Veiran raskar hefð en sigrar ekki

9. apríl 2020

Veiran raskar hefð en sigrar ekki

Hallgrímskirkja í Saurbæ. Þar urðu Passíusálmarnir til en talið er að sr. Hallgrímur hafi ort þá á árunum 1656-1659. Mynd tekin á föstudaginn langa 2019.

Sú hefð hefur skapast að Passíusálmar sr. Hallgríms Péturssonar eru lesnir í heild sinni eða að hluta í mörgum kirkjum landsins á föstudaginn langa. Ýmsir hafa komið að lestrinum – leikarar og listamenn, stjórnmálamenn og kennarar, vélstjórar og verkfræðingar, húsmæður og klerkar, bændur og leigubílstjórar – þannig mætti telja endalaust. Alls konar fólk. Í raun þjóðin. Stundum hefur einn lesari séð um lesturinn, karl eða kona, eða fleiri skipt honum með sér. Og svo má ekki gleyma lestri sálmanna í útvarpinu á föstunni en þeir voru fyrst lesnir þar árið 1944 og lesarinn var sr. Sigurbjörn Einarsson, biskup.

Passíusálmarnir eru hvort tveggja trúarmenningararfur og bókmenntaarfur landsmanna sem er í hávegum hafður.

Sálmarnir tilheyra umfram allt kyrruviku, dymbilviku, föstudeginum langa, og svo sem í annan tíma þá þjáning knýr dyra eða andleg þörf. Þeir tala til fólks enda þótt allir séu ekki öllu sammála sem þar er reifað. Sum versanna eru sígild og munu fylgja þjóðinni um aldur og ævi.

Kirkjan.is hafði samband við nokkra presta og spurði þá hvernig Passíusálmalestri yrði háttað að þessu sinni á kórónuveirutíð. Mörg voru svörin. Sums staðar verða Passíusálmarnir lesnir og lestrinum streymt en annars staðar er lestur felldur niður þetta árið. En mjög víða verða helgistundir og bænastundir hafðar um hönd með ýmsum hætti. Hver og einn verður að gæta að þeim á heimasíðum kirkju sinnar eða Facebókarsíðu.

Ferðumst innanhúss og hlustum á Passíusálmana!  En rétt er að vekja athygli á streymi nokkurra kirkna á Passíusálmalestri svo lesendur geti valið úr – farið á milli lestrarstaða vítt og breitt um landið án þess að fara út fyrir hússins dyr enda ferðumst við núna bara innanhúss. Hlýðum því góða ráði þessa dagana! Við getum nefnilega tekið með eftirminnilegum hætti þátt í lestrarstundunum – notið trúar- og menningararfsins hvar sem hver er staddur/stödd heima hjá sér. Já, líka úti í bílskúr! Og í fjárhúsunum! Alls staðar!

Þau streyma Passíusálmalestri – og jafnvel fleiri sem við fréttum ekki af – en sendið þá línu á kirkjan@kirkjan.is:

Seltjarnarneskirkja Streymt verður á Facebókarsíðu kirkjunnar á föstudaginn langa frá kl. 13.00 til um kl. 18.00. Það er 25 manna hópur sem les og milli lestra munu þau Guðný Guðmundsdóttir, fiðluleikari, og Gunnar Kvaran, sellóleikari, leika tónlist sem hæfir efninu.

Hallgrímskirkja í Saurbæ – kirkjan verður opin á morgun. Sr. Jónína Ólafsdóttir streymir lestri á nokkrum sálmum kl. 13.00 á Facebókarsíðu Akraneskirkju.

Djúpavogskirkja – þar verður úrval úr sálmum lesið af ýmsum og því streymt á Facebókarsíðu kirkjunnar, kl. 14.00 til 16.00. Sr. Alfreð Örn Finnsson, stýrir lestrinum. – Einnig á Facebókarsíðu Aufstfjarðaprestkalls.

Laugarneskirkja – þar mun hópur sjálfboðaliða úr hverfinu koma og lesa hver sinn sálm. Ilmur Kristjánsdóttir, leikkona, stýrir verkinu – fólk kemur skráir sig á lestrarvakt, les sinn sálm, og hverfur á braut. Streymt verður á Facebókarsíðu kirkjunnar kl. 10.00.

Skálholtsdómkirkja - Halldór Hauksson les, Jón Bjarnason er við orgelið. Hér má hlusta. 

Lágafellskirkja í Mosfellsbæ - Söfnuðurinn hefur haft samstarf við Leikfélag Mosfellsbæjar um lesturinn. Í dymbilviku hafa leikarar úr leikfélaginu lesið einn af passíusálmum sr. Hallgríms Péturssonar á degi hverjum. Lesturinn má nálgast hér.

Guðríðarkirkja í Grafarholti - Sigurður Skúlason, leikari, les alla Passíusálmana í Guðríðarkirkju og hefst lesturinn á föstudaginn langa kl. 13.00. Hrönn Helgadóttir leikur á orgel í hléum lestrarins. Kirkjan verður opin en aldrei mega þar vera fleiri en 20 í einu. Streymt verður á Facebókarsíðu kirkjunnar, hér.

Þá vill kirkjan.is minna á útsendingu frá Háskólakapellunni á morgun kl. 17.00:

Sameiginleg stund þjóðarinnar Kyrrðarstund með biskupi Íslands, verður sjónvarpað frá Háskólakapellunni 10. apríl, föstudaginn langa, kl.17.00. Sr. Agnes M. Sigurðardóttir flytur ávarp í upphafi stundarinnar og leiðir hana svo. Þau sem taka til máls eru: Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar, og Joanna Marcinkowska, sérfræðingur á mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, og flytur hún sitt mál á pólsku. Þá verður margvísleg tónlist flutt við þessa stund. Kyrrðarstundin er textuð á síðu 888 í textavarpinu.

Passíusálmar sr. Hallgríms Péturssonar

Vefur um sr. Hallgrím Pétursson

hsh
  • Fræðsla

  • Frétt

  • Guðfræði

  • List og kirkja

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Fræðsla

  • Menning

  • Samfélag

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls