Góð og merkileg gjöf
Gagnasafnið missir.is var afhent í dag Fræðsludeild Biskupsstofu og það gerði núverandi stjórn safnsins. Tók sr. Sigfús Kristjánsson, sviðsstjóri fræðslusviðs, við safninu. Hann þakkaði kærlega fyrir hina höfðinglegu gjöf og sagði að hún yrði vel varðveitt og kæmi örugglega að drjúgum notum.
Árið 2002 var gagnasafnið missir.is stofnað. Stofnendur voru nokkrir bókasafnsfræðingar, tveir sjúkrahúsprestar og læknir.
Tilgangur með stofnun gagnasafnsins var sá að safna upplýsingum og greiða götu fólks að útgefnu efni um erfiða lífsreynslu og ástvinamissi.
Áherslan var í byrjun lögð á rit um sorg og úrvinnslu hennar en síðar var sviðið stækkað og augum beint að hvers kyns erfiðri lífsreynslu.
Stjórnarkonur í missi.is sem komu færandi hendi á Biskupsstofu í dag, voru þær Kristín H. Pétursdóttir, bókasafnsfræðingur, Ragnhildur Bragadóttir, fyrrum skjalastjóri Biskupsstofu, og Sigurbjörg Björnsdóttir, bókasafnsfræðingur. Gígja Árnadóttir, skjalavörður Biskupsstofu, var viðstödd afhendinguna.
Forsvarsfólk gagnasafnsins er ákaflega ánægt með að safnið skuli vera komið í góðar hendur. Safnið var afhent án allra skilyrða.
Hér má sjá hinn stórmerkilega vef gagnasafnsins.
hsh