Ný dönsk Biblíuþýðing

21. mars 2020

Ný dönsk Biblíuþýðing

Nýja danska Biblían hæfir nútímanum vel

Í dag kom út ný þýðing á dönsku Biblíunni en hún hefur verið í undirbúningi í mörg ár. Það eru alltaf tímamót þegar slíkt gerist. Biblían er bók sem þarf að þýða aftur og aftur enda breytast tungumál og málskilningur þróast.

Biblían 2020 er þýdd af sérfræðingum í grísku og hebresku, lesin yfir af þeim er þekkja best til danskrar tungu. Nýja testamentið kom út 2007 og er í þessari útgáfu endurskoðað.

Þýðingarvinnan við Gamla testamentið hefur staðið yfir frá því 2013.

Eitt er nokkuð víst að fólk er ekki sátt við allar breytingar sem skjóta upp kolli í nýjum þýðingum. Oft er deilt hart um breytingar. 

En í Biblíu 2020 var sérstaklega hugað að Gamla testamentinu. Og það er einmitt eitt versið þar sem hefur orðið tilefni til umræðna sem eru yfirvegaðar og vinsamlegar.

Og hvað skyldi það vera?

Þau segja að sköpunarfrásögn Gamla testamentisins sé orðin loftslagsvænni eða umhverfisvænni. Ættu ekki allir að klappa fyrir því eða hvað?

Við þekkjum versið, 1. Mósebók 1. 28:

Textinn: Guð blessaði þau. Og Guð sagði við þau: „Verið frjósöm, fjölgið ykkur og fyllið jörðina, gerið ykkur hana undirgefna og ríkið yfir fiskum sjávarins og fuglum himinsins og öllum dýrum sem hrærast á jörðinni.“

Það er þetta að ríkja yfir, í dönsku þýðingunni var það hersk over havets fisk. Nú hafa þeir tekið djarfa ákvörðun og breytt textanum í loftslagsvæna/umhverfisvæna átt  – , svona:

Umhverfisvænn texti?: Få børn, og bliv så mange, så I kan fylde hele jorden og tage ansvar for fiskene i havet, fuglene i luften og alle dyren på jorden.

Sumsé: tage ansvar for, bera ábyrgð á. Vissulega mýkra undir tönn en að herske over eða: ríkja yfir. Mönnum hefur þótt engin ábyrgð fylgja því að ríkja yfir - þar hafi aðeins verið hugsað um eigin hag á líðandi stundu.

Carsten Vang sem er lektor í gamlatestamentisfræðum við Menighedsfakultetet segir að hann hefði haldið fast við orðið herske (ríkja) „því að það er nú það sem textinn segir.“ Vissulega sé orðalagið að tage ansvar (bera ábyrgð á) sannarlega jákvætt en það merki ekkert í sjálfu sér. Það sé bara orðalag sem menn hafi kosið í stað herske (ríkja) sem hafi neikvætt yfirbragð. Hann bendir svo á að munur sé á orðinu herske (ríkja) þegar það vísi annars vegar til einræðis og svo hins vegar þegar það vísi til lýðræðislegra yfirvalda eins og á Norðurlöndum. Merking orðanna sé sú að menn eigi að ríkja yfir dýrum og náttúrunni með svipuðum hætti og Guð sem ríkir yfir öllu – en með kærleika.

Það er Sören Holst sem ber ábyrgð á þessu orðalagi en hann er lektor í gamlatestamentisfræðum við Kaupmannahafnarháskóla. Hann segir að það hafi aldrei verið ætlunin að gera þýðinguna eitthvað umhverfis- eða loftslagsvænni.

„Ef einhver heldur að við höfum sest niður til að fella Gamla testamentið í form hins pólitíska rétttrúnaðar þá ætti sá hinn sami að lesa áfram. Nokkrum blaðsíðum síðar segir að menn eigi að herske over (ríkja yfir/drottna yfir) konum. Við höfum verið mjög svo meðvituð um að láta ekki stjórnmál líðandi stundar trufla okkur í þýðingarvinnunni,“ segir hann og bætir við að með þýðingunni sé reynt að komast sem næst upphaflegri merkingu textans. Hann segir að í mörgum þýðingum sé vissulega notað orðið ríkja yfir. Í einni enskri segir „rule over“ og í þýskri segir: „herrschen“. Í norsku þýðingunni, hinni lögbundnu, segir hins vegar „råde“ en ekki herske - norska þýðingin er að hans áliti nær hinni upprunalegu merkingu.

Sören rökstyður mál sitt frekar. „Á hebresku eru ýmis orð þýdd í Biblíunni með herske. Það orð hefur verið skilið með þeim hætti að um sé að rækja drottnandi/ríkjandi framferði þar sem kúgun kemur við sögu. En nýjustu rannsóknir benda til þess að þessi skilningur sé ekki réttur. Hebreska orðið sem hefur verið þýtt sem herske er líka notað um starf hirðisins og í því er einnig fólgin umhyggja og ábyrgð í stað kúgunar. Þess vegna taldi ég að bera ábyrgð á væri nákvæmari þýðing,“ segir Sören.

Svo mörg voru þau orð.

Í dönsku Biblíunni 2020 er ekki lengur að finna í ávörpum Páls postula: Kæru bræður! Annað orðalag er komið til sögunnar: Kæru vinir!

Og orðinu mand verður breytt í menneske þegar talið er að það eigi við karla og konur. Á þetta einkum við Davíðssálma og Orðskviðina. Orðið mand (maður) nær eins og á íslensku til beggja kynja, karls og konu. En það hefur breyst og hefur hinn karlægi þáttur þess orðið nær ráðandi. Þess vegna er gripið til annars orðs sem talið er ná til beggja kynja, menneske (manneskja). Eins var horfið frá því að nota tilvísunarorð á borð við viðkomandi eða hlutaðeigandi – það væri of mikið „kancellisprog“ - kansellístíll. Notast var þess í stað við orðið manneskja/menneske og fleirtölumyndir.

Margir danskir prestar hafa fyrir löngu breytt ávarpi postulans úr bræðrum í bræður og systur – enda hafi örugglega bæði kynin verið viðstödd þegar hann ávarpaði fólkið.

Biblían 2020 er ekki kirkjubiblía eins og sagt er – það er að segja ekki viðurkennd af kirkjustjórninni til nota í messuhaldi safnaðanna – þar sem kirkjulegt málfar ræður ríkjum - en vitaskuld að öðru leyti viðurkennd.

Í þýðingunni er reynt að grafast fyrir um grunnmerkingu hins hebreska texta og henni komið til skila í orðum og orðasamböndum sem teljast til venjulegs máls sem fólk almennt skilur. Þá var og reynt í þýðingunum að ná til þeirrar fornu hebresku hefðar í framsetningu textans sem felst í upplestri á texta og munnlegri geymd hans, maður sagði manni o.s.frv.

Þess má geta í lokin að danska biblíufélagið kallaði til fimm hundruð sjálfboðaliða til að lesa nýju þýðinguna á texta Gamla testamentisins. Fólkinu var skipt í sextíu leshópa og lesarar voru frá 13 ára aldri og upp í 85 ára. Á sama hátt og sérfræðingar sem þýddu bæði Nýja og Gamla testamentið höfðu sjálfboðaliðarnir þessa punkta í huga:

Punktar Textinn sé skiljanlegur án skýringa. Eðlilegt mál sé á textanum. Málfar sé fallegt, gjarnan ljóðrænt, en ekki „gamaldags“. Málfar sé fjölbreytilegt – borin sé virðing fyrir ýmsum formum textans.

Segja má að þessi nálgun sé mjög svo í anda Marteins Lúthers. Hann taldi að málfar Biblíunnar ætti að endurspegla hversdagsmálfar fólks úr dagsins iðju, hvort heldur úr eldhússtörfum eða torglífinu. Enda renndi hann stoðum undir klassískt þýskt ritmál með Biblíuþýðingu sinni svo að meira að segja sjálfur Nietzsche kallaði hana meistaraverk.

Nýja danska Biblían er mjög nútímaleg í umbroti, hún er ekki innbundin heldur er hún væn kilja með þykkum innspjöldum, og fer vel í hendi. Textinn er í einum spalta en ekki tveimur. Þá hafa allar 66 bækur Biblíunnar (hin svokölluðu apókrýfu rit eða huldubækur eru ekki með) fengið ný nöfn. Þannig hefur 1. Mósebók fengið nafnið: Upphafið – og Prédikarinn: Hugsuðurinn. Lúkasarguðspjall ber heitið: Fátækir fá góðar fréttir. (En hin hefðbundnu heiti ritanna fylgja auðvitað með). Hverju riti eru gerð skil með stuttum inngangi.

Nýja danska Biblían kemur samtímis út sem hljóðbók og sem rafbók

hsh/Kristeligt Dagblad

Danska biblíufélagið

Biblía 2020

Hið íslenska biblíufélag

Markúsarguðspjall fær heitið: Leyndardómurinn um son Guðs

Gamla testamentið - efnisyfirlit

Gamla testamentið og Nýja testamentið - efnisyfirlit - ný heiti ritanna og þau sígildu eru fyrir aftan
  • Frétt

  • Guðfræði

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Viðburður

  • Menning

  • Samfélag

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls