Áfram farið um Snæfellsnes
Í gær hélt visitasíu biskups Íslands, sr. Agnesar M. Sigurðardóttur, áfram um Vesturlandsprófastsdæmi. Í för með biskupi var sr. Þorbjörn Hlynur Árnason, prófastur á Borg, og sr. Þorvaldur Víðisson, biskupsritari.
Fjórar kirkjur í Staðastaðarprestakalli voru sóttar heim. Sóknarpresturinn sr. Arnaldur Máni Finnsson tók á móti biskupi, prófasti og biskupsritara, ásamt sóknarnefndarfólki á hverjum stað.
Staðarhraunskirkja í Hítardal eða Staður undir Hrauni, var fyrst vísiteruð. Þar hefur kirkja staðið frá því fyrir 1200. Kirkjuhaldarar þar eru hjónin Guðbrandur Guðbrandsson, bóndi, og kona hans Jóna Jónsdóttir, bóndi. Þau funduðu með biskupi, föruneyti hans og sóknarpresti.
Staðarhraunskirkja var byggð úr timbri í lok 19du aldar. Árið 1954 var steypt utan um hana. Kirkjan á margt fagurra og fornra gripa, kertahjálm frá byrjun sautjándu aldar, kertastjaka tvo frá því um 1300 og tvær klukkur. Á aðra klukkuna, þá minni, er letrað nafn hins merka sr. Jóns Halldórssonar, prófasts og sagnaritara í Hítardal (1665-1736), en hann lagði hana til kirkjunnar. Altaristafla kirkjunnar er eftir Barböru Árnason (1911-1975), og kom í kirkjuna 1957, hún sýnir Jesú blessa börnin.
Þrjár kirkjur eru í Fáskrúðarbakkasókn, Rauðamelskirkja, Miklaholtskirkja og Fáskrúðarbakkakirkja. Áður átti Rauðamelssókn kirkjusókn að Rauðamelskirkju. Kirkjurnar þrjár voru skoðaðar. Sóknarnefndarfólk úr Fáskrúðarbakkasókn, þær Gyða Valgeirsdóttir, bóndi í Miklaholti, og Halla Guðmundsdóttir, kennari og sóknarnefndarkona í Dalsmynni, áttu fund með biskupi, prófasti, biskupsritara og sóknarpresti.
Rauðamelskirkja var byggð árið 1886 og stendur á Ytri-Rauðamel. Altaristafla hennar er dönsk, kvöldmáltíðarmynd frá 18. öld.
Fáskrúðarbakkakirkja var vígð 1936. Ekki voru allir sáttir þegar ákveðið var að reisa nýja sóknarkirkju á öðrum stað en í Miklaholti en mörgum fannst torfarið þangað. Tíu árum eftir vígslu hinnar nýju kirkju var ný kirkja vígð í Miklaholti en þar hefur staðið kirkja frá því um 1200. Kirkjuna teiknaði Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins.
Í Miklaholtskirkju er glæsileg altaristafla eftir Kurt Zier. Skírnarfonturinn er eftir Ragnar Kjartansson.
Fáskrúðarbakkakirkju prýða steindir gluggar eftir Benedikt Gunnarsson, listamann.
Guðsþjónusta var í Fáskrúðarbakkakirkju í gærkvöldi þar sem séra Arnaldur Máni Finnsson, sóknarprestur þjónaði fyrir altari, sameiginlegur kór prestakallsins söng. Biskup Íslands prédikaði og lýsti blessun í lok stundarinnar.
Vísitasíu biskups í Staðastaðarprestakall lýkur í dag með kirkjuskoðun og fundum með fulltrúum sóknarnefnda Búðakirkju, Hellnakirkju, Staðastaðarkirkju og Kolbeinsstaðakirkju.
ÞV/hsh
Þorvaldur Víðisson tók myndirnar
Í Staðarhraunskirkju, frá vinstri: sr. Arnaldur Máni, sr. Agnes, Guðbrandur
Guðbrandsson, bóndi og kirkjuhaldari, sr. Þorbjörn Hlynur
Í Staðarhraunskirkju, forn kertastjaki nær og fjær, og altaristafla Barböru
Í Miklaholtskirkju, frá vinstri: sr. Arnaldur Máni, sr. Agnes, Gyða Valgeirsdóttir,
kirkjubóndi, sr. Þorbjörn Hlynur, og Halla Guðmundsdóttir, sóknarnefndarkona
Í
Í Fáskrúðarbakkakirkju var sungið af krafti
Í Fáskrúðarbakkakirkju, sr. Agnes og sr. Arnaldur Máni