Íslenskur guðspjallamaður í Leipzig
Það hefur verið hefð í nær tvær aldir, eða nákvæmar í 170 ár, að syngja Jóhannesarpassíuna í Tómasarkirkjunni í Leipzig. Og það er ekki nein venjuleg kirkja því að þar hvílir meistarinn sjálfur, fimmti guðspjallmaðurinn.
Og passían var sungin við gröf hans. Í gær. Á föstudaginn langa.
Það er okkar maður, Benedikt Kristjánsson, sem söng passíuna með glæsibrag við undirleik snjallra hljóðfæraleikara.
Hann söng einn – íslenskur guðspjallamaður.
Það var enginn kór í kirkjunni.
Allir bekkir auðir. Engir áheyrendur.
En aldrei fleiri hafa hlustað. Rúmlega tvöhundruð þúsund manns.
Og kórinn, hvar var hann?
Sálmalögin voru sungin út um allan heim – þátttöku kóra í flutningi Benedikts var streymt í gegnum netið.
Þar sem kórónuveiran hefur breytt ýmsu þá þarf að koma með krók á móti bragði. Benedikt útsetti verkið með þeim hætti að hann ásamt tveimur hljóðfæraleikurum getur flutt það. Yfirleitt er Jóhannesarpassían flutt af hópi fólks, allt frá þrjátíu manns upp í eitt hundrað.
Þetta form passíunnar fékk þýsku tónlistarverðlaunin Opus Klassik sem nýstárlegustu tónleikar ársins 2019, en flutningurinn í Leipzig var sá 10. í röðinni. Tríóið flutti passíuna í Hallgrímskirkju í mars, rétt áður en samkomubann var sett á og þar sungu tónleikagestir í fullri kirkju sálmana með. Ríkisútvarpið útvarpaði þeim flutningi í gærkveldi.
Og áheyrendur – hvar voru þeir?
Heima. Enda er heima best um þessar mundir. Og sér í lagi þegar menningin og trúin kemur til fólksins í þessum búningi.
Öllum var boðið til tónleikanna. Í raun allri heimsbyggðinni ef út í það er farið. Fólk sat heima og fylgdist með í sjónvarpi, síma eða öðrum snjalltækjum. Og meira en fylgdist með. Margir tóku þátt í söngnum heima.
Segja má að þessir tónleikar hafi verið tímamótaviðburður í íslenskri tónlistarsögu – og ekki síður í kirkjutónlistarsögu. Þeir sýna líka hvílíkur listamaður Benedikt Kristjánsson er. Ekki bara á íslenskan mælikvarða heldur heimsmælikvarða.
Tónleikunum var streymt um netið auk þess sem þeir voru í beinni útsendingu á þýskum sjónvarps- og útvarpsstöðvum. Hér má sjá og hlusta á tónleikana.
hsh
.
Benedikt Kristjánsson í viðtali sjá hér.