Nýr prestur á Selfoss
Umsóknarfrestur um starf prests í Selfossprestakalli, Suðurprófastsdæmi rann út á miðnætti þann 6. febrúar. Alls sóttu sex um starfið.
Kjörnefnd kaus sr. Gunnar Jóhannesson til starfans og hefur biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, staðfest ráðningu hans.
Í samræmi við þær breytingar sem nú hafa orðið á starfsmannamálum þjóðkirkjunnar er sr. Gunnar ráðinn ótímabundið í starfið með hefðbundnum uppsagnarfresti.
Miðað er við að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst, eða í síðasta lagi þremur mánuðum eftir að niðurstaða um ráðningu liggur fyrir.
Í Selfossprestakalli, eru fjórar sóknir, hver með sína sóknarkirkju, þ.e. Selfosssókn, Laugardælasókn, Hraungerðissókn og Villingaholtssókn. Selfossprestakall tilheyrir tveimur sveitafélögum, Árborg og Flóahreppi, með tæplega 10.800 íbúa, þar af 9.246 sóknarbörn. Í prestakallinu starfa sóknarprestur og prestur, auk þess sem héraðsprestur hefur starfað við prestakallið. Sóknarprestur og prestur skulu, undir forystu prófasts, skipta formlega með sér verkum.
hsh
Sr. Gunnar Jóhannesson