Kraftur góðra hugmynda
Á þessari veirutíð skjóta ýmsar hugmyndir upp kollinum í kirkjustarfi eins og þau vita sem fylgjast með.
Kirkjan.is vekur athygli á góðu tiltæki þeirra í Laugarnessöfnuði sem getur verið öðrum hvatning eða uppspretta að enn öðrum hugmyndum. Þau hvetja fjölskyldur í sókninni til að taka þátt í því sem þau kalla samfélagsverkefni undir kjörorðinu: Vorið kemur.
Og hvað er það?
Sr. Hjalti Jón Sverrisson, prestur í Laugarnesinu, er til svara: „Nú á að virkja hina listrænu hlið sóknarbarnanna,“ segir hann, „og hvetja börnin í hverfinu ásamt þeirra fólki til að þramma út í vorið og hafa augun opin.“
Hann segir fyrsta verkefnið vera vorið sjálft, smella einni mynd af því – þemað er vor. Svo kemur annað þema, páskarnir, þar sem hvatt er til að teikna eða lita með þá hátíð í huga.
Þá má geta þess að verkefninu Samfélag og þakklæti er að ljúka í Laugarnessöfnuði. Það fólst í því að fólk sem tengdist Laugarneskirkju með einum eða öðrum hætti á einhverju árabili í lífi sínu skrifaði pistla inn á heimasíðu kirkjunnar. Þetta er fólk sem hefur til dæmis verið í kirkjustarfi eins og prestar, messuþjónar, kórfélagar, umsjónarfólk æskulýðsfélagsins, sóknarnefndarfólk og sunnudagaskólakennarar ... og margir, margir fleiri. Þverskurður af þeim sem hafa látið kirkjustarfið til sín taka með ýmsum hætti á umliðnum árum. Sjötíu ára afmæli kirkjunnar var kveikjan að þessum þakklætisskrifum - kirkjan var vígð í 18. desember 1949. Pistlana má sjá á heimasíðu kirkjunnar hér. Og Facebókar-síða Laugarneskirkju er hér.
Kirkjan.is hvetur aðra söfnuði sem lúra á skemmtilegum tiltækjum að senda línu um það á kirkjan@kirkjan.is
Saman göngum við út í vorið!
hsh
Laugarneskirkja - Guðjón Samúelsson teiknaði - vígð 1949