Hollráð fyrir fólkið heima

7. apríl 2020

Hollráð fyrir fólkið heima

Skór tala sínu máli á stóru heimili

Kirkjan.is leitaði til Fjölskylduþjónustu kirkjunnar og spurði hvort þau ættu einhver góð ráð í pokahorninu á þessum óvenjuleg tímum, ráð sem gætu nýst fólki í hinum breyttu önnum þess og erli. Ráð sem stutt geta fólk og verið leiðsögn á þeim tíma þegar samskipti heima fyrir eru óvenju mikil – og þar sem heimilið er orðinn enn fastari punktur en nokkru sinni áður – dýrmætur staður og öruggur sem við eigum. Staður sem við erum þakklát fyrir að eiga því að við vitum að þegar öllu er á botninn hvolft þá er hægt að taka undir þetta kjörorð: Heima er best

Ekki stóð á svari hjá Fjölskylduþjónustu kirkjunnar. Það var hin reynslumikla Elísabet Berta Bjarnadóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi, sáttamiðlari og handleiðari, sem svaraði fyrir þeirra hönd með þessum hætti sem hér má lesa:

             Tuttugu hollráð og hughreystingar til fjölskyldna á hættulegum tímum

1. VIÐ ræðum við okkar innri kjark og tölum hann til. Segjum: „Litli karl“, eða „Litla kerling“, við erum nógu seig til að stjórna þessu heimilishaldi með sóma miklu lengur.
2. Rifjum upp ýmislegt sem hefur heppnast hjá okkur hingað til. Þótt við séum ef til vill bara ein fullorðin manneskja á heimilinu, minnum við okkur á, að við séum nóg fyrir okkur sjálf og barnið eða börnin.
3. Við leitumst við að halda okkur dálítið fast í venjurnar á heimilinu. Fara á fætur, þrífa sig klæða sig í fötin og borða morgunmat. Sjáum fyrir okkur hvernig við mótum daginn fyrir okkur sjálf og fyrir börnin.
4. Hvað þarf hver og einn á heimilinu að gera í dag og hvað gæti verið gaman að gera svo saman eða hver fyrir sig eftir þörfum? Stundum er alveg út í hött að reyna að láta alla gera eitthvað saman í fjölskyldum, því áhugamálin eru svo ólík, þarfirnar og aldurinn.
5. Hvernig náum við okkur í pínulítinn nýjan styrk á hverjum degi?
6. Hvað segjum við börnunum? Segja eins og er að þetta séu óvenjulegir tímar, þessi Covid veira sé ólíkindatöl, sem við verðum að bregðast skipulega við og þurfum að yfirfara allt sem við vitum um hreinlæti og vanda okkur við það. Að við öll í sameiningu þurfum að finna upp á hinu og þessu sniðugu saman, standa saman og veiran sé hræddari við börn en fullorðna.
7. Spyrjum börnin hvað þeim detti í hug að við gerum saman skemmtilegt. Ef þau þykjast ekki finna upp á neinu, hvetjum við þau áfram með t.d. : „Jú, heyrðu mig nú, þér hefur nú alltaf þótt gaman að baka eða alla vega borða kökurnar.“ „Hvað myndi þig mest langa til að VIÐ bökuðum núna?“ „Vöflurnar eða skúffukökuna?“ Oft gott að þrengja val fyrir börn og unglinga, það getur skapað meiri festu.
8. Notum oftar VIÐ um þessar mundir og yfirleitt á hættu- eða krepputímum, því þá sendum VIÐ fullorðna fólkið skilaboð til barnanna um að þau séu ekki ein með neina byrði eða hugsun, VIÐ hin fullorðnu séum að halda undir þunganN. Börnum léttir við þetta.
9. Förum alltaf smávegis út ef stætt er á hverjum degi. Hversu lítil sem útivist er, losar hún um vanlíðan í ótrúlegu mæli.
10. Komum upp kvöldlestri upphátt fyrir börnin eða alla fjölskylduna. Fullorðnum finnst líka ótrúlega gaman að lesið sé upphátt fyrir þau. Sniðugt að skiptast á, börn líka fyrir fullorðna.
11. Sumir unglingar vilja alls ekki að lesið sé fyrir sig. Kannski er hægt að tala þá til, svo þeir lesi smávegis fyrir hin yngri.
12. Sé eitthvað sem við fullorðnu höfum brunnið í skinninu eftir að að skamma unglinginn fyrir, þá er þetta ekki rétti tíminn til að gera það. Frekar: „Taka Pollýönnu á það“, og grafa upp hvað mætti hrósa unglingunum á heimilinu fyrir, sleppa neikvæðu rausi. Heimagerðar pizzur og matur sem unglingnum þykir góður og væri jafnvel til í að vera með okkur í að laga, væri heppilegra samvinnuverkefni.
13. Eigum við fyrir matnum? Ef ekki verðum VIÐ sem erum fullorðin á heimilinu að hafa samband við hjálparstofnanir eins og Hjálparstarf kirkjunnar eða féló í hverfinu og biðja um hjálp þar til við komumst aftur á flot.
14. Sé skilnaðarferli á döfinni milli foreldranna, gildir það sama og um ágreining við ungling eða ungmenni á heimilinu. Við hin fullorðnu á heimilinu reynum að setja það mesta af okkar leiðinlegustu hugsunum um aðra til hliðar og aðgætum hvað hægt er að gera, með því að líta í eigin barm, til að heimilislífið gangi pínu betur. Þetta er ekki rétti tíminn til að fara á fullri ferð í skilnað ef mögulegt er. Hugsum um hagsmuni heimilisheildarinnar.
15. Séu börn á leikskólaaldri á heimilinu, er fínt að nota einfallt föndur, lita og bjástra með smáhluti meðan skólabörnin eru í sambandi við kennarana á netinu eða að sinna heimanámi.
16. „Sá sem flöskustúturinn lendir á...“ og ýmsir gamlir afmælisleikir geta stytt stundir. Við megum bara ekki garga á börnin, þeim þykir það vont alveg eins og okkur ef gargað er á okkur...
17. VIÐ erum ekki fullkomin. Reynum að gera hlutina sem þægilegasta og einfaldasta, miðað við venjur í okkar fjölskyldu.
18. Hvað þau elstu og/eða þau veiku varðar þá þurfum VIÐ „að lesa í það“ hvernig best sé að styðja við. „Bera skal sjúkum en bjóða ekki“, segir máltækið. Fara með eldaðan mat er oft miklu sniðugra en spyrja: „Hvað villtu?“
19. Við biðjum fyrir bættri heilsu þjóðanna, einn dag í einu.
20. Svo er það kósý-kvöldið. Ekki gleyma því þó að margt hafi breyst.

hsh





  • Covid-19

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls