). Biskup Íslands fylgist vel með.

Vísitasía biskups Íslands, sr. Agnesar M. Sigurðardóttur, í Borgarprestakalli, hófst síðastliðinn fimmtudag. Fjölmenn guðsþjónusta fór fram í Borgarneskirkju þar sem biskupinn prédikaði og sr. Þorbjörn Hlynur Árnason, prófastur, þjónaði fyrir altari. Fermingarbörn lásu trúarjátningu, sem þau höfðu útbúið undir leiðsögn Heiðrúnar Helgu Bjarnadóttur Bach, meðhjálpara og kirkjuvarðar. Kór Borgarneskirkju söng undir stjórn Steinunnar Árnadóttur, organista.

Að lokinni guðsþjónustu kynnti Sigursteinn Sigurðsson, arkitekt, biskupi fróðlega byggingarsögu Borgarneskirkju.

Borgarneskirkja var vígð vorið 1959 og skoðaði biskup kirkjuna. Henni er vel við haldið og hún er í góðu ásigkomulagi.

Sr. Agnes M. Sigurðardóttir hélt vísitasíu sinni í Borgarprestakalli áfram í gær.

Akrakirkja á Mýrum var skoðuð og haldinn var fundur með sóknarnefnd í kirkjunni en fulltrúar hennar voru þau Helgi Guðmundsson, Guðmundur Þorgilsson, Ólöf Anna Guðbrandsdóttir og Ólöf Sig. Davíðsdóttir.

Akrakirkja var byggð 1899-1900 og er úr timbri. Frá þeim tíma hefur hún verið mjög endurbætt og prýdd. Hún er mjög björt hið innra, með gotneskum bogum og krosshvelfingu yfir altari. Biskup fór yfir munaskrá og kirkjulýsingu sem hefur ekkert breyst frá því í síðustu vísitasíu biskups Íslands en hún fór fram árið 2002.

Sr. Þorbjörn Hlynur Árnason, prófastur á Borg, greindi frá þeim endurbótum sem farið hafa fram á kirkjunni og reifaði sögu sóknarmarka og breytingar á þeim á umliðnum árum.

Sérstaklega var skoðað skírnarfat úr tini frá miðri 18. öld sem búið var að gera við. Á botni skírnarfatsins er grafin mynd af skírn Jesú.

Tvær messur á ári eru hafðar um hönd í Akrakirkju.

Það var mat biskups og nærstaddra að ásigkomulag Akrakirkju væri gott. Þó þarf eins og gefur að skilja með timburhús að huga að ýmsu og endurbæta eins og glugga og þak. Kirkjan snýr enda með kór í vestur og framstafn til austurs til að verjast vestanáttinni sem getur verið þar hörð.

Akrakirkjugarður er vel hirtur.

Biskup leiddi í lokin bænastund í Akrakirkju.

Sambærilegar stundir voru svo í Álftártungukirkju og Álftaneskirkju.

Álftártungukirkja var skoðuð eftir hádegi. Fulltrúar sóknarnefndar voru þau Ásgerður Pálsdóttir og Einar Ole Pedersen.

Álftártungukirkja var smíðuð 1873. Á níunda áratug síðustu aldar fór fram vönduð viðgerð á kirkjunni.

Kirkjan á dýrmætan kaleik og patínu úr silfri, smíðuð í Lundúnum 1527-1528 (eða 1528-1529).

Síðdegis var svo haldið að Álftaneskirkju. Þar voru fulltrúar sóknarnefndar þau Þórdís Á. Arnfinnsdóttir, Ásta Skúladóttir og Nellý Pétursdóttir.

Álftaneskirkja var reist árið 1904 og hefur henni verið lítið breytt. Hún er glæsilegt kirkjuhús sem hefur verið vel við haldið.

Biskup vísiterar svo Garða- og Saurbæjarprestakalli á sunnudag og mánudag; 2. og 3. febrúar. 

hsh

Myndir með frétt tók sr. Þorvaldur Víðisson

Biskup Íslands prédikaði að kvöldi dags í Borgarneskirkju 

Sóknarnefnd Akrakirkju ásamt prófasti og biskupi Íslands

Álftaneskirkja á Mýrum - reist 1904

Í Álftártungukirkju - biskup Íslands og prófastur með fulltrúum sóknarnefndar, þeim Ásgerði Pálsdóttur og Einari Ole Pedersen


  • Biskup

  • Frétt

  • Heimsókn

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Biskup

  • Menning

  • Samfélag

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls